Ekki eru marktækar breytingar á fylgi stjórnmálaflokka milli kannana MMR, fyrir utan að fylgi Sósíalistaflokksins eykst marktækt. Flokkurinn mælist nú með 5,6 prósenta stuðning en mældist með 3,4 prósenta stuðning fyrir tíu dögum. Slíkt fylgi myndi duga flokknum til að fá kjörna fulltrúa á Alþingi en flokkurinn á ekki fulltrúa þar.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi á landsvísu, 22,7 prósent samanborið við 23,5 prósent 7. apríl síðastliðinn. Samfylkingin kemur næst á eftir, með 13,1 prósent en mældist síðast með 14,1 prósent. Píratar eru þriðji stærsti flokkurinn og standa því sem næst í stað, mælast nú með 12,3 prósenta stuðning sem er 0,1 prósentustigi minna en síðast. Þessar fylgisbreytingar eru allar innan vikmarka
Fylgi Vinstri grænna mælist nú 1,9 prósentustigi lægra en síðast, er nú 10,4 prósent. Viðreisn nýtur stuðnings 10 prósenta aðspurðra en mældist síðast með 9,6 prósent. Framsóknarflokkur nýtur stuðnings 9,8 prósenta aðspurðra, einu prósentustigi meira en í síðustu könnun. Fylgi Miðflokksins mælist nú 9,5 prósent en mældist síðast 10,7 prósent. Allar þessar fygisbreytingar eru innan vikmarka, sem og breytingar á fylgi Flokks fólksins, sem nú mælist með 4,7 prósent fylgi en mældist síðast með 3,4 prósenta fylgi. Mjög litlu munar þó að um marktæka breytingu sé að ræða í því tilfelli.
Stuðningur við ríkisstjórnina mældist nú 51,1 prósent og minnkar um rúm fimm prósentustig frá síðustu könnun, þar sem hann mældist 56,2 prósent.
Könnunin var framkvæmd dagana 15. til 17. apríl og svöruðu 1.051 einstaklingur henni.
Athugasemdir