25. mars 2020
„Tíu dagar heima í húsi án þess að fara út. Sex dagar í algjöru útgöngubanni. Stelpurnar okkar fjórar virðast ekkert átta sig á ástandinu. Þær hafa ekkert spurt út í það af hverju þær fara ekki lengur í leikskólann og af hverju við förum ekki út lengur. Þær eru bara eins og blómi í eggi. Við eigum tvær fjögurra ára tvíburastelpur og aðrar tvær 21 mánaða tvíburastelpur. Þær eru svo sáttar með það að vera búnar að endurheimta foreldra sína. Við höfum verið á svo ótrúlega miklum hlaupum undanfarið. Stelpurnar sáu pabba sinn bara rétt áður en þær fóru að sofa og suma daga ekki neitt. Þetta er ekki venjulega svona hjá okkur en það er blessun í þessu öllu saman. Þetta útgöngubann kemur alveg á réttum tíma fyrir okkur. Foreldrarnir orðnir verulega langþreyttir. Við byrjuðum náttúrlega á því að leggjast í algjöra marglyttuhegðun. Liggja eins og skötur og horfa á eitthvað heilalaust. En maður kemst nú yfir það á endanum. Núna höfum við risið upp og leggjum okkur fram við að halda fastri rútínu fyrir okkur og stelpurnar. Föðursystir mín er hérna hjá okkur og við skiptumst á við að vera með verkefni fyrir stelpurnar. Leika, skapa og læra saman. Við erum svo heppin með að vera með lítinn garð og ágætlega stórt hús sem við leigjum hérna tímabundið, rétt fyrir utan Marrakech. Við skoðuðum hvort við kæmumst heim til Íslands áður en landamærunum var lokað 19. mars en við vildum ekki skilja í sundur fjölskylduna okkar þar sem maðurinn minn, Othman, er ekki með gilt dvalarleyfi á Íslandi í augnablikinu og þar af leiðandi ekki með leyfi til þess að fara útúr landinu. Við komumst að því að hann megi ferðast með okkur vegna breyttra laga útaf ástandinu en núna er ekkert flug í boði. Við vitum ekki hvenær flugbanninu verður aflétt en nú er farið að tala um að það eigi að loka íslensku landamærunum. Kanski verðum við of sein. Yfirvöld í Marokkó tóku veirunni mjög alvarlega frá upphafi. Hún var alls ekki mjög útbreidd en það var fljótt lokað á landamæri og þremur dögum seinna var sett algjört útgöngubann. Einungis einn fjölskyldumeðlimur fær að fara út til að sækja nauðsynjar og þarf að hafa með sér sérstakt plagg með stimpli frá yfirvöldum. Þau tilkynntu í fyrradag að útgöngubannið yrði að minnsta kosti í 30 daga. Þeir sem brjóta útgöngubannið fara í fangelsi í 30 daga í staðinn. Engin vettlingatök. Ég er glöð að þessar aðgerðir hafi verið settar af stað hérna. Þessar rúmu 40 milljónir í þessu landi myndu verða mjög illa úti ef vírusinn fengi að dreifa sér eins og hefur gerst á Ítalíu og á Spáni. Hérna myndi heilbrigðiskerfið alls ekki höndla álagið. Við höfum það gott. Við erum með fullan ísskap, nægt rými og friðsæla fjölskyldu. Aðrir eru ekki jafn heppnir. Í pínulitlum hreysum, fólk sem vanalega lifir dag frá degi en má núna ekki fara út til þess að sjá sér farborða. Hefur ekki nægan mat eða er í vondu fjölskyldumynstri. Ég finn mikið til með þessu fólki og bið fyrir því. Orðið á götunni er að seinustu tvær vikurnar í útgöngubanninu verði ekki einu sinni leyfilegt að fara út til að sækja sér vistir. Algjört „lock down“. Herinn keyrir um göturnar á skriðdrekum en okkur líður vel, guði sé lof. Það er búið að rigna heil ósköp. Rigning sem hefur verið beðið eftir í allan vetur. Fuglarnir syngja og trén blómstra sínum fögru vorblómum. Þetta er fallegasti tími ársins í Marokkó. Ég myndi ekki vilja vera neins staðar annars staðar. En við erum að bíða og sjá hvað verður með Íslandsför. Við höfum verið kölluð heim af yfirvöldum. Við ætluðum að fara í sumar en hugum að því að flýta því ef möguleiki verður á því. Við finnum ekki fyrir hræðslu, við finnum fyrir auknum friði. Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Guði sé lof. Ég bið fyrir öllum þeim sem hafa orðið verst úti í þessum ótrúlegu atburðum.“
26. mars 2020
„Í dag var fallegt veður. Sólin skein á blautan, saddan jarðveginn eftir rigningu síðustu daga. Við höfum ákveðið að nýta þessa daga í að fasta og baka óvenju mikið. Eldhúshillurnar eru eins og á fyrirmyndarsveitaheimili með kleinur, kókoskúlur og súkkulaðibitakökur í kílóavís. Við byrjuðum á því að fasta sitt á hvað, ég annan daginn, Othman og Berglind hinn. Það er gott að fá rólega daga til þess að venja líkamann við föstuna aftur eftir langan tíma. Stelpurnar föndruðu fiska, klipptu út, lituðu og máluðu yfir með blautum penslum. Síðan festu þær þá á stilka og hengdu í bönd. Othman dró fram stikla af myntu, steinselju og sellerí og stakk því í beð útí garði með stelpunum. Við sjáum til hvort það rætist úr þeirri ræktun. Við höfum verið að safna fræjum úr öllu mögulegu og erum að þurrka þau í sólinni. Nú er góður tími til þess að byrja að rækta og þótt fyrr hefði verið. Við vitum ekki hvort við verðum hérna í tvo mánuði eða tvo daga í viðbót en það er alltaf gott að planta og þá bera þeir sem á eftir okkur koma ávöxtinn. Á meðan að Othman stússaði í garðinum klippti ég 100 neglur. Allar stelpurnar teknar og snyrtar. Það er heljarinnar aðgerð. Síðan steig ég út fyrir dyrnar í fyrsta skipti í 11 daga. Fór út með ruslið. Rosalegur viðburður!
„Við vitum ekki hvort við verðum hérna í tvo mánuði eða tvo daga í viðbót“
Ég baðaði stelpurnar og skúraði gólfið á meðan Othman bakaði argentínskar enchilladas sem við brutum föstuna með um kvöldið. Mikið nýtur maður matarins vel þegar maður neitar sér um hann í heilan dag. Al hamdoulillah. Guði sé lof.“
27. mars 2020
„Getum við farið? Við skelltum okkur í ágætan tilfinningarússíbana í dag og himnarnir héldu áfram að gefa af sér. Það rigndi og rigndi. Við fórum yfir stöðuna. Getum við farið? Getum við bara hoppað upp í flugvél með tveggja daga fyrirvara? Við erum hér með íbúð í leigu, starfsemi í gangi. Getum við bara labbað í burtu frá þessu án þess að skilja við allt eins og við viljum?
Helst þyrftum við að skila af okkur íbúðinni, flytja búslóðina til tengdó, binda fyrir ýmsa lausa enda en við getum ekki gert neitt í þessu útgöngubanni til þess að undirbúa brottför. Othman stakk aftur upp á því að ég myndi fara með stelpurnar og hann yrði eftir til þess að binda fyrir lausa enda. Ég tek fyrir það vegna þess að ég vil alls ekki slíta fjölskylduna í sundur á þessum óvissutímum. Ef guð lofar fer allt á besta veg en óvissan er sannarlega mikil. Ég íhugaði að draga til baka ósk um hjálp frá borgaraþjónustunni á Íslandi, vegna þess að við gætum ekki farið. Á milli spennuþrunginna samræðna gerðum við leikfimi með stelpunum inni í stofu, stóðum á haus, fífluðumst og hlógum saman. Það létti lundina umtalsvert.
„Ef guð lofar fer allt á besta veg en óvissan er sannarlega mikil“
Seinni parturinn var rólegur. Litlu stelpurnar lögðu sig í fyrsta skipti í nokkra daga. Það er búið að vera mikil slagsmál að fá þær til að leggja sig þessa dagana, en í dag fengum við smá frið og stóru stelpurnar fengu að horfa á mynd. Á meðan sátum við Berglind úti í garði í fuglasöng innan um kattahjörð sem hefur ákveðið að búa í garðinum vegna þess að þær fá alltaf eitthvað gott að borða hér. Við áttum fallegar samræður um lífið, traustið og trúna. Það var eins og að samræðurnar löðuðu að okkur dýrin vegna þess að þegar við skiptum um umræðuefni færðu allir kettirnir sig. Við fengum póst frá sænska sendiráðinu í Marokkó þess efnis að það væri ekki víst hvort þau gætu skrifað út vísa fyrir Othman til þess að ferðast til Íslands. Þau bentu aftur á Útlendingastofnun. Við höfum verið send í ótal hringi. Það er eins og enginn vilji taka ábyrgð á því að gefa út þetta ferðaleyfi þrátt fyrir það að lögunum hafi verið breytt tímabundið hjá íslenskum yfirvöldum. Þar segir: „All foreign nationals with immigration status in Iceland or another Schengen State, or those who have family members in the same countries, are allowed to enter Iceland.“ Við erum svo langþreytt á þessari vísaflækju. Othman eldaði dýrindis kvöldmat en ég hafði enga lyst. Leið mjög skringilega, með höfðuverk og beinverki. Ég fer alltaf að hugsa um kórónavírusinn þegar ég er ekki alveg með sjálfri mér.“
28. mars 2020
„Ég gerði áætlun um að fasta í gærkvöldi en hugsaði sem svo að ef mér liði ennþá jafn illa myndi ég ekki gera það. Ég og Othman vöknuðum rétt fyrir 6 til þess að drekka vatn og borða nokkrar möndlur og döðlur fyrir dögun. Síðan tók hann morgunvaktina og ég fékk að sofa lengur. Mikill lúxus sem við höfum ekki fengið að venjast í rúm fjögur ár. Enn einn hlutur sem við getum þakkað þessu útgöngubanni. Þegar ég skreið framúr uppúr 10 var ég bara hress. Við tókum því rólega fyrripartinn en rétt fyrri hádegi hélt Othman í leiðangur til þess að kaupa í matinn. Hann hélt af stað með plasthanska, í hettupeysu með buff fyrir andlitinu, eins og hinn mesti þrjótur. Hann kom til baka með poka fulla af vistum, bolta og litabækur fyrir stelpurnar sem vöktu mikla lukku. Við tókum eldhúsið í gegn saman, reyndum að nýta alla afganga í eitthvað gott. Við hugsum miklu meira á þessum tímum um að henda alls engu í ruslið. Við erum alltaf meðvituð um það en núna lofuðum við hvort öðru að passa þetta miklu betur. Þessir tímar fá mann til að hugsa enn betur um gildi sín. Við fáum tíma til þess að líta í eigin barm og rými til þess að bæta það sem við mögulega getum innan veggja heimilisins. Ég er viss um að milljónir manns eru í sömu stöðu og að hugsa það sama og við. Ég stökk frá, bað og hugleiddi úti í garði, yndislegt. Síðan dýfði ég mér aftur í eldhúsverkin og kláraði. Othman virðist vera kokkurinn þessa dagana. Hann eldaði dýrindis súpu, gerði brauðteninga úr gömlu brauði og dýrindis salat með alls kyns afgöngum og fersku káli sem hann hafði keypt. Við settum stelpurnar í bólið og brutum föstuna uppúr 8. Annar fullnægjandi föstu-dagur.“
29. mars 2020
Ég tók morgunvaktina í morgun. Stelpurnar fengu morgunkorn í fyrsta skipti í langan tíma þar sem Othman for í búðina í gær. Þær eru samt mjög ánægðar með hafragrautinn líka. Ég opnaði vefsíðu RÚV og leit yfir fréttirnar í fyrsta skipti í langan tíma. Othman liggur yfir fréttunum og vill fylgjast vel með því hver staðan er.
Ég vil helst ekki eyða of miklum tíma í það. Þar rakst ég á grein þar sem fjallað er um kórónaveiruna í Afríku. Það er alltaf áhugavert að sjá hvernig Íslendingar og vesturlandabúar fjalla um Afríku. Það var ekkert minnst á aðgerðir Marokkó sem setti á útgöngubann eftir að aðeins höfðu verið greind 150 tilfelli. En auðvitað er heilbrigðiskerfið í flestum nágrannalöndunum ekki nægilega gott til þess að halda utan um íbúafjöldann. Ég er að malla í kúskús á þessum sunnudegi þó svo að það sé vanalega föstudagsmatur. Othman keypti innihaldsefnin í gær þannig að við bíðum spennt eftir því að borða það í hádeginu. Othman er búinn að vera að leika við stelpurnar í allan morgun. Hann gerði leik úr því að þær ættu að taka til í öllu húsinu með góðum undirtektum. Ég bíð spennt eftir því að þær verði nógu gamlar til þess að skipta heimilisverkunum á milli sín. Það er eins gott að byrja þjálfun. Núna eru þau að draga hringi og regnboga með áttavita. Það er oft erfitt að fá þær allar til að leika saman án þess að það endi í öskrum og rifrildi en Othman hefur sérlega góðar leiðir til þess. Hann fær þær með sér vegna þess að hann hefur óendanlega þolimæði til þess að leika við þær en ef einhver ætlar að byrja að væla eða vera eigingjörn er hún strax tekin úr umferð. Hún fær að sitja inni í herbergi og missir af leiknum. Það vill engin þeirra, þannig að þær komast fljótt yfir dramakastið.
30. mars 2020
Í dag var annar föstu-dagur. Ég fékk að sofa út eftir Suhor. Við eyddum öllum deginum úti í garði. Það var yndislegt veður. Glampandi sólskin og gola. Enn og aftur vorum við full þakklætis fyrir þennan litla garð og góða veðrið. Stelpurnar voru duglegar að leika sér sjálfar. Drógu plastbox á eftir sér á þríhjólunum og létu bangsana lúlla þar. Á meðan að litlurnar sváfu sat ég ein úti í garði og horfði á býflugurnar á vorblómunum, feitar og sáttar með tíðina. Hugleiddi og bað. Berglind kenndi mér að hekla og var ég mjög ánægð með það þar sem ég er ekki með prjónadótið mitt hér. Þetta er akkúrat tíminn fyrir hugleiðsluhandavinnu. Ég skellti í nýja súrdeigsbrauðsuppskrift og gerði deig fyrir kanilsnúða með restinni af súrnum. Við komum stelpunum í háttinn og brutum föstuna með afgangs-kúskúsi frá því í gær og dýrindissalati. Allt var í mikilli ró, bæði hjarta og heimili. Síðan opnaði ég tölvuna og sá að fólk var að reyna að ná í mig. Það var komið að því. Flug í gegnum svissneska sendiráðið í boði 2. apríl. Fljótt skipast veður í lofti. Othman er ekki kominn með ferðavísa ennþá. Við höfum verið send í hringi og nú er boltinn hjá Útlendingastofnun. Við höfum þrjá daga til þess að flytja alla búslóðina okkar en það er útgöngubann. Er raunsætt fyrir okkur að taka þetta flug? Pakka öllu saman, fara með krakkaskarann til Casablanca á flugvöllinn, bara til þess að komast að því að Othman komist ekki yfir landamærin? Ég finn fyrir mikilli togstreitu. Svo stór hluti af mér vill fara heim til Íslands en annar stór hluti af mér er smeykur við að róta í þeirri ró og reglu sem stelpurnar hafa hérna.
„Othman er ekki kominn með ferðavísa ennþá“
Það fer vel um okkur. Ég veit ekki hverju ég má búast við á Íslandi. Vissulega eigum við yndislega fjölskyldu og vini en við erum ekki með okkar rými og við erum sex. Othman mælti aftur með því að ég fari með stelpurnar og Berglindi en ég vil ekki skilja okkur að. Núna er tækifæri til þess að fara en það verður algjör rússíbani fyrir fjölskylduna að stökkva á það. Erum við að flýja hættuástand? Við erum ekki hrædd við að vera hérna. Hér er gott að vera en við vitum ekki hverju má búast við á næstu vikum og mánuðum. Ég sofnaði ekki fyrr en seint og síðar meir, hausinn í hringekju.
31. mars 2020
Ég vaknaði fyrir allar aldir, skellti kanilsnúðunum í ofninn. Þegar þeir voru búnir að bakast fór súrdeigsbrauðið inn. Við borðuðum morgunmat og fórum yfir stöðuna. Það lítur út fyrir að þetta sé ekki það besta fyrir okkur. Að stökkva á þetta tækifæri. Það er erfitt fyrir mig að viðurkenna en það virðist vera svo. Svo kom að lokum í ljós að flugið var fullt. Við hefðum hvort eð er ekki komist í flugið. Úff, þetta er nú meiri tilfinningarússíbaninn. Við höfum loksins fengið skýr svör um stöðuna á vísa fyrir Othman frá Útlendingastofnun. Það er verið að reyna að finna lausn fyrir hann. Við sjáum hvað setur. Ég tók smá tíma í að jafna mig andlega eftir þennan rússíbana. En síðan kom ég aftur til sjálfrar mín og horfði í kringum mig. Svo þakklát fyrir aðstöðuna okkar hér. Við saumuðum kransa úr blómum úr garðinum fyrir stelpurnar og síðan horfðum við á myndina Chocolate. Eftir að við horfðum á hana þurfti ég náttúrlega að baka súkkulaðiköku. Ég tók þá erfiðu ákvörðun að geyma það að borða kökuna þangað til daginn eftir, svo að það yrði ekki kvöldmaturinn okkar. Haha. Við komum stelpum í bólið og sátum í ró með Berglindi föðursystur minni. Allt er gott. Al hamdoulillah. „Þegar öllu er á botninn hvolft þá fer allt einhvern veginn, þótt margur efist um það á tímabili.“ – Halldór Kiljan Laxness
Athugasemdir