Heljarstökk Macrons upp í æðsta embætti Frakklands var með ólíkindum, og má vera að það verði sagnfræðingum framtíðarinnar tilefni til nokkurra heilabrota. Tveimur árum fyrir forsetaframboðið hafði varla nokkur maður heyrt hans getið, þegar hann bauð sig fram hafði hann aldrei áður boðið sig fram til eins eða neins, hann hafði aldrei gegnt neinu embætti sem menn eru kjörnir til, hann hafði aldrei staðið í kosningabaráttu, aldrei haldið kosningaræðu, aldrei gengið um markaðstorg og tekið í hendurnar á venjulegum körlum og konum, sem eru til alls líkleg, a.m.k. í orðum, hann hafði aldrei setið á skrifstofu og orðið að hlusta á mislynda kjósendur, og hann hafði aldrei heimsótt hina árlegu landbúnaðarsýningu í París – það kalla Frakkar „að klappa á kýrrassa“ og er það talinn nauðsynlegur þáttur í ferli hvers stjórnmálamanns sem stefnir hátt (í því var Chirac forseti óumdeildur meistari).
Úr stóru skólunum
Ferill Macrons fram að forsetaframboðinu hafði verið harla einhæfur. Eftir nám í kaþólskum einkaskóla í bænum Amiens fór hann í það sem Frakkar kalla „stóru skólana“, „les grandes écoles“, en til skýringar verður að geta þess að í Frakklandi eru háskólar oftast blindgata, þeir sem huga að einhverjum raunverulegum frama reyna að komast inn í einhvern af þessum „stóru skólum“, einkum og sér í lagi „Stjórnmálafræðaskólann“ og „Stjórnsýsluskólann“; fyrir þá sem hafa prófskírteini úr þeim eru allar leiðir opnar. Macron lauk prófi úr þeim báðum.
Námið í þessum stofnunum hefur verið gagnrýnt, því hefur verið haldið fram að nemendur geri lítið annað en reyna að mynda gagnleg sambönd upp á framtíðina og læri lítið, en víst er að þar er haldið að mönnum einföldum rétttrúnaði í landsmálum, semsé trú á frjálsa verslun, markaðslausnir á öllum vanda, nauðsyn þess að draga sem mest úr ríkisútgjöldum og frelsi á vinnumarkaði, það er að segja frelsi atvinnurekenda til að fara með starfsmenn sína eins og þá lystir. Fá nemendur í hendur fjölritaða fyrirlestra um þau lögmál hagfræðinnar sem eiga að rökstyðja þetta. Nemendur skólans eru því yfirleitt afskaplega einhæfir og steyptir í sama mót. „Stjórnsýsluskólinn“ er jafnan nefndur eftir skammstöfuninni „ENA“ og þeir sem hann útungar eru kallaðir „enarkar“. Það heiti getur verið hlutlaust, en í munni alþýðunnar merkir það oft „sálarlausir og þröngsýnir kerfiskallar, fjarri öllu raunverulegu mannlífi, en afskaplega hrokafullir um leið“. Macron var einn af þeim, hann var „enarki“. En ýmsir kynnu að líta svo á að þetta sé ekki besti undirbúningurinn fyrir stjórnmálamann.
Í „fjármálaeftirlitið“
Þeir sem ljúka prófi úr „ENA“ fá strax nokkuð háa stöðu og Macron var settur í „fjármálaeftirlitið“, sem hefur eftirlit með fjármálum ríkisins. Þar var hann einn af mörgum, en hann fór fljótlega annað, hann komst í stöðu í Rotschild-bankanum, því ferill „enarka“ einkennist oft af því að þeir hoppa á víxl úr stöðu hjá ríkinu yfir í stöðu hjá einkageiranum og aftur til baka. Svo er um marga, en Macron greindi sig fljótt úr hópnum þegar hann fékk sæti í nefnd sem forsetinn – þá semsé Sarkozy – setti á fót til að gera tillögur um efnahagslegar umbætur í Frakklandi, til að leysa úr læðingi sköpunarkrafta og hagvöxt eins og það hét. Í nefndinni var meðal annars Attali nokkur, víðfrægur hrakfallabálkur og spraðurbassi sem er afskaplega áberandi í frönsku þjóðlífi, því meir sem honum mistekst því hærra kemst hann og því gáfaðri er hann talinn, og hann hefur skrifað margar bækur. Kannske hefur það skipt sköpum fyrir Macron að komast í kynni við þennan mann, alla vega var það hann sem kynnti Macron fyrir Hollande. Niðurstaða nefndarinnar var lítið annað en trúarjátning frjálshyggjunnar, án nokkurs frumleika, en Macron fékk það hlutverk að vera talsmaður hennar í tvígang, 2008 og 2010.
Undraverður uppgangur
Þegar Hollande var kjörinn forseti tveimur árum síðar komst Macron í þá stöðu, kannske fyrir atbeina Attalis sem á greiðan aðgang að eyrum forseta, hver sem hann er, að vera einn af ráðgjöfum hans. Hann var þá enn ekki annað en venjulegur enarki, sem hafði varla nokkurn tíma umgengist venjulegt fólk og aldrei gert annað en sitja á skrifstofu og hugsa um fjármál. Nú komst hann fyrst í snertingu við stjórnmál, en að því er virðist á fremur þröngu sviði, semsé enn og aftur fjármálum. Hann myndaði tengsl við ofurauðkýfinga landsins, ekki síst við þá sem áttu fjölmiðla, og kom það honum að gagni, en ekki fyrr en síðar.
Hann myndaði tengsl við ofurauðkýfinga landsins, ekki síst við þá sem áttu fjölmiðla
Umskiptin miklu urðu sumarið 2014. Um miðjan júlí vék hann úr stöðu sinni í forsetahöllinni, en mánuði síðar var hann skyndilega útnefndur fjármálaráðherra, öllum til mikillar undrunar. Margir aðrir virtust mun líklegri til starfans, og Hollande forseti hafði engan pólitískan ávinning af því að setja í þessa stöðu litlausan enarka sem enginn þekkti. En hvernig sem á því stóð var eins og hendi væri veifað, Macron var nú síknt og heilagt í öllum fjölmiðjum, jafnt virtum stórblöðum sem og slúðurpressunni, helst á áberandi stöðum. Öll tilefni voru notuð, og þá var gerð ákveðin mynd af honum, margendurtekin, sem virðist helst gerð til að þurrka burt myndina af honum sem tæknikrata fjarri almenningi.
Lögð var á það áhersla að hann væri í rauninni heimspekingur, hann hefði prófgráður í þeirri grein, hefði skrifað ritgerðir á því sviði og síðan orðið aðstoðarmaður heimspekingsins víðkunna Paul Ricoeur (sem þá var látinn), orðalagið sem notað var benti til þess að hann hefði verið náinn samstarfsmaður hans.
Ástarsaga Macrons
Svo sögðu slúðurblöðin, svosem vikuritið „Closer“, hugljúfa sögu af ástarmálum hans: í menntaskóla hefði hann og kennslukona hans, Brigitte að nafni, harðgift og um tuttugu árum eldri, fellt hugi saman þegar hann var 17 ára og hún 36 ára – hefðu bekkjarbræður hans og -systur tekið eftir því að hann var uppáhaldsnemandi hennar, hún hefði lesið upp í tímum ljóð sem hann orti. Síðan hefðu þau gengið í hjónaband þegar hann hafði aldur til. Þessu fylgdu myndir af hjónakornunum við öll tækifæri, skælbrosandi og haldandist í hendur.
Sem dæmi um líkamsorku hans greindu tvö vikurit frá því að Macron svæfi ekki nema einn klukkutíma og fjörutíu og átta mínútur hverja nótt, frá tólf mínútum yfir fjögur til kl. sex að morgni. Hann var kallaður „Mozart fjármálanna“.
Ýkjur og uppspuni
Að vísu var þessi glansmynd í meginatriðum röng. Macron hafði alls engar prófgráður í heimspeki, þeir kennarar sem hann átti að hafa lært hjá mundu ekkert eftir þessum framúrskarandi nemanda, engir skólafélagar hans í þeirri grein fyrirfundust né heldur ritgerðirnar sem hann átti að hafa skrifað. Samstarfið við Ricoeur, sem þá var 87 ára, virtist hafa verið sáralítið, einna helst aðstoð við heimildir og tilvísanir. Ástarsagan hrífandi var mjög úr lagi færð. Brigitte var aldrei kennari Emmanuels unga, heldur leiðbeinandi við að setja upp eitt leikrit í skóla, þess vegna var sagan um uppáhaldsnemandann og upplesturinn á ljóðum uppspuni. Og það sem var ekki betra: Brigitte var ekki tuttugu árum eldri en Macron heldur tuttugu og fimm, hann var semsé 14 ára og hún 39 þegar leiðir þeirra lágu saman og þá er komið ískyggilega nálægt gráa svæðinu (hvað myndu menn nú segja ef þetta hefði verið á hinn veginn, 39 ára kall og 14 ára ungmey?). Þegar hann var orðinn sautján ára bjuggu þau ekki lengur í sömu borg, hann var kominn í skóla í París. Eitt slúðurblaðið sá ástæðu til að taka fram að þau hefðu aldrei haft holdlegt samræði fyrr en hann var skriðinn úr skóla. En erfitt er að sjá hvaða traustar og óyggjandi heimildir blaðið getur hafa haft fyrir því.
Skegg Macrons
En „helgisagan“ lifði lengi í fjölmiðlum og jafnframt voru öll hans orð og gerðir tíunduð. Á hrafnaþingi í Las Vegas, „Consumer Electronics Show“, sagði hann sem oft hefur verið rifjað upp: „Það vantar unga Frakka sem hafa löngun til að verða milljarðamæringar“ (sumir sem þetta lásu hafa vafalaust hugsað: „Fyrst þurfa þessir ungu Fransmenn þó að fá vinnu“). Í viðtali við BBC lýsti hann aðdáun sinni á járnlafðinni, og sagði að vandi Frakka væri sá að þeir hefðu látið undir höfuð leggjast að gera þær „umbætur“ sem gerðar voru í Englandi á stjórnartíma hennar. Hann sagði einnig, í fyrirlestri í verslunarskóla í Berlín, að hagnaður fyrirtækja í Frakklandi væri of lítill, aukning framleiðslunnar of hæg, starfsmenn of verndaðir. En hvað sem var gat orðið tilefni til fjölmiðlagosa, svo sem það að í janúarbyrjun 2016 kom hann úr jólafríinu með þriggja daga skegg: „Menn tóku mjög eftir skeggi Macrons“, „skegg Macrons gerir stormandi lukku“, „netið logar út af skeggi Macrons“ ... Fáum dögum síðar fór svo hann til rakara sem var svo klaufskur að hann rispaði Macron og þá komu nýjar myndir og frásagnir.
„Það vantar unga Frakka sem hafa löngun til að verða milljarðamæringar“
En svo kom að því að Macron fór að undirbúa forsetaframboð, en þar virtist róðurinn erfiður. Eftir hinn álappalegasta feril í forsetahöllinni var Hollande að vísu úr leik, og loku girt fyrir að sósíalisti gæti náð kjöri, enda varla nokkur frambærilegur maður á þeim væng. Macron, sem hafði sýnt í orðum og gerðum að hann var ekki sósíalisti, varð að leita á önnur mið, en þar var ljón á veginum: Alain Juppé, fyrrverandi forsætisráðherra og borgarstjóri í Bordeaux; allar skoðanakannanir sýndu að hann var sigurvænlegastur allra þeirra sem kynnu að bjóða sig fram, nánast öruggur um að ná kosningu. Þrátt fyrir alla fjölmiðlabarsmíðina var Macron ekki sérlega ofarlega á listanum, Marine Le Pen var fyrir ofan hann.
Ferli með ólíkindum
En þá fór af stað ferli sem var með slíkum ólíkindum að kannske vildu spakir menn láta segja sér söguna þrisvar. Þegar að því kom að velja frambjóðanda fyrir hægri flokkinn (flokk Sarkozys) bjuggust allir við að Juppé myndi sigra auðveldlega og það sögðu skoðanakannanir líka. En öllum til undrunar var það Fillon, fyrrverandi forsætisráðherra, sem varð fyrir valinu. Greidd atkvæði voru líka fleiri en búist hafði verið við, og virðist svo að ýmisleg kaþólsk samtök hafi rekið áróður fyrir Fillon í laumi en beðið menn að fela það fyrir skoðanakönnunum og smalað svo til kosninganna. Fillon virtist sterkur frambjóðandi, líklegri til sigurs en Macron, en það var honum þó til trafala hve íhaldssamur hann var, hann var t.d. harðkaþólskur, andvígur hjónabandi argra manna og kvenna – sem þá var að vísu orðið að lögum – svo lýsti hann því yfir að hann vildi fækka ríkisstarfsmönnum um hálfa miljón.
En menn áttu enn eftir að verða hissa. Seint í janúar 2017 birti háðblaðið „Hlekkjaða öndin“ frétt um að Fillon hefði sitthvað óhreint í pokahorninu: hann hefði ráðið spúsu sína sem aðstoðarmann sinn á þingi, fyrir opinbert fé að sjálfsögðu. Það var að vísu löglegt, en gallinn var sá að engin merki voru um að hún hefði nokkru sinni gert ærlegt handtak, enginn hafði nokkru sinni séð hana á þinginu, eða í grennd við það. Þessi kona, velsk að uppruna, virtist lítið gera annað en sitja í kastalanum sem þau hjónin áttu og huga að búi og börnum.
Nepótismi fellir Fillon
„Þessu verða allir búnir að gleyma eftir viku“ á Fillon að hafa sagt. En eftir viku kom háðblaðið aftur út með nýjar upplýsingar um frambjóðandann, af sama taginu. Aðrir fjölmiðlar fóru að taka undir. Og þannig hélt framhaldssagan áfram vikulega allan tímann fram að kosningunum, enn oftar undir lokin: Fillon hafði fengið vin sinn sem stýrði bókmenntatímariti til að ráða Madame Fillon í ritstjórn þess fyrir há laun, en hún virtist aldrei hafa komið nálægt því starfi; hann hafði ráðið afkvæmi sín til að aðstoða sig við sérstakt verkefni, sem þau virtust tæplega hæf til að vinna fyrir bernsku sakir, en launin voru greidd af þinginu, og þannig fram eftir götunum. Fillon gat ekki borið hönd fyrir höfuð sér, því þetta var allt satt. Hafin var opinber rannsókn í málum frambjóðandans, fyrir misnotkun á opinberu fé (réttarhöldin eru í aðsigi þegar þetta er ritað).
Meðan þessu fór fram reyttist fylgið hægt og bítandi af Fillon, en samt kom það í fréttum að síðasti kosningafundur hans hefði heppnast með ágætum. Strax á eftir kom svo síðasta uppljóstrunin: síðan 2012 hafði Fillon spókað sig í fötum sem vinur hans gaf honum og kostuðu samtals 48.500 evrur; var hver flík vendilega upp talin.
Macron eða þjóðernisöfgasinni
Þegar fyrri umferð forsetakosninganna fór fram 23. apríl 2017 voru örlögin ráðin, Fillon féll, það voru Macron og Marine le Pen sem komust upp í aðra umferð, og þá hlaut Macron að sigra, menn fylktu sér á móti þjóðernisöfgasinnanum. Sennilega verður seint úr því skorið hve mikill hluti kjósenda var í raun fylgjandi Macron og stefnu hans og hver mikill hluti spratt af óttanum við grýluna.
Í þessu kosningaleikriti er það sennilega aðalatriðið hversu langt menn eru reiðubúnir að fylgja „samsæriskenningunni“. Á því leikur varla nokkur vafi að þeir sem stóðu að baki uppljóstrununum höfðu allar upplýsingarnar í hendi fyrirfram, því þetta voru allt nokkuð gömul mál þótt það kostaði kannske nokkra vinnu að grafa þau upp, en þeir kusu kænlega að mylgra þeim út í smáskömmtum og í réttri röð. Tilgangurinn var augljóslega að ryðja Macron brautina. Spurningin er hins vegar glíma Juppé og Fillon, var hún sjálfsprottin eða var Fillon ýtt af stað til að bola burtu borgarstjóranum í Bordeaux – í þeirri vissu að ef hann kæmist á siglingu skorti ekki púðrið að skjóta hann í kaf? Þessu geta menn trúað ef þeir vilja. En ef einhver hallast að þeirri hugmynd eru rökin nokkuð augljós. Juppé var þaulreyndur stjórnmálamaður með pólitískt skyn, og kannske var það þess vegna sem hann hafði drýgt eina stórsynd: hann var forsætisráðherra 1995 þegar fyrst var farið af stað til að breyta tilhögun eftirlauna, en eftir tíu vikna verkfall sem lamaði þá þegar Frakkland lét hann undan og dró áformin til baka. Þetta hafa frjálshyggjusinnar í Frakklandi ekki fyrirgefið, og því er ekki að furða þótt þeir hafi fremur viljað blása upp þessa ENA-blöðru.
Höfundur er doktor í sagnfræði, búsettur í París.
Athugasemdir