Nýr upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins, Rósa Guðrún Erlingsdóttir, var valin í starfið án auglýsingar. Staðan hafði ekki verið til í nokkur ár, en Rósa var færð til í starfi innan ráðuneytisins. Stöður upplýsingafulltrúa eru venjulega auglýstar.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Greint var frá ráðningu Rósu í byrjun janúar, en hún hafði starfað sem sérfræðingur á sviði jafnréttismála síðan 2013. Sama dag var sagt frá því að Lára Björg Björnsdóttir hefði hætt sem upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, en það er önnur staða sem þó hefur einnig starfsstöð í forsætisráðuneytinu. Samkvæmt Ágústi Geir Ágústssyni, skrifstofustjóra ráðuneytisins, stendur til að ráða í stöðu Láru síðar á þessu ári.
Ágúst segir að ákveðið hafi verið að gera breytingar á verksviði Rósu og fela henni verkefni á sviði upplýsinga og vefmála í ráðuneytinu. Umfang þessara verkefna hafi aukist hratt undanfarin ár, bæði af eigin frumkvæði og vegna fyrirspurna. Forsætisráðuneytið muni taka forystu um þessi verkefni og verði það á verksviði Rósu. „Hér er því um tilfærslu á starfsmanni að ræða innan ráðuneytisins,“ segir hann.
Athugasemdir