Þessa dagana eru gangstéttirnar allt í einu of þröngar vegna tveggja metra svigs og hraðbrautir missa marks þar sem aðeins sést bíll á stangli. Almenningsrýmin ramma að öllu jöfnu inn og beina viðteknum samskiptum í farveg – sem eru eins vel eða illa heppnuð og arkitektúrinn og skipulagið. En nú forðumst við almenningsrýmin eins og pestina. Úti í búð eru „plástrar“ sem sýna hvar við getum staðið.
Sjúkrahúsin er þó, eðli málsins samkvæmt, ekki hægt að forðast og framkvæmdateymi spítalanna leggja nótt við dag til að finna leiðir til að breyta húsnæðinu til að taka á móti sem flestum COVID-19 sjúklingum sem þurfa greiningu og meðferð, jafnframt því sem öðrum sjúklingum er hlíft. Reynt er að flytja og skerpa óskýr mörk milli og aðkomu til hreinna og sýktra svæða sem mótvægisaðgerðir (mitigation) til að hemja faraldurinn. Því meiri seiglu (resilience) sem mannvirki hafa því betur eru þau í stakk búin til að takast á við áföll á borð við stríð, hrun og farsóttir, en það er erfitt að ímynda sér hve mikil áskorun það er að endurskipuleggja hin ósveigjanlegu mannvirki Landspítala og aðlaga þau að breyttri notkun (retrofit) með öllum tilheyrandi innviðum: raflögnum, loftræstingu, einangrun, burðarbitum o.s.frv. – og vinnuafli sem einnig verður að hlýða Víði – allt á mettíma! Sennilega dýrir plástrar og til bráðabirgða.
Heima og umheimurinn
Í sóttkvínni kemur sér vel fyrir okkur að íslenska borgin er (fáránlega) gisin. Langir og dimmir vetur og aukin velsæld á Íslandi hafa líka leitt til að einkahíbýli Íslendinga, fremur en flestra annarra þjóða, eru að jafnaði hlýleg og vel fallin til langdvalar – meira að segja með aðstöðu til að setja sumt heimilisfólk í einangrun ef með þarf! Nú berast fréttir um flóttamannabúðir sem eru girtar af þar sem skortur er á einkarými, sápu, vatni og læknishjálp og þar sem sóttin fær að gera usla óáreitt. Sú tilhugsun að brot af okkar huggulegu vistarverum gætu hafa komið á kostnað fólks sem er statt í þeirri eymd er ekki til að halda út. Ef svo er, væri gott að fá tækifæri til að endurskoða og breyta öðruvísi í framtíðinni. Flestir lifa í aðstæðum mitt á milli þessara öfga. Návígi mannanna eykst stöðugt með meiri fólksfjölda og þéttari byggð – óskipulögð fátækrahverfin, þar sem stór hluti mannkyns býr, og stöðugt dýpri inngrip í villta náttúru, bjóða upp á að vírusar þaðan dreifast eins og eldur í sinu meðal manna. Hinn tiltölulega nýlegi siður með löngum og tíðum ferðalögum æ fleira fólks gerir líka sóttinni auðveldara að smitast milli svæða og ná heljartökum á plánetunni allri.
Í sögunni
Flestir telja hönnun og arkitektúr til munaðar. Þetta er á misskilningi byggt. Ekki margir gera sér grein fyrir að arkitektar hafa þjálfun í að fá sem mest út úr þeim efniviði sem til er hverju sinni (óháð efnum) og mýmörg dæmi eru um að hönnuðir hafi ljáð fyrirbærum sem aðrir líta á sem fullkomið rusl nýtt og nytsamlegt hlutverk.
Farsóttir hafa til dæmis beinlínis verið mótandi afl í arkitektúr og skipulagi og stór hluti borgar- og hönnunarfræða eru nátengd lýðheilsufræðum. Til dæmis gerðu hin fornu holræsi í Róm það að verkum að fjöldi fólks gat búið á litlu svæði án þess að þurfa að arka um borgina í eigin skít með tilheyrandi smithættu og meðal annars þetta lagði grunninn að stórkostlegri menningu Rómaveldis og endurreisnartímabilsins. Gæði hönnunar, tækni og efnisnotkun eru þvílík að þessir innviðir eru enn í notkun.
Farsóttir hafa til dæmis beinlínis verið mótandi afl í arkitektúr
„Arkitektar án landamæra“ og önnur viðlíka samtök koma ævinlega í kjölfar „Lækna án landamæra“ og leggja af mörkum skapandi lausnir fyrir hentugt, ódýrt og sveigjanlegt húsnæði og aðra innviði, sem hægt er að byggja með hraði við brýna nauðsyn á hamfarasvæðum.
Annað dæmi er módernisminn í arkitektúr sem gekk að verulegu leyti út á að uppræta sjúkdóma sem grasseruðu hjá fátæku fólki sem bjó þröngt í dimmu og illa loftuðu húsnæði. Nú skyldi byggja björt híbýli með glugga í fleiri áttir sem hægt væri að loftræsta með gegnumtrekk. Þéttbýl hverfi skyldu hafa opin torg og almenningsgarða til samveru, yndisauka – græn lungu blésu heilsu og lífi í fólkið. Þessi hreyfing vann að því að formun hins byggða umhverfis fengi samfélagslegan tilgang með hollan lífsstíl þar sem framleiðsla og dreifing væru í eigu og undir stjórn samfélagsins sem heildar og skipting gæðanna væri öllum í hag óháð stjórnmálaflokkum. Bauhaus er afurð þessarar hugsunar.
Öflugasti íslenski fulltrúi þessara hugmynda á Íslandi var Guðmundur Hannesson, læknir og skipulagsfrömuður, sem átti drjúgan þátt í hönnun hverfa sem enn eru hin vinsælustu í bænum, austasta hluta Þingholtanna og Vesturbæ norðan Hringbrautar, með enska garðhúsabyggð að fyrirmynd, aðlöguð að íslenskum aðstæðum, þar sem form byggðarinnar lagar sig að landinu og náttúran nýtist sem best fyrir vistarverurnar.
Ný framtíðarsýn?
Í neyðarástandi eins og nú ríkir verður augljóst hve viðkvæmt nútímaþjóðfélag er og hversu mikilvægt er að byggja sjálfbærara (sustainable) og öflugra (robust) samfélag til framtíðar. Spurningin er hvort COVID-19 muni leiða til breytinga sem setji spor í þjóðfélagið og sem muni endurspeglast í arkitektúr- og skipulagssögunni. Er þetta ekki bara tímabundið ástand sem gleymist, jafnvel þótt það snerti alla núna? Það er ólíklegt að heimurinn verði alveg samur þegar átt hefur sér stað U-beygja í hegðun fólks á nokkrum dögum – og það býður beinlínis upp á tækifæri til endurskoðunar, fyrir hvern og einn en einnig fyrir samfélagið sem heild.
Við alla endurskoðun hefur hönnunarfagið hagnýta sérstöðu. Hér má nefna kunnáttu til kortlagningar, greiningu, rýmisgreind og þjálfun í því að þysja inn í smæstu atriðin samtímis sem höfð er í huga heildarmynd, samfélagsáhrif og hagræn áhrif fyrir íbúa, verkkaupa og samfélagið, auk þess að hafa auga með samræmi og fegurð. Arkitektar búa líka yfir verðmætri reynslu sem stafar af hinu mikla (og lögbundna) ábyrgðarhlutverki þeirra við hönnun mannvirkja: þeir þurfa að hafa yfirsýn yfir og samræma öll fögin sem koma að hönnun mannvirkjanna (samræmingarhönnuður) meðan aðrir sérfræðingar sem koma að ferlinu einblína gjarnan hver á sína sérgrein.
Vonandi nýta stjórnvöld hönnuði í áframhaldandi stefnumótun og lausnum þegar helstu „eldar“ verða slökktir varðandi skaðaminnkun faraldursins til styttri tíma. Þau hafa og nú sýnt í verki vilja til að treysta fagfólki um framvinduna fremur en (verða sér til skammar með) að velja aðgerðir sem ekki byggja á fagþekkingu en kunna að virðast vænlegar til pólitískra vinsælda eins og virðist gerast sums staðar þessa dagana.
Hönnuðir eru reyndar alltaf fyrsti hlekkurinn sem fær afpantanir þegar dýfur verða í hagkerfinu, sama hversu litlar. En þegar vinnustofurnar missa lífsviðurværi sitt eru þær ekki vanar að stjórnvöld standi í björgunaraðgerðum eins og nú er verið að veita (mörgum öllu ábatasamari) fyrirtækjum sem eiga í kröggum vegna COVID-19. Stofurnar verða að þreyja þorrann með nægju- og útsjónarsemi eða hverfa. Kannski COVID-19-sjokkið breyti þessu líka og ríkið umbuni hönnuðum gegn því að þeir leggi höfuðið í bleyti til að finna lausnir sem hjálpa þar til bóluefni finnst, og lausnir fyrir framtíðina sem bíður okkar þegar allir sem ekki hljóta varanlegan skaða verða orðnir frískir. Finnar eru góð fyrirmynd, þeir veita miklu rannsóknarfé til að geta nýtt hönnuðina þegar þeir eru ekki uppteknir í öðrum verkefnum.
Slík vinna ætti að draga upp sviðsmyndir með loftslagsvandann í algerum forgangi, líka án sérstaks tillits til sérhagsmuna og valdabaráttu hinna fáu. Hér hjálpar veiran nú þegar með ótrúlegri minnkun kolefnisútblásturs á fáum vikum. Taka verður fyrir hin mörgu svið sem snerta hið byggða umhverfi, hvert fyrir sig og sem samtvinnuð.
Til að nefna örfáa punkta:
Það þarf að horfast í augu við að ferðamennska eins og við þekkjum hana í dag er engin heilög kýr sem verður að halda á lífi heldur þvert á móti – hún gengur einfaldlega ekki upp loftslagsmálanna vegna.
Ferðamennska eins og við þekkjum hana í dag er engin heilög kýr sem verður að halda á lífi
Þótt líklegt sé að hægist á nýbyggingarframkvæmdum er sennilega skynsamlegt bæði fyrir hið opinbera og fólk að athuga (gjarnan með hjálp arkitekta) hvort hægt væri að nýta (bæta, breyta, endurskipuleggja) húsnæði og nánasta umhverfi betur til að komast yfir hjallann.
Málið þolir enga bið þegar kemur að grunnþörfum eins og mataröryggi – því vorið er að koma með hækkandi sól og fræin þurfa að komast í jörð til að geta borið ávöxt í tæka tíð. Það má til dæmis spyrja sig hvernig við getum betur nýtt okkar góða hráefni þjóðinni í hag. Það gæti orðið breyting á þeirri reglu að fraktskipin komi drekkhlaðin til Íslands en sigli hálftóm þegar þau sigla utan aftur, hvort sem við viljum það eða ekki. Hvað með innflutning á varningi frá BNA og Kína sem eru á hliðinni út af COVID-19 í fyrirsjáanlegri framtíð?
Getum við stólað á uppskeruna frá Hollandi og Spáni í ár þegar jafnvel Noregur er í vandræðum með að sinna sínum landbúnaði því vinnufólkið frá Austur-Evrópu sem vanalega sáir fræjunum kemst ekki til Noregs nema fara í sóttkví í tvær vikur og það er of dýrt!? Látum ekki þetta gullna tækifæri til að vinna með eigin sjálfbærni og hringrásarhagkerfi (circular economy) ganga okkur úr greipum. Gefum gróðurhúsum sem rækta mat, en leggjast af í stórum stíl vegna kostnaðar, ókeypis rafmagn.
Fyrir ekki alls löngu var það kallað þjóðlegasti siður, þetta „að pota útsæðinu niður“. Búum til moltu, nýtum moltu, gróðursetjum fræ og plöntur í stórum stíl, líka heima með börnunum og í skólum! Nýtum nytjajurtir sem hér eru. Nýtum fagfólk sem kann þetta. Þetta er ekki tíminn fyrir sveitarfélög að fá borgað fyrir skika! Sjáum afraksturinn vaxa okkur öllum til andlegrar heilsubótar og borðum eigið hnossgæti til styrkingar ónæmiskerfi og almannahag á krefjandi tímum.
---
Arna Mathiesen er íslenskur arkitekt og skipulagskona sem rekur Apríl Arkitekta www.aprilarkitekter.no með Kjersti Hembre. Hún var aðalritstjóri bókarinnar „Scarcity in Excess – The Built Environment and the Economic Crisis in Iceland“ sem kom út 2014. Arna er sem stendur stödd á Íslandi, fjarri ætigarði sem hún býr í í Osló. Hún þiggur með þökkum afleggjara af fjölærum ætiplöntum sem hún mun sjá til að verði potað niður á vel völdum stöðum hér heima.
Athugasemdir