San Remo heitir bær á ítölsku Rívíerunni, einkar skjólsæll og sólríkur. Fyrir réttum 100 árum bjuggu þar eitthvað um tíu þúsund og sýsluðu við fiskveiðar og ferðamennsku. Margar voru þær silkihúfurnar sem höfðu gist fínustu hótelin í San Remo, allt frá Sissi keisaraynju Austurríkis til Nikulásar II Rússakeisara.
Upp úr miðjum apríl 1920 var heilmikið tilstand í bænum því þangað voru þá mættir forsætisráðherrar þriggja af forystuþjóðum bandamanna í nýlokinni heimsstyrjöld. Þetta voru David Lloyd George frá Bretlandi, Alexandre Millerand frá Frakklandi og heimamaðurinn Francisco Nitti. Með þeim komu utanríkisráðherrar þeirra og helstu diplómatar. Auk þess voru komnir á lúxushótelin fulltrúar Japana, sem töldust til bandamanna, áheyrnarfulltrúar Bandaríkjanna, og ýmsir fleiri, því nú stóð mikið til.
Ottómanaríki Tyrkja hrunið
Ákveða átti hvernig skipa skyldi málum í Mið-Austurlöndum þar sem hið fallna Ottómanaríki Tyrkja hafði ráðið ríkjum. Eftir þátttöku í heimsstyrjöldinni við hlið Þjóðverja var það nú gjörsamlega hrunið.
Tyrkir höfðu ráðið Mesópótamíu (Írak), Sýrlandi og Palestínu í fjórar aldir. Ottómanar tóku líka Arabíuskaga á sínum tíma en hélst illa á honum. Á 18. öld fór að rísa arabískt ríki á austanverðum skaganum sem hverfðist um Muhammed bin Sád og afkomendur hans. Þeir máttu að lokum heita kóngar á svæðinu.
Ottómanar létu það gott heita, enda eftir litlu að slægjast í eyðimörkinni þar um slóðir. Þeir héldu hins vegar lengst af fast í vestanverðan skagann af því þar voru hinar heilögu borgir Medína og Mekka. Í byrjun 20. aldar ríkti yfir svæðinu fulltrúi Ottómana, Hussein bin Alí, og hafði embættisheitið sharif, hann var að langfeðgatali af emírum þar um slóðir, Hasémítar hét sú ætt. Og eftir því sem Tyrkjaveldi hnignaði höfðu sharifarnir í Mekka orðið sjálfstæðari.
Bretar í vandræðalegri stöðu
Í baráttu sinni við Tyrki í heimsstyrjöldinni höfðu bandamenn, aðallega Bretar, bundið mjög trúss sitt við Hussein bin Alí og töldu um tíma einsýnt að hann skyldi fá að ríkja yfir Arabíuskaga. Hussein og synir hans voru leiðtogar uppreisnar sem Arabar höfðu gert gegn Tyrkjum árið 1916. Arabísku uppreisnarherirnir náðu ágætum árangri og tóku meira að segja eina af helstu borgum svæðisins, Damaskus í Sýrlandi. Í mars 1920 lýsti einn af sonum Husseins, Fæsal, sig konung Sýrlands og Líbanons, sem er hin forna Fönikía. Bandamenn fóru þá að hafa áhyggjur, enda höfðu Frakkar ætlað sér stjórn í Sýrlandi.
Bretar voru á hinn bóginn í vandræðalegri stöðu, þar sem þeir höfðu jú stutt og magnað upp Hussein bin Alí og syni hans, þar á meðal Fæsal. Hann var mikill vinur Breta og yfirleitt hliðhollur Evrópumönnum.
Því var blásið til ráðstefnunnar í San Remo sem hófst 19. apríl.
Herrar ráða ráðum sínum
Í orði kveðnu snerust áhyggjur bandamanna um að íbúar Mið-Austurlanda væru ekki tilbúnir til að stjórna sér sjálfir eftir svo langa hersetu og kúgun Tyrkja, en vitanlega var ekki síður um að ræða þá nýlendustefnu og heimsvaldapólitík sem hin vestrænu stórveldi voru þá svo gegnsýrð af. Grunur um að miklar olíulindir kynnu að leynast í Írak var til dæmis farinn að skipta verulegu máli, því notkun á olíu var að verða æ mikilvægari með aukinni vélvæðingu.
Á nokkrum fögrum vordögum réðu hinir vestrænu herrar ráðum sínum eins og háttur þeirra var. Friðarsamningar við Tyrki sjálfa biðu að vísu fram á haustið en að öðru leyti voru herrarnir ekki í vandræðum með að skipa löndum. Að mestu var líka byggt á leynilegu plaggi sem Bretar og Frakkar höfðu barið saman 1916 og nefnt hefur verið Picot-Sykes samkomulagið.
Frakkar höfðu nú sent einn af sínum helstu hershöfðingjum, Henri Gouraud, til að brjóta á bak aftur hið sýrlenska konungsríki Fæsals og máttu vita að það tækist vandræðalítið.
Hafði verið lofað sjálfstæði
Þegar Fæsal yrði kveðinn í kútinn myndu Frakkar taka við stjórninni í Sýrlandi og Líbanon, eins og kveðið hafði verið á um í Picot-Sykes plagginu. Um það voru ráðstefnugestir í San Remo sammála og töldu sig ekki þurfa að spyrja Sýrlendinga álits.
Sýrlendingar skildu síst í því af hverju þeir áttu nú að lúta Frökkum eftir að hafa verið hvattir til þess af bandamönnum að taka þátt í uppreisninni gegn Tyrkjum, en þá höfðu bandamenn reyndar lofað þeim hátíðlega að þeir gætu fengið sjálfstæði eftir heimsstyrjöldina.
Svo fór þó sem búist var við að í júlí 1920 varð Fæsal Sýrlandskóngur að beygja sig fyrir úrslitakostum Frakka og samþykkti að verða á brott frá Damaskus.
Stríðsmálaráðherra hans, Júsuf al-Azma, neitaði að vísu að gefast upp og féll í orrustu við Frakka þar sem heitir Majsalun í Líbanonsfjöllum.
Sigur krossins yfir hálfmánanum
Þá var það sem Gouraud hershöfðingi gekk að sögn að gröf Saladíns soldáns sem hafði betur gegn konungum Frakklands og Englands í þriðju krossferðinni 1189–1192, sparkaði í gröfina og mælti af yfirlæti heimsvaldasinnans:
„Vaknaðu, Saladín. Við erum komnir aftur. Koma mín hingað helgar sigur krossins yfir hálfmánanum.“
Og ættu menn svo ekki að vera mjög hissa þótt arabískir baráttumenn gegn Vesturlöndum eigi til að grípa til líkingamáls úr krossferðunum og kalla vestræna menn krossfara.
Bretum var úthlutað bæði Mesópótamíu og Palestínu af herramönnunum í San Remo. Nákvæmlega hvar skil væru milli „verndarsvæða“ þeirra og landsvæða Husseins bin Alís í Mekka var ögn óljóst enda ófrjósamar eyðimerkur þar svo langt sem augað eygði.
Ekkert var í San Remo fjallað um Arabíuskagann sjálfan, en þar ríkti nú Ibn Sád, ættarlaukur Sád-ættarinnar, sem emír í austri en Hussein bin Alí var enn í fullu fjöri í vestrinu.
Zíonistar mæta á fund
En fleiri létu sjá sig í vorveðrinu í San Remo. Sendinefnd Gyðinga var komin til að skipta sér af örlögum Palestínu, en þangað höfðu Gyðingar flust í æ ríkara mæli undanfarna áratugi í nafni zíonismans. Hann kvað eins og menn vita á um að Gyðingar ættu rétt á að eignast heimaland í Palestínu, á sínum ævafornu slóðum síðan í Biblíusögunum.
Fyrir sendinefnd zíonistanna fór lágvaxinn en aðsópsmikill og svipsterkur lífefnafræðingur, fæddur í Rússlandi, Chaim Weizmann. Á stríðsárunum hafði hann verið óþreytandi að leggja Bretum lið gegn Tyrkjum í Mið-Austurlöndum og vildi að sjálfsögðu fá eitthvað fyrir sinn snúð.
Í byrjun nóvember 1917 átti Weizmann einna mestan þátt í að Arthur Balfour, þáverandi utanríkisráðherra Breta, gaf opinbera yfirlýsingu þar sem staðhæft var að Bretar styddu „að komið yrði á fót í Palestínu þjóðarheimili fyrir þjóð Gyðinga“.
Hvað þýðir „þjóðarheimili“?
Nákvæmlega hvað þessi yfirlýsing þýddi og hvað átt væri við með „þjóðarheimili“ var helstil óljóst. Af hálfu Breta var samt á hreinu að ekki væri endilega átt við sérstakt Gyðingaríki og allra síst ríki þar sem Gyðingar drottnuðu yfir Aröbum og öðrum íbúum.
Það hefði líka verið fráleitt, því af 700.000 íbúum í Palestínu voru aðeins 76.000 Gyðingar og nærri allir höfðu flust þangað síðustu 40 árin. Fyrir 1850 var bara „handfylli Gyðinga“ í landinu, eins og segir í skýrslu bresku stjórnarinnar frá 1921.
Kristnir menn voru raunar ívið fleiri í Palestínu árið 1920 en Gyðingar. Þeir tilheyrðu flestir rétttrúnaðarkirkjunni grísku en töluðu arabísku. Múslimar voru tæplega 550.000.
Zíonistar hamra járnið
Breska stjórnsýslan var hliðholl Gyðingum, ekki síst vegna dyggrar aðstoðar Weizmanns og félaga í baráttunni gegn Tyrkjum, en líklega töldu þó flestir Bretar í fyrstu að yfirlýsingin þýddi ekki annað en að tryggt yrði að Gyðingar gætu búið óáreittir í Palestínu, þeir sem kysu að setjast þar að.
Weizmann og félagar voru hins vegar ákveðnir í að hamra járnið meðan það var heitt. Hann og helstu samverkamenn hans, pólski blaðamaðurinn Nahum Sokolow og breski þingmaðurinn Herbert Samuel, mættu því galvaskir til San Remo og kröfðust þess að Balfour-yfirlýsingin yrði fléttuð inn í þann texta ráðstefnunnar, er snerist um yfirráð Breta í Palestínu.
Þetta var rætt á ráðstefnunni í heilan dag þann 24. apríl, daginn áður en henni lauk. Frakkar mölduðu mjög í móinn en Balfour, sem var mættur til San Remo sem ráðgjafi, studdi Weizmann og félaga. Að lokum urðu Bretar ofan á og ráðstefnan féllst á kröfu zíonistanna um að bandamenn skyldu allir sem einn stefna að „þjóðarheimili“ fyrir Gyðinga.
Skrúðgöngur zíonista
Að vísu var tekið sérstaklega fram í ráðstefnuplagginu að ekkert mætti gera á hlut borgaralegra eða trúarlegra réttinda annarra, en zíonistar fögnuðu ákaflega. Þeir litu með réttu svo á að þar með hefðu bandamenn, og einkum Bretar, skuldbundið sig til að gæta alveg sérstaklega réttinda Gyðinga og væntanlegs „þjóðarheimilis“ þeirra í Palestínu.
Svo kátir voru zíonistar eftir San Remo ráðstefnuna að þeir skipulögðu meira að segja skrúðgöngur í mörgum löndum til að halda upp á að Balfour-yfirlýsingin væri þannig orðin óafmáanlegur partur af stefnu og hugmyndafræði bandamanna.
„Gyðingurinn gangandi“ eignast heimili!
Í Lundúnablaðinu The Times birtist frásögn af fögnuðinum og þar kom tvennt mjög greinilega fram: Annars vegar ástæðurnar fyrir gleði zíonista og hins vegar sú túlkun, sem var að verða æ meira áberandi hjá zíonistum og stuðningsmönnum þeirra, að „þjóðarheimili“ þýddi einhvers konar ríki Gyðinga, þótt undir breskri stjórn væri. Í blaðinu sagði:
„Þetta þýðir að loksins, eftir 20 aldir, geta Gyðingar byrjað að endurheimta sitt forna Heimaland undir traustri og siðmenntaðri stjórn [Breta]. „Gyðingurinn gangandi“ mun nú loks eignast heimili.“
Í San Remo skrifuðu herramenn undir yfirlýsingu þann 25. apríl 1920 þar sem allt ofangreint kom fram. Og kvöddust þeir svo innvirðulega og settu upp harðkúluhatta sína að loknu góðu verki þessa viku, fannst þeim.
Uppreisn gegn Bretum
Strax í maí kom hins vegar í ljós að íbúar í Mesópótamíu skildu engu betur en Sýrlendingar af hverju þeir áttu nú að sætta sig við ný erlend yfirráð þegar þeim hafði verið lofað sjálfstæði eftir uppreisnina gegn Tyrkjum 1916. Mikil mótmæli brutust út gegn Bretum og breski herinn þurfti að taka á öllu sínu til að bæla hana niður.
Bretar ákváðu síðan að til að friða íbúa skyldu þeir leggja af formleg yfirráð yfir Mesópótamíu og stofna þar konungsríki, sem þó stóð aldrei til að yrði annað en leppur þeirra. Þeir völdu til konungs Fæsal vin sinn, burtrekinn frá Sýrlandi, og þótt íbúar í Mesópótamíu þekktu hvorki haus né sporð á Fæsal þessum tókst honum að afla sér stuðnings til konungs og var krýndur í ágúst 1921.
Ætt hans ríkti svo í Írak undir öruggri handleiðslu Evrópumanna þar til árið 1958 þegar sonarsyni hans Fæsal II var steypt af stóli af herforingjum.
Ríki verður til af tilviljun
Eins og sjá má af nútímakortum er eitt ríki enn á þessu svæði sem er ónefnt: Jórdanía. Og tilorðning þess er reyndar hálfgerð tilviljun.
Eftir að Frakkar höfðu hrundið Fæsal frá Sýrlandi í júlí 1920 og stofnað sitt „verndarríki“ þar kom í ljós að þeir höfðu engan áhuga á syðsta hluta Sýrlandssvæðisins, sem þá var kallað Trans-Jórdanía. Það var bláfátækt hérað og nálega ekkert nema eyðimörk. Eldri bróðir Fæsals, Abdúllah prins, hélt þá með nokkurn her inn á svæðið frá Mekka og hugðist ráðast þaðan norður á bóginn til Damaskus til að segja ættina aftur til ríkis.
Ekkert land tekið Aröbum
Bretar hvöttu hann ákaft til að hætta við vonlausa herför gegn Frökkum. Sljákkaði þá nokkuð í Abdúllah en hann lýsti hins vegar líka áhyggjum af því að Bretar myndu koma upp konungsríki Gyðinga í Palestínu. Bretar töldu greinilega að hætta væri á að Abdúllah stefndi her sínum þangað til að kveða Gyðinga í kútinn, og fullvissuðu hann um að engin hætta væri á yfirgangi Gyðinga í Palestínu. Nýr landstjóri Breta í Palestínu kvað sterkt að orði um það:
„Það var engin spurning um að setja upp ríkisstjórn Gyðinga þar […] Ekkert land yrði tekið frá neinum Araba, né heldur yrði hróflað á nokkurn hátt við trú múslima.“
Í teboði með Churchill
Kaldhæðnislegt má telja að þessi nýi landstjóri var Herbert Samuel, sem fylgt hafði Chaim Weizmann dyggilega á ráðstefnunni í San Remo. Svo fór að snemma næsta árs bauð nýr nýlenduráðherra Breta, Winson Churchill, Abdúllah til „teboðs“, þar sem hann gerði prinsinum tilboð. Hann mætti hirða Trans-Jórdaníu, hrófla þar upp nýju ríki með blessun og vernd Breta og verða þar emír og að lokum kóngur þegar landið fengi sjálfstæði, gegn því að láta af öllum belgingi gegn Frökkum í Sýrlandi eða Gyðingum í Palestínu.
Þessu tilboði gat Abdúllah ekki hafnað og því er sonarsonarsonur hans, Abdúllah II., nú kónungur í Jórdaníu, í ríki sem ella hefði líklega aldrei orðið til og yfir fólki sem á tilveru sína sem sérstök „þjóð“ undir teboði Churchills.
Athugasemdir