Í tvígang á stuttum tíma hafa verið unnin skemmdarverk á vegglistaverki sem er málað á grindverk sem stendur við Hofsvallagötu í Vesturbæ Reykjavíkur. Skemmdarverk voru unnin á myndinni á annan í páskum og aftur um hádegisbil í dag, eftir að listamaðurinn sem upphaflega málaði myndina hafði komið og lagfært fyrri skemmdir. Eftir því sem vitni segja hefur sama kona verið að verki í bæði skiptin. Ekki er vitað hvað henni gengur til með skemmdarverkunum.
Ólöf Magnúsdóttir býr í og er eigandi að húsinu sem grindverkið tilheyrir og þar með eigandi að grindverkinu. Hún segir að eigendur hyggist nú leggja fram kæru vegna eignaspjalla. „Síðast vildum við það ekki af því að við vorum að vona að þetta væri búið.“ Lögreglan hafði tal af konunni sem stóð að skemmdarverkunum eftir fyrra atvikið og veit því um hverja er að ræða.
Verkið hefur staðið á þessum stað um nokkurt skeið og almennt þótt til mikillar prýði. Það er unnið af listamanninum Juan Pictures í samráði við eigendur grindverksins. „Verkið kom þannig til að ég auglýsti eftir því hvort einhver vildi gera verk á vegginn og á saman tíma var hann að auglýsa eftir vegg til að gera verk á. Við borguðum efnið og sáum um alla undirvinnu og tókum þátt í hugmyndavinnu en verkið er hans. Það er því hans að ákveða næstu skref,“ segir Ólöf. Til stóð að Juan myndi koma í dag til að klára síðustu smáatriðin í viðgerð eftir fyrri skemmdarverkin en einhverjar breytingar verða þar á.
Sérstaklega ráðist að Hallgrímskirkju
Athygli hefur vakið að í bæði skiptin sem verkið hefur verið skemmt hefur mynd af Hallgrímskirkju verið sérstakur skotspónn. Ólöf bendir á að Hallgrímskirkja sé hluti af myndverkinu vegna stöðu hennar í arkitektúr og borgarlandslagi Reykjavíkur. „Hugsunin á bak við verkið var að blanda saman ólíkum menningarheimum. Við erum með borgarlandslagið og við erum með tölvuleikjaheim og við erum með grafítí og við erum að færa íslenskan samtíma inn í tölvuleik sem líka brúar kynslóðabil. Kirkjan er þarna ekki sem trúarlegt tákn heldur sem virðingarvottur við Guðjón Samúelsson sem var mjög virkur þáttakandi í skipulagningu Vesturbæjarins, og hannaði til að mynda Verkamannabústaðina beint á móti, svo dæmi séu nefnd.“
„Kirkjan er þarna ekki sem trúarlegt tákn heldur sem virðingarvottur við Guðjón Samúelsson“
Ólöf segir að það sé mjög dapurlegt að þurfa að horfa upp á svona skemmdarverk, hvað þá ítrekað. Mikill stuðningur hefur birst í Facebook-hópnum Vesturbærinn vegna málsins og Ólöf segir gott að finna fyrir því. „Þetta er mjög áberandi veggur og það að við settum verk á vegginn var alltaf að fara að fara að breyta þessu verki í sameign. Það sem mér finnst dásamlegt í þessu er að sjá hversu fljótt þetta verk hefur orðið að einhverju sem við í hverfinu eigum saman og hvað fólk af ólíkum kynslóðum tengir við það. Ég held að ég og við séum bara jafn döpur og aðrir í hverfinu yfir þessum skemmdarverkum.“
Athugasemdir