120 sjómenn sem vinna hjá félagi Samherja í Namibíu eru í óvissu með störf sín og fjárhagslega afkomu vegna þess að togarinn Saga eru hættur veiðum í landinu. Saga hét áður Blue Wave og var í eigu íslenska lífeyrissjóða í gegnum félag í skattaskjólinu Tortólu. Félag Samherja í Namibíu heitir Saga Seafood og er eitt af félögunum sem er miðju Samherjahneykslinu í Namibíu, hundruð milljóna króna mútugreiðslum til ráðamanna í Afríkuríkinu í skiptum fyrir hestamakrílskvóta sem sagt var frá í Kveik, Stundinni og Al-Jazeera í nóvember á grundvelli gagna frá Wikileaks.
Fyrr í janúar sagði Samherji frá því að fyrirtækið væri að draga saman seglin í Namibíu með það fyrir augum að yfirgefa landið alveg. „Samherji er um þessar mundir að draga úr starfsemi sinni í Namibíu með það að markmiði að hætta alfarið rekstri í landinu. Hins vegar er ljóst að það mun taka einhvern tíma. Allar ákvarðanir vegna starfseminnar í Namibíu verða teknar í nánu samráði við þar til bær stjórnvöld og í samræmi við gildandi lög og reglur,“ sagði í frétt á heimasíðu Samherja.
„Okkur þótti þetta einkennilegt þar sem við vorum á leið til veiða“
Fengu sms um að fjarlægja eigur sínar
Í frétt blaðsins er viðtal við einn af sjómönnunum 120, Frans Shilongo, þar sem hann segir sjómennina hafa fengið sms-skilaboð um að þeir myndu ekki halda til veiða um borð í Sögu og að þeir ættu að fjarlægja eigur sínar frá borði. „Okkur þótti þetta einkennilegt þar sem við vorum á leið til veiða. Yfirleitt er það þannig að 15 manna áhöfn fylgir togaranum ef hann fer í slipp, þess vegna þótti okkur þetta skrítið,“ segir Shilongo.
Annar sjómaður, Leonard Shinedima, segir við blaðið að sjómennirnir hafi ekki fengið nein svör frá Samherjafélaginu um framtíð sína, einungis að skipið yrði í burtu í sex mánuði. „Svo virðist vera sem það enginn kvóti til að veiða, þess vegna mun skipið halda til veiða í Máritaníu. Við heyrðum einnig að skipið sé á leiðinni í slipp í Las Palmas á Kanaríeyjum. Þessir menn veita bara ekki skýr svör,“ segir sjómaðurinn.
Enginn af forsvarsmönnum Samherjafélagsins í Namibíu, sem Egill Helgi Árnason hefur stýrt, vildi tjá sig við New Era Live þegar eftir því var leitað.
Samkvæmt frétt New Era Live hafa starfsmennirnir áhyggjur af því að þeir muni ekki fá nein laun, eða uppsagnarfrest, ef störfum þeirra fyrir Samherjafélagið í Namibíu er nú lokið.
„Sjómönnunum hefur enn ekki verið sagt upp en ef það gerist þá verður gert upp við þá í samræmi við þeirra lagalegan rétt og eftir namibískum lögum.“
Samherji: Réttindi starfsmanna virt
Í svari frá Samherja kemur fram að togarinn Saga hafi verið leigður til fyrirtækis í Namibíu. „Skipið Saga var leigt til Namibísks fyrirtækis sem hefur ekki fengið kvóta á skipið í Namibíu og getur þess vegna ekki veitt í lögsögu landsins. Við getum ekki svarað fyrir þá útgerð, hún er ekki á okkar vegum. Laun hafa verið gerð upp við áhöfn skipsins samkvæmt samningum og engar skuldir eru útistandandi.“
Í svari Samherja, frá Björgólfi Jóhannssyni forstjóra í gegnum ritarann Margréti Ólafsdóttur, kemur fram að gert verði upp við sjómenn togarans samkvæmt þeim lögum og reglum í Namibíu. „Sjómönnunum hefur enn ekki verið sagt upp en ef það gerist þá verður gert upp við þá í samræmi við þeirra lagalegan rétt og eftir namibískum lögum. Samherji hefur greitt öll gjöld, skatta, veiðiheimildir, laun osfrv. Samherji hefur og mun uppfylla allar lagalegar skyldur í Namibíu.“
Björgólfur svaraði ekki þeirri spurningu hvort Saga hefði farið frá Namibíu til að veiða í Máritaníu.
Hafnar kaupum á togaranum
Í frétt blaðsins er einnig viðtal við framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins Tunacor sem sagt hefur verið eiga í viðræðum við Samherjafélagið í Namibíu um kaup á þessum togara félagsins en þeir eru þrír í heild sinni í Namibíu: Saga, Heinaste og Geysir. Þessu hafnar framkvæmdastjórinn í greininni og virðist því ekki vera neinn kaupandi að Sögu innan Namibíu. „Við ræddum þessi mál almennt en það þýðir ekki að við ætlum að taka togarann yfir. Þetta hefur ekki náð neitt lengra. Menn eru greinilega komnir á aðra skoðun núna og ef við hefðum vijað kaupa togarann þá hefðum við nú þegar gert það...“, segir framkvæmdastjórinn, Peya Hitula.
Athugasemdir