Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, tekur ekki undir niðurstöður nýrrar skýrslu þar sem því er haldið fram að lög hafi verið brotin í Braggamálinu svokallaða. „Ég ætla ekki að gerast dómari í því máli,“ sagði hún aðspurð um hvort einhver þyrfti að axla ábyrgð í málinu.
Líf var gestur í Silfrinu í RÚV á sunnudag þar sem málið var stuttlega rætt. Endurbætur á bragga í eigu borgarinnar í Nauthólsvík fóru langt umfram kostnaðaráætlanir og sýndi skýrsla innri endurskoðunar fram á hagsmunaárekstra, ófagleg vinnubrögð og brot á lögum. Borgarskjalavörður komst einnig að þeirri niðurstöðu á dögunum að skjalavarsla og skjalastjórn í málinu hefði ekki samræmst lögum.
„Ég held að allt okkar starfsfólk sé að vinna vinnuna sína vel og ekki leyna neinum upplýsingum,“ sagði Líf þegar Fanney Birna Jónsdóttir þáttastjórnandi spurði hana um málið. Innt eftir því hvort ekki hafi verið ríkur vilji í kerfinu til að leyna upplýsingum sagði hún ekki svo vera. „Það finnst mér ekki vera í kerfinu, ef ég á að segja alveg eins og er.“
Loks spurði Fanney Birna hvort einhver ætti að axla ábyrgð í málinu. „Já, en það er auðvitað ekki hægt að bæta fyrir brot sem þegar er framið þannig að við þurfum bara að tryggja að í framtíðinni að það verði ekki framin þá slík brot aftur,“ svaraði Líf. „Það er það sem er í ferli hjá okkur.“
Athugasemdir