„COVID-kreppan mun verða landinu erfið – en mun ekki jafnast á við hrunið 2008,“ segir Ásgeir Jónsson, hagfræðingur og seðlabankastjóri, í svörum sínum til Stundarinnar um eðli COVID-kreppunnar sem heimurinn gengur nú í gegnum. Í svari sínu vísar Ásgeir til áhrifanna á Íslandi en hann telur að áhrifin af kreppunni hér á landi verði minni en í mörgum stærri ríkjum.
Atvinnuleysi á Íslandi á að fara upp í 14 prósent nú í apríl en ef svo verður þá er um að ræða mesta atvinnuleysi sem mælst hefur á Íslandi. Atvinnuleysi fór hæst upp í 9.3 prósent á Íslandi í kjölfar hrunsins 2008. Samtímis spá bandarísk yfirvöld því að atvinnuleysi þar í landi geti farið upp í allt að 32 prósent. Þetta yrði einnig sögulegt hámark atvinnuleysis þar í landi.
Ásgeir Jónsson segir hins vegar að allt útlit sé fyrir að þessi kreppa verði skammvinn. „Ef allt gengur að óskum á hagkerfið aftur að taka við sér eftir að veikin er liðin hjá,“ segir hann.
Ásgeir er einn af viðmælendum Stundarinnar í grein um COVID-kreppuna.
„En þetta stefnir í að verða ein mesta krísa í hundrað ár á Íslandi“
Bjarni málar upp dekkri mynd
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra málaði hins vegar upp dekkri mynd af stöðuni í viðtali við RÚV í gær.
Þá sagði ráðherrann að hann teldi að höggið fyrir ríkissjóð út af COVID-faraldrinum yrði kannski á bilinu 200 til 300 milljarðar króna. „Ef menn eru að leita að einhverri tölu til þess að átta sig á því hvert verður höggið fyrir ríkissjóð, þá getum við alveg gleymt því að vera að tala um hundrað milljarða eins og ég nefndi að við værum komin yfir. Við erum farin að tala um að minnsta kosti tvöfalda þá fjárhæð, eða meira.“
Niðurstaða Bjarna er að þetta stefni í að verða ein dýpsta kreppu sem Ísland hefur gengið í gegnum síðastliðna öld. „En þetta stefnir í að verða ein mesta krísa í hundrað ár á Íslandi, í efnahagslegu tilliti. Og þá er gott að vita til þess að við höfum nýtt góðu tímana til þess að hafa svigrúm til að takast á við slíka tíma, án þess að hér fari allt á hliðina.“
„Þessi eilífi hrun-samanburður er ekki mjög hjálplegur til þess að átta sig á þessu efnahagsáfalli sem nú dynur yfir.“
Ásgeir: Samanburður við hrunið ekki hjálplegur
Stundin spurði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra þriggja spurninga og fylgja svör hans hér fyrir neðan. Mat Ásgeirs á stöðunni er almennt séð nokkru bjartýnna en mat Bjarna Benediktssonar.
1. Spurning Stundarinnar: „Hvernig verður þessi COVID-kreppa frábrugðin Kreppunni miklu á fjórða áratugnum og kreppunni eftir alþjóðlegu fjármálakrísuna og bankahrunið árið 2009?“
„Bæði áföllin 1929 og 2008 voru fjármálakreppur. Slíkar kreppur koma í kjölfar þess að eignabóla myndast – á húsnæðismarkaði, hlutabréfamarkaði og svo framvegis. Bólurnar leiða til rangra fjárfestinga með mikilli skuldsetningu til gagnslausra verkefna.
Á einhverjum tímapunkti springur bólan. Þannig svipta fjármálakreppur aðeins tjöldunum frá og sýna þá tortímingu eða tap sem þegar hefur átt sér stað að tjaldabaki – og eyður blasa við þar sem áður höfðu sýnst gagnsamar eignir og arðbærar fjárfestingar. Afleiðingarnar lýsa sér í gjaldþrotum, afskriftum fyrirtækja og svo framvegis. Þjóðhagslegar afleiðingar fjármálakreppa velta á því hvernig það tekst til að viðhalda fjármálastöðugleika, það er hvernig fjármálakerfinu reiðir af. Ef margir bankar fara í þrot getur fjármálakreppan lamað hagkerfið. Þetta á sérstaklega við um lítil opin hagkerfi með eigin mynt sem hafa hlaðið upp erlendum skuldum til þess að fjármagna viðskiptahalla. Á einhverjum tímapunkti hættir innflæðið og gjaldmiðillinn hrynur – og hagkerfið snögghemlar.
Seðlabankar heimsins brugðust ranglega við þegar hlutabréfabólan sprakk árið 1929 – með aðhaldssamri peningastefnu. Í kjölfarið varð 1/3 af öllum bönkum Bandaríkjanna gjaldþrota og efnahagslífið fór í langvinnan samdrátt. Viðbrögðin voru allt önnur árið 2008. Svo má segja að samræmdar aðgerðir í peningamálum – s.s. peningaprentun – hafi komið veg fyrir að það áfall komi fram í raunhagkerfinu. Jafnframt var farið út í víðtækar björgunaraðgerðir til þess að styðja við fjármálakerfið. Undantekning frá þessu er Ísland – þar sem bankarnir féllu. Gjaldmiðillinn hrundi og mjög harður samdráttur tók við.
COVID-19 kreppan er annars eðlis. Hún stafar af því að ríkisstjórnir landa loka á samgöngur, samskipti og framleiðslu til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar. Þetta er sjálfskipuð kreppa og stafar því ekki af einhverjum undirliggjandi kerfisvandamálum líkt og fjármálakreppur. Ef allt gengur að óskum á hagkerfið aftur að taka við sér eftir að veikin er liðin hjá. Það kann hins vegar að vera að afleiðingarnar verði langvinnari – það er ef COVID-kreppan verði til þess að ýmsir þverbrestir sem nú þegar eru til staðar muni gliðna vegna álagsins. Það er ef útgjöld vegna kreppunnar leiða til ríkisfjármálakreppu.“
2. Spurning Stundarinnar: Hversu djúp verður þessi kreppa?
„Ísland er mjög vel í stakk búið til þess að takast á við COVID-áfallið – við munum geta viðhaldið þjóðhagslegum stöðugleika. Hins vegar blasa við gríðarlegir erfiðleikar á vinnumarkaði – þegar ein stærsta atvinnugrein landsins verður í lamasessi. Við þessu er aðeins hægt að bregðast með því að reyna að millifæra tekjur úr framtíðinni til dagsins í dag – svo sem að ríkið auki útgjöld sín til þess að reyna að tryggja tekjur fólks og taki til þess lán sem greidd verða með skatttekjum framtíðar. Að bankarnir og aðrir lánardrottnar veiti greiðslufresti og lán út á tekjur framtíðar. Jafnframt – að Seðlabankinn lækki vexti til þess að gera þessa tekjumillifærslu auðveldari.
Það er nær öruggt að COVID-kreppan mun koma mun harðar fram í stærstu löndum Evrópu og í Bandaríkjunum en fjármálakreppan 2008 – enda sluppu þessi lönd tiltölulega vel þá. Sama á ekki við um Ísland. COVID-kreppan mun verða landinu erfið – en mun ekki jafnast á við hrunið 2008. Stór hluti af heimilum og fyrirtækjum landsins varð gjaldþrota eftir 50% gengisfall og 20% verðbólguskot. Í kjölfarið var þörf á gríðarlegum kerfisbreytingum í atvinnulífinu sem voru bæði erfiðar, sársaukafullar – og tóku tíma. Ísland er á allt öðrum stað núna. Þessi eilífi hrun-samanburður er ekki mjög hjálplegur til þess að átta sig á þessu efnahagsáfalli sem nú dynur yfir. Ísland mun áfram verða ferðaþjónustuland – þær fjárfestingar sem nú þegar hefur verið lagt í munu koma að gagni í framtíðinni. Eins og staðan er nú er fátt neitt annað hægt að gera en bíða – þar til tíðin batnar.“
3. Spurning Stundarinar: Hvernig mun þessi COVID-kreppa breyta heiminum, ef hún mun gera það? Hvernig mun hún breyta hagfræðinni? Hvaða lærdómur verður dreginn af henni?
„Það er erfitt að gera sér grein fyrir því hvaða breytingar munu fylgja í kjölfarið. Augljóslega munu sóttvarnir og viðbúnaðaráætlanir nú verða teknar alvarlega. Mörg fyrirtæki munu nú hugsa um öryggi í framleiðslukeðjum sínum – og leggja áherslu á að sækja aðföng og íhluti nær sér en áður hefur verið. Mögulega munu áhrifin verða þau sömu og árið 1929 – er ríkið þurfti að stíga inn í atvinnulífið og fór ekkert aftur út. Öruggt er að skattar þurfa að hækka í framtíðinni til þess að borga fyrir þau útgjöld sem er stofnað til. Mögulega mun kreppan leiða til pólitísks óstöðugleika og aukinnar sérhyggju í stefnumörkun – en um það er erfitt að spá á þessari stundu.“
Athugasemdir