Þær upplýsingar sem opinbera eftirlitsstofnunin Matvælastofnun (MAST) hafði fengið frá Arnarlaxi í byrjun síðustu viku um ætlaðan laxadauða hjá fyrirtækinu í Arnarfirði voru byggðar á „vanmati“. Upplýsingarnar komu frá laxeldisfyrirtækinu sjálfu þar sem Matvælastofnun hafði ekki gert eigið mat á því tjóni sem átt hafði sér stað hjá fyrirtækinu.
Um er að ræða einn mesta laxadauða sem átt hefur sér stað í íslensku laxeldi síðastliðin áratug hið minnsta.
Umrætt tjón átt sér stað að mestu í janúar þegar mikið magn af eldislaxi í sjókvíum Arnarlax varð fyrir nuddskaða á roði vegna þrengsla og veðurs með tilheyrandi ölduróti. Eins og segir í svörum frá MAST: „Með tjóni er átt við nuddskaðann á roði fisksins. Það getur tekið allt frá 5-6 dögum og upp í 3-4 vikur að nuddskaði þróist upp í það að verða að opnu sári sem leiðir fiskinn að lokum til dauða.“
Úr 100 í 470 tonn
Í samtali við Stundina á þriðjudaginn sagði Gísli Jónsson, yfirmaður fiskisjúkdóma hjá MAST, að um væri að ræða um 100 tonn af dauðum eldislaxi. „Ég held að það borgi sig ekkert að vera að skjóta á hvað þetta er mikið en líklega eru þetta um 100 tonn. Þetta er spírall sem er fljótur að vinda upp á sig. Þessi rekstur má ekki við svona veðri.“
„Líklega eru þetta um 100 tonn“
Gísli gerði á þessum tíma ekki mjög mikið úr vandamálinu enda var laxadauðinn sem nefndur var ekki það mikill að tala mætti um stórkostlegt tjón þar sem Arnarlax er með um 4000 tonn af eldislaxi í kvíum sínum í Arnarfirði. Um var að ræða um 2,5 prósent af því heildarmagni sem talið var að hefði drepist.
Nær strax eftir að upplýsingar um þessa tölu voru orðnar opinberar bárust hins vegar upplýsingar um að laxadauðinn væri í reynd miklu meiri en þetta, á milli fimm og tíu sinnum sú tala sem Gísli nefndi.
Ljóst var líka að vandamálið var umfangsmeira en komið hafði fram þar sem Arnarlax byrjaði að nýta sér þjónustu utanaðkomandi skipa til að safna saman dauðum fiski og flytja hann á brott úr Arnarfirðinum auk þess sem von var á norsku sláturskipi til að slátra löxunum úr kvíunum með sem hröðustum hætti.
Í kjölfarið spurðist Stundin fyrir um tölur um laxadauðann hjá Matvælastofnun og bárust þessar tölur á föstudaginn eftir að MAST hafði fengið upplýsingar um þær frá Arnarlaxi. Þá kom í ljós að laxadauðinn var í reynd 470 tonn, lægri talan sem Stundin nefndi um mögulegan laxadauða hjá Arnarlaxi út frá samtölum við heimildarmenn: „Við fengum að vita þetta á föstudag þegar staðan var búin að skýrast betur,“ segir Matvælastofnun í svari við þeirri spurningu hvenær stofnunin hafi fengið upplýsingarnar um 470 tonna laxadauðann.
Upplýsingarnar komu frá Arnarlaxi
Í svari frá Matvælastofnun kemur fram að Gísli hafi byggt þessar upplýsingar sínar um 100 tonnin á því sem Arnarlax sagði honum sem og dýralæknaþjónusta sem sinnir Arnarlaxi. „Þetta var það sem Gísli áætlaði út frá sínum samskiptum við dýralæknaþjónustuna og Arnarlax. Ljóst er að um vanmat var að ræða, ekki var búið að taka upp dauðfisk úr öllum kvíum og einnig hefur meiri fiskur drepist í millitíðinni.“
„Ekki liggur fyrir grunur um að þær séu rangar“
Gísli sagði jafnframt að samskipti stofunarinnar við Arnarlax hefðu gengið vel og að fyrirtækið stæði sig vel í að veita upplýsingar um starfsemi þess auk þess sem forstjóri fyrirtækisins, Björn Hemre, væru duglegur að vera í sambandi.
Þegar Matvælastofnun er spurð að því hvaða forsendur hún hafi til að ætla að upplýsingarnar frá Arnarlaxi um 470 tonnin af dauðum eldislaxi séu réttar þar sem stofnunin hafi ekki gerst sjálfstæða athugun á umfangi tjónsins í Arnarfirði segir að ekki sé grunur um að þessi upplýsingagjöf sé röng: „Tölurnar eru frá Arnarlaxi og miðast við stöðuna undir vikulok. Ekki liggur fyrir grunur um að þær séu rangar.“
Miðað við stöðu mála, og feril upplýsinganna í þessu tiltekna máli, er hins vegar afar erfitt að vita hvað eru réttar upplýsingar. Laxadauðinn á föstudegi reyndist vera fimm sinnum meiri en hann var sagður vera á þriðjudegi. Auðvitað getur komið í ljós að umfang laxadauða í slíku tilfelli sé meiri en talið var en að hann sé fimm sinnum meiri er ansi mikil aukning á ekki lengri tíma.
Arnarlax getur stýrt umfjöllun um sig
Niðurstaðan er sem sagt sú að það er Arnarlax sjálft sem veitir upplýsingarnar um stöðu mála í rekstri sínum til opinberu eftirlitsstofnunarinnar MAST og stofnunin hefur ekki eigið sjálfstætt mat eða athuganir til að bera þessar upplýsingar saman við.
Spyrja má þeirrar spurningar hversu heppilegt þetta sé þar sem það er fyrirtækið sem Matvælastofnun á að hafa eftirlit með sem getur haft beina hagsmuni af því að gera minna úr slíkum vandamálum eins og laxadauðan efni standa til. Arnarlax er skráð á markað í Noregi og geta fréttir um tjón eða erfiðleika í rekstrinum haft neikvæð áhrif á hlutabréfaverð fyrirtækisins.
Stundin sendi Kjartani Ólafssyni, stjórnarformanni Arnarlax, spurninga um upplýsingagjöfina um 100 tonna laxadauðann og eins um umfang laxadauðans nú, eftir helgina. Blaðið hafði ekki fengið svar þegar fréttin var birt.
Athugasemdir