Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, segir fullt tilefni til að þrengja að hraðakstri á Geirsgötu þar sem banaslys varð árið 2011. Hann segir ósmekklegt af Vigdísi Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins, að segja að hægari umferð um götuna muni auka slysahættu.
Unnið er nú við að setja nýja stoppistöð Strætó við Geirsgötu, en ekkert útskot verður við götuna fyrir strætisvagna til að beygja inn í og hleypa þannig bílum fram fyrir sig. Haft var eftir Vigdísi í Morgunblaðinu í gær að framkvæmdirnar væru „eins konar hryðjuverk gegn fjölskyldubílnum“.
„Ef strætó á að fara að stoppa þarna á miðri götu með hugsanlegri slysahættu þá lýsi ég fullri ábyrgð á hendur borgarstjóra og meirihlutanum. Það er komið að þanmörkum hvað þrengingarstefnu þessa fólks varðar og þetta svæði nálgast það að verða tifandi tímasprengja,“ sagði Vigdís.
„Að sjálfsögðu á að þrengja að hraðakstri þarna og mætti gjarnan gera meira“
Gísli Marteinn brást við orðum Vigdísar á Twitter, en hann hefur lært borgarfræði við Edinborgarháskóla og Harvard. „Það er ósmekklegt að vísa í að strætó sem staðnæmist skapi slysahættu, þegar staðreyndin er sú að hann hægir á umferð í götu þar sem varð hræðilegt banaslys vegna hraðaksturs,“ skrifar Gísli Marteinn. „Að sjálfsögðu á að þrengja að hraðakstri þarna og mætti gjarnan gera meira.“
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs, segist ekki óttast umferðartafir vegna strætisvagnaumferðar. „Þessi framkvæmd er hugsuð til að auka öryggi hjólandi vegfarenda með tvöföldum hjólastíg norðan við Geirsgötu,“ skrifaði hún á Twitter. „Umferðin á að vera hæg um þessa götu og lítið mál fyrir strætó að stoppa.“
Athugasemdir