Ég þekki Julian Assange ekki persónulega. Ef ég á að segja alveg eins og er, þá langar mig ekki að kynnast honum. Og mér finnst ekki allt sem hann hefur sagt og gert vera óaðfinnanlegt.
En svo er reyndar um ansi marga fleiri í þessum heimi.
Vægast sagt.
Hins vegar hefur Julian Assange unnið þau verk sem ættu að fylla stóran meirihluta mannkynsins þakklæti í hans garð.
Og efla fólk til að hjálpa honum í núverandi raunum hans, þegar hann berst gegn framsali til Bandaríkjanna, en framsal þangað – og vist í bandarísku fangelsi – mun áreiðanlega ganga fljótlega af honum dauðum.
Við Íslendingar eigum að taka frumkvæði í aðstoð við Assange og bjóðast til að taka við honum og veita honum hæli
„Ha, ha,“ sagði vondi kallinn
Þegar ég var yngri las ég heilmikið af reyfurum sem fjölluðu um alþjóðapólitík alls konar og/eða samsæri stór í sniðum sem vondir menn settu saman gegn grunlausri alþýðu.
Oft enduðu reyfararnir á því að söguhetjan var búin að komast að rótum samsærisins en gat samt ekki upplýst fólk um að forsetinn/bankastjórinn/viðskiptajöfurinn væri spilltur/grimmur/samviskulaus af því enginn fjölmiðill hafði kjark til að birta slíkar upplýsingar.
Vondi kallinn í bókinni hló venjulega við og mælti við góða kallinn eftir lokauppgjörið: „Iss, það mun ekkert blað þora að birta þessa sögu! Því þau vita að þá mun ég rústa þeim!“
Hann gerði eitthvað í málinu
Stundum hugsaði ég með sjálfum mér, um leið og ég lagði reyfarann frá mér: „Mikið væri æskilegt að stofna fjölmiðil sem myndi alveg óhikað birta allar þessar upplýsingar um samsærin/fjársvikin/undirferlin.“
Ég gerði samt ekkert í því.
Julian Assange gerði hins vegar eitthvað í málinu, það má hann eiga alveg skuldlaust.
Hann stofnaði – vissulega í félagi við aðra – fjölmiðilinn Wikileaks sem stendur opinn öllum þeim sem þurfa að koma á framfæri upplýsingum er eiga erindi til almennings.
Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægustu upplýsingarnar sem Wikileaks hafa birt til þessa – myndir (og margt fleira) af hegðun bandaríska herliðsins í Írak. Sumt annað er umdeildara, en það er eins og gengur, upplýsingar eru og verða umdeildar.
„Að til sé í veröldinni fjölmiðill sem birtir óttalaus upplýsingar sem yfirvöld og valdamenn af öllu tagi vilja að fari leynt“
Að til sé í veröldinni fjölmiðill sem birtir óttalaus upplýsingar sem yfirvöld og valdamenn af öllu tagi vilja að fari leynt er hins vegar í sjálfu sér alveg ómetanlegt, og verður æ meira virði eftir því sem yfirvöld öðlast í krafti aukinnar tækni æ víðtækari tækifæri til að stýra því sem við – fólkið – vitum og fáum að vita.
Assange og Rússland
Assange hefur verið sakaður um óþarflega milt viðhorf til ógnarstjórnar Pútíns í Rússlandi. Eitthvað er til í því. En þeir sem halda að hann sé einhvers konar útsendari Rússastjórnar – og því eigi ekki að líta jákvæðum augum á neitt sem hann hefur gert – þeir ættu að íhuga aðstæður hans.
Myndi sérlegur trúnaðarmaður Pútíns hafa þurft að dúsa við æ versnandi aðstæður innilokaður í sendiráði í London og vera nú illa haldinn í fangelsi og bíða framsals til Bandaríkjanna?
Ég held bara ekki.
Sannleikurinn er sá að stjórnvöld í Bandaríkjunum (og víðar) gera sitt besta til að þrengja sem mest að uppljóstrurum eins og Edward Snowden og Chelsea Manning og fjölmiðlamönnum eins og Assange, sem hjálpa þeim að koma upplýsingum á framfæri, til þess að hefna sín á þeim.
Og ekki síður til að letja aðra til að birta síðar enn meiri upplýsingar sem við þurfum að þekkja.
Styðjum sjálfstæða blaðamennsku
Við Íslendingar erum örsmá þjóð í stórum heimi. Við eigum alltaf að skipa okkur í lið með fólkinu andspænis stórveldum, risafyrirtækjum, auðræðinu. Því ættum við að gefa yfirlýsingu um að Assange geti umsvifalaust fengið vist hér á landi.
Það mundi sjálfsagt engu skila til skamms tíma. En það gæti orðið til vitnis um að það séu til lönd sem meta meira sjálfstæða blaðamennsku og frjálsa upplýsingaöflun en leynimakk og skoðanakúgun. Ég vona að ríkisstjórn Íslands beri gæfu til að senda frá sér skýr skilaboð um hvorum megin Íslendingar standa.
Athugasemdir