Þegar hamfarir ríða yfir samfélagið eru viðbrögð flestra að hjálpa öðrum, en tilhneiging er til að ákveðnir aðilar nýti sér glufur eða glundroða í eigin þágu á kostnað annarra.
Það er yfirleitt í krísum sem við komumst að kjarnanum í fólki, hvort það hneigist til þess fyrrnefnda eða síðarnefnda. Þetta sáum við í efnahagsbrotamálum og siðferðislega hömluðu bjargræði áhrifamanna í bankahruninu, þótt yfirvöld hafi bannað umfjöllun um það á tímabili, og þessa munum við sjá merki í yfirstandandi krísu.
Starfsöryggisfyrirtæki
Fyrirtækið Securitas, sem selur meðal annars þjófavörn, var staðið að því að misnota aðstoð úr sameiginlegum sjóðum okkar. Aðstoðin, sem heitir hlutabótaleiðin, hefur þann tilgang að varðveita starfsöryggi, en öryggisfyrirtækið fékk þær ráðleggingar frá Samtökum atvinnulífsins að það gæti nýtt sér aðstoðina til þess að losna við starfsfólk með ódýrum hætti: Láta ríkið borga laun starfsfólks á uppsagnarfresti.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagðist túlka lög ríkisstjórnarinnar með þeim hætti að segja megi upp fólki og setja á hlutabætur á sama tíma. Hann reyndi að sannfæra Alþýðusamband Íslands um þetta. „Samkvæmt orðanna hljóðan í lagatexta er það með þeim hætti og eins og ég segi, við eigum þetta uppbyggilega samtal milli Samtaka atvinnulífsins og ASÍ.“
Forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar sem mótaði hlutabótaleiðina, til að „tryggja ráðningasamband fólks við atvinnurekanda sinn“, útskýrði þetta svona á Alþingi: „Það að við séum að gera ráð fyrir því að 20 til 30 þús. manns fari á hlutabætur, til þess að tryggja þeim áfram atvinnu, er það ekki í anda velsældar?“
Í stuttu máli átti að minnka kostnað fyrirtækja við að viðhalda starfssambandi við fólk, en ekki gera ódýrara að losna við það.
Meiri sameign, takk
Um páskana var loksins greint frá því að sjö útgerðarfélög, sem mörg hver hafa hagnast stórkostlega síðasta áratuginn á nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar - skilgreindrar „sameignar íslensku þjóðarinnar“ samkvæmt lögum - hefðu farið fram á að fá greidda tíu milljarða króna úr sameiginlegum sjóðum okkar í bætur, vegna þess að þeim hefði lögum samkvæmt borið að fá meiri kvóta í makríl á síðustu árum, byggt á dómi Hæstaréttar.
Frá árinu 2011 til 2018 höfðu sömu útgerðarfélög fengið gefins hjá síðustu ríkisstjórnum andvirði 50 milljarða króna veiðiheimilda.
Til að leita hliðstæðu verður að leita í bókmenntasöguna, nánar tiltekið í verkið Skúli skelfir og jólin, eftir Francescu Simon, sem kom út í íslenskri þýðingu árið 2009. Aðalpersónan, Skúli skelfir, ritaði þar bréf til jólasveinsins til þess að sækja rétt sinn gagnvart honum vegna ófullnægjandi gjafa.
„Kæri jólasveinn, ég vil fá hrúgu af peningum til að bæta fyrir þetta smáræði sem þú settir í sokkinn minn í fyrra... Þetta er síðasta tækifæri þitt.“
Í kjölfarið ákvað aðalpersónan í verkinu að veita jólasveininum fyrirsát næstu nótt og taka af honum pokann með gjöfunum fyrir alla, þar sem jólasveinninn hefði sýnt fram á að honum væri ekki treystandi til að velja gjafir.
Gjafir eru yður gefnar
Svo vill til að hæsta skaðabótakrafan var frá Ísfélagi Vestmannaeyja, útgerðarfélagi Guðbjargar Matthíasdóttur, upp á tæplega 3,9 milljarða króna, en sami aðili á einn stærsta hlutinn í Morgunblaðinu og hefur niðurgreitt rekstur þess ásamt öðrum útgerðarfélögum fyrir á þriðja milljarð króna síðustu ár með Davíð Oddsson, fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins, í ritstjórastólnum.
Svo vildi líka til að stjórnarformaður Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, Sigurbjörn Magnússon, sendi tilkynningu í gærkvöldi þar sem hann boðaði fyrir þjóðinni að fimm af sjö útgerðarfélögunum hefðu kosið að afsala sér réttinum „til heimtu skaðabóta vegna þess tjóns sem þau urðu fyrir“, þegar við gáfum þeim ekki nægilega mikið.
Sigurbirni, sem er auðvitað líka faðir dómsmálaráðherra, þykir hófsemd útgerðarfélaganna vitnisburður um styrkleika íslensks samfélags. „Það er hins vegar á svona stundum sem styrkleikar íslensks samfélags koma vel í ljós. Víðtæk samstaða og baráttuhugur hafa einkennt samfélagið síðustu vikur og mánuði. Nú verða allir að leggja lóð á vogarskálar.“
„Nú verða allir að leggja lóð á vogarskálar.“
Samt hafi þetta verið rétt hjá þeim, segir stjórnarformður Morgunblaðsins. „Það sem mest er um vert er að settum lögum sé fylgt og ábyrgð fylgi því þegar út af bregður. Það á við um fyrirtæki, einstaklinga og stjórnvöld. Þetta er einn grundvallarþáttur réttarríkis.“
Ef það er einhver sem þolir yfirstandandi krísu og tilheyrandi fall gjaldmiðilsins, er það sjávarútvegurinn, sem hefur aukið eigið fé um 341 milljarð króna á rúmum áratug.
Í ljósi framvindunnar er athyglisvert að fyrir tæpum þremur árum munaði litlu að hér hefði verið sett saman ríkisstjórn Viðreisnar, Pírata, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna, sem hafði á stefnuskránni að afla markaðsvirðis fyrir nýtingu á fiskveiðiauðlindinni, en í staðinn hefur verið haldið áfram að afhenda hana sem séreign.
Ábyrgð þegar út af bregður
Meðal fyrirtækja sem fara núna hlutabótaleiðina er útgerðarfélagið Samherji, sem hefur hagnast um 112 milljarða króna á síðustu átta árum.
Bláa lónið, sem hefur hagnast ævintýralega á uppsveiflu síðustu ára, sem er í grunninn tilkomin vegna aukinnar ásóknar fólks í að upplifa íslenska náttúru, hefur greitt eigendum sínum 12 milljarða króna í arð á síðustu sex birtu rekstrarárum. Þrátt fyrir það, og hugsanlega vegna þess, fá 400 starfsmenn Bláa lónsins núna 75 prósent launa sinna úr sameiginlegum sjóðum okkar.
Einn af þeim sem hefur hagnast verulega á Bláa lóninu er fjárfestirinn Helgi Magnússon, sem jafnframt er stjórnarformaður Bláa lónsins. Hann hefur nýtt auðæfi sín til að kaupa Fréttablaðið, og hefur meðal annars „eflingu atvinnulífsins“ sem hluta af ritstjórnarstefnu, sem endurspeglast líka í samhljómi við hagsmuni Samtaka atvinnulífsins í ritstjórnargreinum. Félag Helga fékk 255 milljóna króna arðgreiðslu frá Bláa lóninu í fyrra.
Það kom einmitt fram í Fréttablaðinu í gær að Bláa lónið hefði verið eitt af 14 fyrirtækjum sem gáfu Landspítalanum öndunarvélar og aðrar lækningavörur, fyrir milligöngu Samtaka atvinnulífsins, á sama tíma og ríkið greiðir laun starfsmanna.
Sanngirni og hagsmunir
En nú erum við öll sem sagt að hlaupa undir bagga með fyrirtækjunum, sem það kjósa, óháð því hvort þau hafi raunverulega þörf á því eða ekki, enda höfum við ekki góðar leiðir til að sannreyna þörfina með þeim takmörkuðu upplýsingum sem gefast í núverandi kerfi. Allt vegna þess að þannig er talið að hagsmunir okkar verði best varðir, enda kostar samfélagið töluvert að færa fólk til á milli starfa, eins og gerist við uppsagnir, og hraðar efnahagssveiflur geta valdið óþörfum skaða.
En nú þegar verið er að ráðstafa 230 milljörðum króna af almannafé, eða sem nemur 8 prósent landsframleiðslu á Íslandi, í björgunaraðgerðir, er sérstök ástæða til gagnrýninnar umræðu frekar en að fólk „hlýði Víði“, haldi sig inni og þegi meðan stjórnmálamennirnir útfæri. Sviptingum fylgir nefnilega endurmótun samfélagsins, hvort sem við viljum það eða ekki. Spurningin er hvernig og hversu mikið.
Þegar ríkið útdeilir fjármunum vakna spurningar, ekki bara um jafnræði, meðalhóf og heildræna efnahagslega útkomu, heldur um sanngirni, réttlæti og jöfnuð.
Það er eðlilegt að fjárfestar fái eitthvað gegn fjárfestingu sinni, enda kostar að fjárfesta, en er sanngjarnt að það fyrirtæki landsins sem grætt hefur einna mest á uppsveiflunni, taki ekki ábyrgð á að þola og aðlagast niðursveiflu?
Önnur spurning er hvort það er raunverulega gott að binda þennan fjölda fólks við störf sem ganga ekki upp í nálægri framtíð. Viljum við binda hótelstarfsólk á biðlaunum hjá ríkinu í meira en ár? Væri betra að fara aðrar leiðir en að hindra mögulega þarfa tilfærslu á vinnumarkaði?
Fyrirtæki eru tæki
Margir myndu segja að það væri ósanngjarnt að krefja fyrirtæki um að standast djúpar, líklega tímabundnar krísur, eins og þessa, jafnvel þótt þau hafi hagnast verulega vegna sameiginlegra auðlinda. Sumir segja að það sé rangt að horfa á uppsafnaðan hagnað eða arðgreiðslur, enda kostar að fjárfesta og eðlilegt að fjárfestar fái eitthvað fyrir það.
Það þarf hins vegar að horfa til þess að fyrirtæki eru ekki fólk, heldur hýsill fyrir áhættu. Fólk, yfirleitt mjög ríkt fólk, getur tekið fé út úr fyrirtæki, en fólk getur ekki skipt um kennitölu. Fyrirtæki með takmarkaða einstaklingsábyrgð er sett upp til að verja einstaklinga á bakvið fjárfestinguna. Þegar fyrirtækið verður gjaldþrota geta þeir haldið áfram öðrum fjárfestingum án þess að hafa áhyggjur af öðru en því sem þeir töpuðu inni í fyrirtækinu sjálfu.
Sú þekking og geta sem hefur safnast upp á undanförnum árum í ferðaþjónustu liggur ekki síst hjá einstaklingum. Hún hverfur ekki að fullu við að fyrirtæki fari í þrot.
Þess vegna gætu önnur viðbrögð við sviptingum verið að einfalda rekstrarumhverfi fyrirtækja, lækka þröskuldinn fyrir einstaklinga til að stofna fyrirtæki og veita þeim jafnvel skipulega stuðning til þess. Náttúran fer ekki neitt til skamms tíma og tilgangurinn er væntanlega að verja þekkingu, getu og beitingu þessa tveggja í ábataskyni, frekar en hagsmuni auðugra fjárfesta í einstökum félögum.
Verðmætamat og leiðtogahæfni
Fyrir nokkrum dögum var skrifað undir kjarasamning íslenska ríkisins við hjúkrunarfræðinga. Þetta gerist mitt í stærstu heilbrigðiskrísu aldarinnar, þar sem hjúkrunarfræðingar eru í fremstu víglínu. Hjúkrunarfræðingar eiga að fá 68 þúsund króna taxtahækkun á þremur árum, með styttingu á vinnutíma. Þannig endi byrjunarlaun í neðsta flokki í 410 þúsund krónum eftir tvö ár.
Í Nýja-Sjálandi tilkynnti ríkisstjórn undir forsæti Jacindu Ardern um 20% launalækkun sína næsta hálfa árið vegna Covid-kreppunnar. Þetta var kynnt sem táknræn aðgerð. Augljóslega hefði hún ekki mikil áhrif á afkomu ríkissjóðs, en hún sendi ákveðin skilaboð og sýndi leiðtogahæfni í krísu. Sama gilti um launalækkun sem Jóhanna Sigurðardóttir ákvað í síðustu kreppu.
Til samanburðar tilkynnti íslenska ríkisstjórnin fyrir nokkrum vikum að ráðherrar, þingmenn og æðstu embættismenn hefðu frestað launahækkunum sínum, sem áttu að verða í sumar, um hálft ár. Skömmu síðar varð uppvíst um 115 þúsund króna launahækkun ráðherra, sem hafði farið hljótt, samkvæmt tengingu við launavísitölu. Hækkunin átti að gilda samkvæmt vísitöluhækkunum síðustu ára og var uppbót vegna þess að ekki hefði verið launahækkun frá því að ráðherralaunin voru hækkuð á laun á kjördag í október 2016 um hálfa milljón króna í einu skrefi.
Eflaust er hægt að finna sanngirni í tengingu ráðherra- og þingmannalauna við vísitölu, þótt hún hafi í för með sér mun hærri krónutöluhækkanir en fyrir aðra, en það væri líka tækifæri fyrir þennan hóp til að senda skýr skilaboð um verðmætamat og forystu, að þau myndu ekki taka sér meiri hækkanir en fólk í fremstu víglínu heimsfaraldurs.
Krísur eru jarðvegur siðrofs
Þótt Samtök atvinnulífsins hafi reynt að nýta sér það, var hlutabótaleiðin augljóslega ekki ætluð til þess að hjálpa fjárfestum að losa sig við starfsfólk á sem ódýrastan hátt, með því að þeir sleppi með að borga fjórðung af kostnaði við uppsögn. Og hún var ekki ætluð til þess að láta starfsfólk vera í fullri vinnu hjá fyrirtækjum hér og þar, á launum frá ríkinu, eins og hefur verið raunin í óþekktum fjölda tilfella.
Það er mikilvægt að ríkisstjórnin og starfsmenn ríkisins loki glufum til að misnota útdeilingu stjórnvalda á hundruðum milljarða. Annars skapast samkeppnisskekkja og eitraður hvati. Þeir sem svindla eða smeygja sér inn í glufurnar græða á kostnað þeirra heiðarlegu. Það er einmitt í heiftarlegum breytingum og óvissu sem óheilindi geta borgað sig og traust á samfélaginu getur rofnað.
Krísur eru kjöraðstæður fyrir siðrof og því þarf að tryggja gagnsæi og óformleg viðurlög við siðleysi. Það verður ekki nóg að vísa til þess að eitthvað sé formlega séð ekki glæpur, eða að eitthvað gangi upp gagnvart lögum, enda eru lögin sjálf í mótun, hluti af tilraunum okkar til að verja hagsmuni almennings og aðlaga samfélagið með farsælum hætti að ófyrirsjáanlegum breytingum. Í því ferli hefur almenningur líka hlutverk, annað en að hlýða og bíða.
Við getum bæði treyst sérfræðingum og reynt að greina milli þess hvað eru staðreyndir og hvað eru spurningar um hagsmuni okkar og áherslur í mótun samfélagsins, sem byggja á gildum en ekki vísindalegri þekkingu, á tímum þar sem siðleysi getur verið gulls ígildi fyrir þess viljuga.
Athugasemdir