Aftakaveður hefur gengið yfir landið í nótt og í morgun og tjón er víða orðið verulegt. Á Kjalarnesi fauk hluti þaks af fjölbýlishúsi á haf út í morgun, maður slasaðist þegar hann varð fyrir fjúkandi þakplötu í Hvalfirði, bátur sökk í höfninni í Vestmannaeyjum, bílar hafa fokið á Suðurnesjum og rúður brotnað og rafmagn hefur farið af víða á Suðurlandi og Vesturlandi. Vegir eru lokaðir víða um land og voru þannig til að mynda allar leiðir til og frá höfuðborgarsvæðinu lokaðar þar til að Reykjanesbraut var opnuð á ellefta tímanum.
Aðgerðarstjórnir almannavarna voru virkjaðar víða um land í nótt og í morgun, á Selfossi, á höfuðorgarsvæðinu og á Sauðárkróki. Fjöldahjálparstöð var opnuð á Vík í Mýrdal þegar í gærkvöldi. Hundruð björgunarsveitarfólks hefur sinnt verkefnum í nótt og í morgun.
Veðrið skall fyrst á á suðurlandi í gærkvöldi og færðist til vesturs og síðan til norðurs. Illviðri er nú skollið á á Norðurlandi vestra en enn sem komið er er veður skaplegt á Norðurlandi eystra, þó farið sé að bæta í vind. Hvasst er á Vestfjörðum og hefur óvissustigi vegna snjóflóðahættu verið lýst yfir á norðanverðum fjörðunum en enn er þó ekki talin vera hætta í byggð.
Foktjón hefur orðið víða á höfuðborgarsvæðinu en fáir eru á ferli og hafa því ekki orðið slys á fólki svo vitað sé. Allir skólar og leikskólar á höfuðborgarsvæðinu eru lokaðir og hið sama má segja um fjölda vinnustaða. Fólk var eindregið hvatt til að halda sig heima og hefur þeim tilmælum verið hlýtt. Afleitt veður er enn á höfuðborgarsvæðinu þó það sé nokkuð misjafnt sé eftir borgarhverfum. Appelsínugul viðvörun er í gildi þar, sem og alls staðar annars staðar á landinu en rauðar viðvaranir voru í gildi á Suðurlandi og við Faxaflóa til hádegis.
Ljósmyndari Stundarinnar, Davíð Þór Guðlaugsson, var á ferð á höfuðborgarsvæðinu í morgun og náði þá þessum myndum sem sýna veðurhaminn.
Athugasemdir