Sérstöku þaki á samanlagðar greiðslur til launamanns frá atvinnurekanda og atvinnuleysistryggingasjóði var bætt inn í frumvarp félagsmálaráðherra um hlutabætur milli þess sem frumvarpsdrög voru kynnt aðilum vinnumarkaðarins og þingmálið lagt fyrir Alþingi.
Þetta kemur fram í umsögnum BSRB og Alþýðusambands Íslands þar sem umrætt ákvæði, um að laun frá atvinnurekanda og greiðslur atvinnuleysisbóta geti samanlagt aldrei numið hærri fjárhæð en 80 prósent af meðaltali heildarlauna launamanns, er gagnrýnt harðlega.
Í frumvarpi Ásmundar Einars Daðasonar félagsmálaráðherra er gert ráð fyrir að einstaklingur sem sækir um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli eigi rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta sem nemur hlutfallslegum mismun réttar launamannsins hefði hann misst starf sitt að öllu leyti og þess starfshlutfalls sem hann gegnir áfram. Gert er að skilyrði að fyrra starfshlutfall hafi verið lækkað hlutfallslega um 20 prósent hið minnsta og að launamaður haldi að lágmarki 50 prósenta starfshlutfalli. Fram kemur í greinargerð frumvarpsins að markmiðið sé að stuðla að því að vinnuveitendur haldi ráðningarsambandi við starfsmenn sína enda þótt nauðsynlegt kunni að vera að starfshlutfall minnki.
Í umsögn ASÍ sem birtist á vef Alþingis í dag er bent á að 80 prósenta þakið feli í sér verulega breytingu á rétti þess launafólks sem boðið verður að taka á sig skert starfshlutfall á móti hlutabótum úr atvinnuleysistryggingasjóði.
„Það á sérstaklega við um lágtekjufólk og fólk með lægri millitekjur sem þolir síst af öllu tekjusamdrátt. Mikilvægt er að það geti staðið við skuldbindingar sínar. Þá er mikilvægt að tímabundinn samdráttur nú verði ekki dýpkaður enn frekar með aðgerðum sem draga verulega úr kaupmætti almennings og hægja enn frekar á hjólum atvinnulífsins,“ segir í umsögninni. „Að óbreyttu mun Alþýðusambandið ekki geta mælt með því við félagsmenn aðildarfélaga sinna að þeir taki á sig skerðingu á starfshlutfalli með þeirri tekjuskerðingu sem núverandi frumvarp felur í sér.“
Bent er á að fyrir einstakling á lægstu launum þýði þetta að heildartekjur fyrir skatta fari úr 317.000 í tæplega 254.000 kr. á mánuði og fyrir einstakling með 400.000 kr. laun á mánuði í 320.000. Þessir hópar geti ekki tekið á sig slíka lækkun tekna.
BSRB tekur í sama streng og segir að stór hluti launafólks sé í þeirri stöðu að ná ekki endum saman verði tekjur þeirra skertar með þessum hætti.
Loks gerir ferðaþjónustufyrirtækið Go North sams konar athugasemd. „Flestar launakannanir hafa sýnt að ferðaþjónustan er ekki hálaunastétt, og það mun hafa veruleg áhrif á afkomu launþega að tekjur þeirra skerðist af völdum þessa 80% þaks,“ skrifar Unnur Svavarsdóttir, eigandi fyrirtækisins. „Það má jafnvel leiða að því líkum að skerðing launa við 80% þakið valdi tregðu launamanna til að fallast á þessa lausn, og þrýsti vinnuveitenda þar með út í uppsagnir.“
Greint var frá því í fréttum Stöðvar 2 í kvöld að frumvarpið ætti eftir að taka umtalsverðum breytingum á næstu dögum, en málið er nú til umfjöllunar í velferðarnefnd Alþingis. „Ég átti sjálf fund með til að mynda fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar í gærdag sem og fulltrúum atvinnurekenda,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í sjónvarpsfréttum. „Félags- og barnamálaráðherra vinnur nú að því að leggja til breytingar sem velferðarnefnd mun taka til skoðunar.“
Athugasemdir