„Hún er vön að ég komi á hverjum degi. Við erum vön að vera saman og þekkjum ekkert annað.“ Þetta segir Ármann Ingimagn Halldórsson. Eiginkona hans, Gróa Ingileif Kristmannsdóttir dvelur á hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum. Gróa, sem er 62 ára, er með vöðvarýrnunarsjúkdóminn Beckers, hún er í öndunarvél vegna sjúkdómsins og þarf mikla umönnun sem Ármann hefur sinnt að miklum hluta síðan hún veiktist. Hann hefur verið í sjálfskipaðri sóttkví að mestu leyti síðan heimsóknabann var sett á Dyngju, eins og á öðrum hjúkrunarheimilum á landinu, til að vera viðbúin þegar banninu verður aflétt.
Ármann hefur boðist til að dvelja hjá Gróu yfir páskahelgina til að annast um hana og létta þar með undir starfsfólkinu, en vegna heimsóknabanns hefur ekki verið hægt að verða við þeirri ósk.
„Ég hef sofið hjá henni allar nætur, snúið henni og sinnt henni síðan hún flutti á Dyngju. Ég hef komið alla sunnudaga til að baða hana. Ég veit að starfsfólkið gerir allt sem það getur til að láta heimilisfólkinu líða vel, en hún hefur litla afþreyingu, þar sem ég hef ekki getað komið til hennar,“ segir Ármann.
Þungbær ákvörðun, segir forstjóri
Undanfarið hafa birst í fjölmiðlum fréttir þess efnis að fólk ráði sig til starfa á hjúkrunarheimilum til að geta verið með ættingjum sínum sem þar dvelja. Ármann segir að slíkar fréttir veki vonir um að hann fái að dvelja með Gróu um páskahelgina. „Ég hef ekki fengið að hitta hana síðan í byrjun mars, þegar tekið var fyrir heimsóknir á hjúkrunarheimilin.“
„Ég hef sofið hjá henni allar nætur, snúið henni og sinnt henni síðan hún flutti á Dyngju. Ég hef komið alla sunnudaga til að baða hana“
Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands sem rekur Dyngju segir að það hafi verið þungbært að banna heimsóknir á heimilið. Hann geri sér vel grein fyrir þeirri vanlíðan sem það geti valdið bæði hjá heimilisfólki og aðstandendum þess. „Við erum að verja viðkvæmasta hóp samfélagins fyrir smiti, eins og okkur er uppálagt að gera. Svona ákvarðanir eru teknar af vel yfirlögðu ráði og þetta er svo sannarlega ekki auðvelt,“ segir Guðjón.
Mjög erfitt fyrir mjög marga
Ármann hefur einnig leitað liðsinnis Öryrkjabandalagsins vegna málsins. Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, segir að talsvert sé um að fólk hafi samband við bandalagið vegna þess að það geti ekki hitt maka sína eða ættingja á heimilum þar sem lokað hefur verið fyrir heimsóknir. „Þetta tilvik er ekki einsdæmi, því miður. Þetta ástand er mjög erfitt fyrir mjög marga. Ég hef til dæmis heyrt frá mörgum aðstandendum alzheimersjúklinga og þeim þykir þetta ákaflega sárt. Sumum finnst að með þessu banni sé verið að gera illt verra fyrir ástvini sína; að þeir verði ráðvilltir og skilji ekki hvers vegna enginn heimsæki þá. En því miður eru þetta þær aðstæður sem við þurfum að búa við tímabundið.“
„Ég myndi vilja að hægt væri að skoða einstök tilvik eins og þetta, þar sem ég hef verið í sjálfskipaðri sóttkví“
Þuríður Harpa nefnir í þessu sambandi að Reykjavíkurborg hafi veitt undanþágu vegna liðveislu fólks sem þarf NPA-þjónustu á heimilum sínum. Sumir í þessum hópi hafi staðið frammi fyrir því að slík þjónusta hafi verið skert eða jafnvel alveg fallið niður vegna veikinda eða sóttkvíar þeirra sem henni sinna eða af öðrum ástæðum sem tengjast COVID-19 faraldrinum. Nú geti þau sem njóti NPA-þjónustu ráðið sína nánustu aðstanendur til þeirra starfa. „Þetta er gríðarlega jákvætt og ég vona að önnur sveitarfélög fylgi þessu fordæmi borgarinnar,“ segir Þuríður Harpa. „Þetta hefur leyst vanda margra.“
Þakklátur starfsfólkinu
Ármann segist hafa farið í sýnatöku hjá Íslenskri erfðagreiningu og að hún hafi sýnt að hann væri ekki með COVID-19. „Ég skil mjög vel þetta heimsóknarbann og ég er þakklátur fyrir hversu vel er passað upp á fólkið,“ segir Ármann. „En ég myndi vilja að hægt væri að skoða einstök tilvik eins og þetta, þar sem ég hef verið í sjálfskipaðri sóttkví. Mig langar bara til að fá að vera með henni um páskana og sjá til þess að henni líði sem allra best.“
Athugasemdir