Útgerðarfélagið Samherji lokar sjávarútvegsfyrirtæki sínu í borginni Walvis Bay í Namibíu á þriðjudaginn í næsta viku og hættir þar með formlega öllum rekstri í landinu. Starfsmönnum fyrirtækis Samherja, Sögu Seafood, hefur verið sagt upp störfum og komst Samherji að samkomulagi um greiðslur til starfsmanna eftir þriggja vikna samningaviðræður við verkalýðsfélag þeirra. Frá þessu er greint í namibíska blaðinu The Namibian.
Þar með lýkur nærri 10 ára sögu sögu Samherja í Namibíu; sögu sem endar nú í kjölfarið á því að greint var frá stórfelldum mútugreiðslum Samherja og dótturfélaga þess til ráðamanna í Namibíu í skiptum fyrir hestamakrílskvóta. Mútugreiðslurnar eru nú til rannsóknar í Namibíu, þar sem viðtakendur greiðslnanna sitja í gæsluvarðhaldi og bíða þess að réttað verði yfir þeim, og á Íslandi þar sem embætti héraðssaksóknara hefur haft málið til rannsóknar frá því í nóvember síðastliðinn. Þá rannsakar norska efnahagsbrotalögreglan einnig vissa þætti málsins sem snúa að mögulegu peningaþvætti.
Eins og kom fram í fréttaskýringaþættinum Kveik, Stundinni og Al-Jazeera, á grundvelli gagna frá Wikileaks, í nóvember þá greiddi Samherji áhrifamönnum í landinu sem tengdust sjávarútvegsráðherranum, Bernhard Esau, vel á annan milljarð króna í mútur til að fá aðgang að hestamakrílskvóta í landinu.
Aðgerðir yfirvalda í Namibíu í kjölfarið voru hraðar og voru Esau, tengdasonur hans Tamson Hatuikulipi, fjárfestirinn James Hatuikulipi og dómsmálaráðherrann, Sacky Shangala, handteknir og hnepptir í gæsluvarðhald meðan þeir bíða eftir því að réttað verði í málum þeirra. Samtímis hófst rannsókn málsins á Íslandi.
Enginn kvóti - engin starfsemi
Ástæða þess að Samherji skellir í lás og segir upp starfsmönnum sínum er að fyrirtækið hefur ekki fengið neinn kvóta í landinu í kjölfar mútumálsins. Tvö af skipum Samherja, Saga og Geysir - Samherji leigir síðarnefnda skipið af venesúelskum yfirvöldum - eru ekki lengur í Namibíu á meðan þriðja skipið, Heinaste, er kyrrsett þar vegna rannsóknarinnar á mútugreiðslunum sem nú stendur yfir. Geysir stundar nú veiðar á hestamakríl í Máritaníu en Samherji hefur einnig veitt þar í gegnum árin. Saga er í slipp á Kanaríeyjum. Hvert skip Samherja munu fara til veiða nú þegar sögu fyrirtækisins í Namibíu er lokið liggur ekki fyrir.
Veiðar Samherja í Afríku hafa hins vegar verið afar arðbærar í gegnum tíðina, sérstaklega þegar fyrirtækið áttu útgerðina Kötlu Seafood á árunum 2007 til 2013. Þá kom um þriðjungur af tekjum Samherja, meira en á milli 20 og 30 milljarðar króna, frá Afríkuveiðum félagsins. Afríkuveiðar Samherja eru því stór ástæða fyrir því að Samherji hefur hagnast um vel yfir 100 milljarða króna á síðasta áratug, sérstaklega á á árunum 2010 til 2013 þegar fyrirtækið átti Kötlu Seafood. Starfsemi Samherja í Namibíu var smærri í sniðum og voru tekjurnar oft á milli 6-8 milljarðar og hagnaðurinn í kringum milljarð árlega.
Í grein The Namibian segir framkvæmdastjóri félags Samherja í Namibíu, Jackie Thiardt, að samningaviðræður við verkalýðsfélags starfsmannanna þar í landi hafi klárast þann 13. mars síðastliðinn. „Samningaviðræðum lauk föstudaginn 13. mars. Heilt yfir gengu þær mjög vel. Allar viðræður fóru fram í góðri trú. Hins vegar var þetta ekki auðvelt ferli fyrir mörg af okkur sem tókum þátt. Óvissan um framtíð starfsfólksins er okkur ennþá mikið áhyggjuefni,“ segir Thiardt.
„Við erum ekki ánægðir með það að hafa misst vinnuna.“
Lokun Samherja í Namibíu er í samræmi við það sem fyrirtækið greindi frá í byrjun febrúar; að til stæði að hætta allri starfsemi í Namibíu en að fyrst þyrfti að semja um starfslok þeirra sem unnið hafa hjá útgerðinni. „Áður en Samherjasamstæðan mun alfarið hætta starfsemi í Namibíu munu dótturfyrirtæki samstæðunnar í landinu uppfylla allar skyldur gagnvart skipverjum sem hafa unnið fyrir þessi fyrirtæki. Fulltrúar Samherja hafa fundað með þeim sjómönnum sem eiga í hlut og fulltrúum stéttarfélaga þeirra. Samherji mun leitast við að veita eins mörgum þeirra áframhaldandi vinnu og mögulegt er. Þá einkum þeim sem tengjast Heinaste,“ í frétt á heimasíðu Samherja.
Starfsmenn fá greidd laun í einn mánuð
Starfsmennirnir hjá Samherja í Namibíu fá meðal annars greidd laun í einn mánuð, eina viku greidda aukalega fyrir hvert ár sem þeir hafa starfað hjá félaginu, og tíuþúsund namibíska dollara eða 94 þúsund íslenskar krónur.
Í viðtali við einn af starfsmönnum Samherja sem missir vinnuna, Leonard Shinedima, kemur fram að hann harmi það að vera nú atvinnulaus og kennir yfirvöldum um að hafa ekki látið Samherja fá kvóta. „Við erum ekki ánægðir með það að hafa misst vinnuna, þetta hefði ekki gerst ef ríkisstjórnin hefði látið fyrirtækið fá kvóta. Ef ríkisstjórnin vill bænheyra okkur þá eiga þeir að útdeila okkur kvótum svo við getum haldið að vinna,“ segir hann.
Líkurnar á því að Samherji myndi halda áfram veiðum í Namibíu eftir að greint var frá mútugreiðslum þeirra í Namibíu voru hins vegar nær engar. Málið hefur vakið mikla reiði í Namibíu, sem sést meðal annars á hörðum og hröðum viðbrögðum lögreglunnar og ákæruvaldsins. Málið er eitt stærsta, ef ekki stærsta, spillingarmál sem komið hefur upp í landinu og hefur umræða um það verið nær stöðug í namibískum fjölmiðlum síðustu mánuði þó sú umræða sé lítil um þessar mundir, líkt og á Íslandi, vegna Covid-plágunnar sem geisar um nær allan heim og meðal annars í Namibíu.
Stundin sendi Björgólfi Jóhannssyni, starfandi forstjóra Samherja sem tók við stjórn þess eftir að Namibíumálið kom upp, sms-skilaboð með spurningum um lokun Samherja í Namibíu. Björgólfur hafði ekki svarað þeim þegar fréttin var birt.
Tekið skal fram að Björgólfur kom ekkert að mútugreiðslum Samherja í Namibíu og tengist því ekki málinu sem er til rannsóknar beint persónulega.
Athugasemdir