Kristín Jóhannesdóttir, einn umsækjenda um stöðu ríkislögreglustjóra, uppfyllir ekki hæfisskilyrði lögreglulaga til að hljóta skipun í embættið, sökum þess að hún hlaut þriggja mánaða fangelsisdóm árið 2013. Í lögreglulögum er tiltekið að sá sem skipaður er ríkislögreglustjóri megi ekki hafa hlotið fangelsisdóm.
Kristín er hvað þekktust fyrir að hafa á sínum tíma verið í lykilhutverki í viðskiptaveldi Baugsfjölskyldunnar og var framkvæmdastjóri fjárfestingarfélagsins Gaums, auk þess að hafa setið í stjórn Baugs.
Kristín var, ásamt Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, bróður sínum, og Tryggva Jónssyni, sakfelld í skattahluta Baugsmálsins svokallaða í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2012. Í dómnum var ákvörðun refsingar frestað, vegna mikils dráttar á meðferð málsins. Dómnum var áfrýjað til Hæstaréttar sem kvað upp dóm ári síðar, 7. febrúar 2013.
Í Hæstarétti var Kristín sakfelld fyrir tvö brot í starfsemi Gaums. Hún hefði skilað röngum skattframtölum fyrir félagið, annars vegar þar sem vantaldar voru skattskyldar tekjur þess og hins vegar þar sem oftaldar voru til gjalda niðurfærslur tiltekinnar hlutabréfaeignar félagsins og tap þess oftalið. Í dómi Hæstaréttar var Kristín dæmd til þriggja mánaða fangelsisrefsingar, sem falla skyldi niður að tveimur árum liðnum héldi hún almennt skilorð.
Samkvæmt 28. grein lögreglulaga skulu þeir sem skipaðir eru ríkislögreglustjórar „hafa hvorki hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að þeir urðu fullra 18 ára né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglustjórar verða almennt að njóta.“
Lögfræðingar sem Stundin hefur rætt við og leitað álits hjá eru sammála þeirri túlkun að með því að Kristín var dæmd árið 2013 uppfylli hún ekki hæfisskilyrði til að verða skipuð ríkislögreglustjóri.
Athugasemdir