Ferðalög til ríkja Evrópusambandsins verða takmörkuð næstu 30 daga til að sporna gegn útbreiðslu COVID-19 veirunnar. Ursula von der Leyen, formaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins tilkynnti um þetta í gær og kvatti önnur ríki Schengen svæðisins, það er Ísland, Sviss, Liechtenstein og Noreg, til að taka þátt.
Jóhannes Þór Skúlason, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segist draga í efa að bannið þjóni tilgangi og segir það munu skaða ferðaþjónustuna, sem er stærsta útflutningsgrein landsins. „Áætlun ESB um að loka landamærum Schengen virðist byggð á pólitík fremur en lýðheilsumarkmiðum,“ skrifar Jóhannes Þór á Facebook í gær. „Það er engum blöðum um það að fletta að taki Ísland þátt í slíkum lokunaraðgerðum mun það hafa skelfileg áhrif á þá litlu möguleika sem íslensk ferðaþjónustufyrirtæki geta enn nýtt til að halda uppi starfsemi næstu vikur og mánuði.“
Jóhannes segir að takmörkun á ferðalögum milli landa hafi yfirleitt ekki tilætluð lýðheilsuáhrif þegar smit hefur breiðst út innan landamæra, en hafi hins vegar veruleg efnahagsleg og samfélagsleg áhrif. „Almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld á Íslandi hafa sýnt afar skynsamleg viðbrögð við faraldrinum hingað til,“ skrifar Jóhannes Þór. „Ekki verður annað séð en að ferðabann í takt við það sem Ursula von der Leyen kallaði eftir í dag sé mjög á skjön við þá stefnu sem þar hefur verið mörkuð. Stærsta útflutningsgrein Íslands, atvinnulíf og efnahagur þjóðarinnar sem og samfélagið allt stendur þegar frammi fyrir gríðarlegum vanda. Nú ríður á að allra leiða sé leitað til að ekki bætist á hann.“
Athugasemdir