Loftslagsafneitun er vel þekkt fyrirbæri sem er því miður fyrirferðarmikið í allri umræðu um loftslagsmál. Það er hópur fólks í samfélaginu sem einfaldlega neitar því að loftslagsbreytingar eigi sér stað, eða að þær eigi sér stað af mannavöldum, þvert á öll þau gögn og vísindalegu rannsóknir sem liggja fyrir. Ákveðin hagsmunaöfl hafa séð sér hag í því að dreifa röngum eða misvísandi upplýsingum og gefa þessum hópi hærri rödd og meira vægi í fjölmiðlum en eðlilegt getur talist. Afneitun er að mörgu leyti eðlilegt varnarviðbragð þegar okkur finnst veruleika okkar, sjálfsmynd eða félagslegri stöðu vera ógnað. En þegar öllu er á botninn hvolft er auðvelt að hrekja málstað afneitunarsinna með rökum, gögnum og rannsóknum. Ekki að þeir sem eru í sálfræðilegu (eða pólitísku, jafnvel menningarlegu) ástandi afneitunar séu alltaf tilbúnir að hlusta á rök.
Þetta form loftslagsafneitunar, sem mætti kalla harða afneitun, er vissulega hættulegt. Sérstaklega þegar harðir afneitunarsinnar á borð við Donald Trump komast í valdamiklar stöður. En það er til annað form afneitunar, sem mætti kalla mjúka afneitun, sem er líklega jafn hættulegt en mun útbreiddara þó það fari minna fyrir því í umræðunni. Mjúk afneitun getur tekið á sig mismunandi myndir. Í henni getur til dæmis falist að viðurkenna loftslagsvandann en neita að horfast í augu við afleiðingarnar, bægja vandanum frá sér í stað þess að takast á við hann. Eða grunn og yfirborðskennd greining á loftslagsvandanum sem gerir okkur auðvelt að halda áfram með okkar daglega líf án þess að hafa of miklar áhyggjur af framtíðinni. Í mjúkri afneitun felst oft órökstudd trú á að ástandið verði ekki jafn slæmt og spáð er fyrir um, að hlutirnir muni einhvern veginn reddast, trú á tæknilausnir sem munu bjarga okkur á morgun frekar en aðgerðir til að draga úr losun strax í dag.
Mjúk loftslagsafneitun virðist hins vegar vera mjög almenn.
Undanfarna áratugi hefur hörð loftslagsafneitun blessunarlega ekki tekið jafn mikið pláss í íslenskri umræðu og raunin hefur verið víða í heiminum. Þótt sú umræða virðist því miður hafa tekið einhvern kipp samhliða neikvæðum viðbrögðum við málflutningi Gretu Thunberg á liðnu ári. Mjúk loftslagsafneitun virðist hins vegar vera mjög almenn.
Ef Donald Trump er ein birtingarmynd harðrar afneitunar þá mætti nefna nágranna hans, Justin Trudeau, forseta Kanada, sem eina birtingarmynd mjúkrar afneitunar. Trudeau viðurkennir að loftslagsbreytingar séu að eiga sér stað, hann er tilbúinn að ráðast í takmarkaðar aðgerðir gegn þeim og stærir sig jafnvel af því. En á sama tíma vill hann opna nýjar olíusandnámur og byggja upp innviði fyrir olíuvinnslu og olíudrifið hagkerfi. Olíusandar Kanada eru ein mest mengandi og eyðileggjandi orka sem fyrirfinnst á þessari plánetu með hærra kolefnis- og vistkerfisfótspor en flest önnur jarðefnaeldsneyti. Það þarf talsvert mikla afneitun til að sjá ekki að til lengri tíma muni aukin vinnsla úr olíusöndunum skaða bæði Kanada og heimsbyggðina alla.
Svipaða tilhneigingu til mjúkrar afneitunar má oft sjá hjá íslenskum stjórnmálamönnum og forsvarsmönnum atvinnulífsins. Þar eru aðilar sem vissulega viðurkenna loftslagsbreytingar en á sama tíma virðist sú vitneskja ekki vera lögð til grundvallar neinum framtíðaráformum. Það virðist reiknað með að ferðamenn haldi áfram að koma (og að það sé æskilegt), að einkabíllinn muni alltaf hafa jafn stóran sess í samgöngum, að dýraafurðir muni alltaf vera jafn stór hluti af mataræði okkar, að aukin neysla sé æskileg, að hagvöxtur sé alltaf af hinu góða ... og þar fram eftir götunum. Það er ákveðinn forsendubrestur í nánast allri íslenskri stjórnmálaumræðu ef yfirvofandi loftslagsbreytingar eru hafðar til hliðsjónar. Eða með öðrum orðum: Það er til staðar í samfélaginu almenn, djúpstæð og oft falin afneitun.
Ef horft er blákalt á staðreyndir málsins, og þær hamfarir sem vofa yfir ef ekkert er að gert, er það nánast óhjákvæmileg niðurstaða að við þurfum að draga saman seglin á mörgum sviðum. Við þurfum að horfa mjög gagnrýnum augum á þau pólitísku og efnahagslegu kerfi sem oft eru drifkrafturinn á bak við stöðugt aukna orkunotkun og aukna neyslu því þau samræmast ekki farsæld og velferð okkar og barnanna okkar þegar yfirvofandi loftslagshamfarir eru teknar með í reikninginn. Mjúka afneitunin er að viðurkenna að loftslagið sé að hlýna af mannavöldum en neita að vinna að, eða einu sinni leiða hugann að, þeim róttæku samfélagsbreytingum sem þurfa að eiga sér stað yfir næstu áratugi ef við ætlum að takast á við vandann. Slíkar breytingar þurfa ekki að vera til hins verra ef við vinnum að þeim lýðræðislega og ef við hefjum umræðu og vinnu við þær sem fyrst. En til þess að hefja þá vinnu þurfum við að losna úr ástandi afneitunar.
Athugasemdir