Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Forsvarsmaður undirverktaka við Héðinshúsið segist ekki hafa grunað neitt

Tíu ein­stak­ling­ar hafa ver­ið hand­tekn­ir við bygg­ingu hót­els í Vest­ur­bæ Reykja­vík­ur í tveim­ur að­gerð­um lög­reglu á síð­ustu fjór­um mán­uð­um. Sami ein­stak­ling­ur bar ábyrgð á starfs­mönn­un­um í báð­um mál­um. Hann seg­ir í gegn­um lög­fræð­ing sinn að ekki hafi ver­ið ástæða til að gruna þá um óheið­ar­leika.

Forsvarsmaður undirverktaka við Héðinshúsið segist ekki hafa grunað neitt

Í tvígang á síðustu fjórum mánuðum hefur lögregla gert rassíu í Héðinshúsinu við Seljaveg í Reykjavík og handtekið tíu manns sem voru þar að störfum sem voru ekki með atvinnuleyfi hér á landi. Allir mennirnir voru þar á ábyrgð tveggja verktakafyrirtækja sem er stjórnað af sama einstaklingi. Hann segist í gegn um lögmann sinn ekki vilja ræða einstök efnisatriði, en að ekki hafi verið ástæða til að gruna mennina um óhreint mjöl í pokahorninu og að fyrirtækið hafi ekki komið nærri hingaðkomu þeirra til landsins.

CenterHotels reisa nýtt hótel í Héðinshúsinu en framkvæmdastjóri hótelkeðjunnar segir að svona mál komi víðar fyrir og að það sé tilviljun að þetta sé að gerast aftur hjá þeim á ábyrgð sama aðila.

Samkvæmt lögreglu voru tveir einstaklingar handteknir 12. september síðastliðinn, en hvorugur þeirra var með atvinnuleyfi. Hinn 21. janúar voru átta til viðbótar handteknir í aðskilinni aðgerð, en þeir voru allir grunaðir um að framvísa fölsuðum skilríkjum til að fá atvinnuleyfi hér á landi. Einstaklingar með ríkisfang utan Evrópska efnahagssvæðisins þurfa sérstakt atvinnuleyfi til að fá kennitölu og atvinnuleyfi hér á landi. Áttmenningarnir munu því hafa framvísað fölsuðum skilríkjum til að komast hjá því.

Lögreglan átti frumkvæði að aðgerðinni eftir að Þjóðskrá tilkynnti mögulegt brot. Stór hópur lögreglumanna mætti í Héðinshúsið fyrir hádegi 21. janúar með eftirlitsaðilum á vegum Ríkisskattstjóra, Vinnueftirlitsins og Vinnumálastofnunar. Auk þeirra átta einstaklinga sem handteknir voru, var níu öðrum vísað af vinnusvæðinu þar sem þeir báru ekki viðeigandi skilríki á sér, en þeir fengu allir á endanum að snúa aftur til vinnu.

Sami ábyrgðarmaður í báðum handtökum

CenterHotels vinnur að byggingu nýs hótels við Héðinhúsið, en byggingin hefur áður hýst vélsmiðju, leikhús og íþróttasal. Eftirlitsfulltrúar stéttarfélaganna hafa ítrekað átt erindi þangað og hefur blaðamaður fylgt fulltrúunum í tvær slíkar eftirlitsheimsóknir. Í þeirri fyrri sá blaðamaður meðal annars að öryggisreglur voru ekki virtar, og í þeirri seinni sagði starfsmaður að hann fengi hvorki launaseðla fyrir vinnu sína né borgað frí eða yfirvinnu.

„Þegar ég bað yfirmann minn um launaseðil þá sagði hann mér að sætta mig við stöðuna eða að fara aftur heim,“ sagði hann blaðamanni og viðstöddum eftirlitsfulltrúum. „Ég er að vinna hér, en ég skil ekki fyrir hvern eða hver er að borga launin mín.“ Starfskrafturinn sagðist heldur ekki hafa fengið borgað frí eða yfirvinnu.

„Ég er að vinna hér, en ég skil ekki fyrir hvern eða hver er að borga launin mín“

Heimsókn lögreglu 12. september síðastliðinn varð að umfjöllunarefni Stundarinnar en þar var rakin margra liða keðja verktaka að HBS Byggingarfélagi ehf., sem hafði ráðið undirverktaka sem var með tvo einstaklinga án vinnuréttinda í vinnu. Sá undirverktaki játaði brotið í samtali við Stundina og sagðist hafa ætlað að borga hlut í fargjaldi þeirra heim í skiptum fyrir nokkrar vinnustundir. Áttmenningarnir sem voru handteknir 21. janúar unnu fyrir Járnhest ehf., undirverktaka á svæðinu, en Hjálmtýr er eigandi þess félags og HBS.

Í fyrri frétt Stundarinnar frá því í nóvember sagði Hjálmtýr að hann hafi verið sjálfur fórnarlamb svika. „HBS var bara milliliður fyrir þessa starfsmenn og ég hef lítið um málið að segja. Ég hélt að undirverktakinn hefði verið með allt á hreinu, en hann var það greinilega ekki. Ég gerði þau mistök að hafa ekki betra eftirlit.“

„Ég gerði þau mistök að hafa ekki betra eftirlit“
Segist ekki hafa komið nærri málinuJárnhestur var með átta menn í vinnu sem voru handteknir grunaðir um skjalafals. Stjórnarmaður Járnhests segir í gegn um lögmann sinn að félagið hafi ekki komið nærri „hingaðkomu þessara manna“ hér á landi.

Þegar Stundin falaðist eftir svörum frá Hjálmtý barst svar frá lögmanni hans, Steinbergi Finnbogasyni. Hann sagði að skjólstæðingur sinn kysi að tjá sig ekki um einstaka þætti en vildi þó koma því á framfæri: „að um er að ræða rannsókn lögreglu á tilteknum útlenskum starfsmönnum Járnhests sem bæði hafa íslenska kennitölu og bankareikninga hér á landi.“

Rekur Steinbergur þá sögu að þeir sem handteknir voru hafi hugsanlega fengið þetta tvennt með fölsuðum skilríkjum. „Járnhestur kom hvergi nærri hingaðkomu þessara manna heldur ræður þá til starfa á grundvelli íslenskra kennitalna þeirra og fyrri starfa hér á landi. Útilokað er fyrir Járnhest að grundvalla ráðningar starfsfólks á öðru en viðurkenningu stjórnvalda á veru þeirra í landinu. Engar grunsemdir hafa vaknað um óhreint mjöl í pokahorni þessara starfsmanna en lögreglurannsókn mun væntanlega leiða í ljós hvort svo sé eða ekki.“

„Engar grunsemdir hafa vaknað um óhreint mjöl í pokahorni þessara starfsmanna“

Kennir Þjóðskrá um

Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri CenterHotels, sagði í viðtali við Stundina í nóvember að hann hefði gert ráð fyrir því að „undirverktakinn hafi verið of fljótur á sér og hleypt fólki í vinnu sem var ekki komið með kennitölu“.

Beið eftir frétt um að allt væri í lagiKristófer Oliversson, framkvæmdarstjóri CenterHotels keðjunnar, segist hafa verið sár yfir því að Stundin hafi ekki flutt frétt um að allt hafi verið í himnalagi eftir heimsókn blaðamanns með eftirlitsfulltrúum verkalýðsfélaganna. Raunin er sú að blaðamaður varð vitni af vanvirtum öryggisreglum og að starfsmaður undirverktaka sagðist ekki fá launaseðla afhenda eða yfirvinnu eða frí greidd.

Þegar Stundin hafði aftur samband við Kristófer út af handtökunni 21. janúar ásakaði hann blaðamann um að bera fyrirtæki sínu illan hug með fréttaflutningi og nafngreiningu hótelkeðju sinnar. Hann sagðist meðal annars hafa beðið ólmur eftir fréttum af því að allt hafi verið með felldu. „Ég las Stundina nokkra daga eftir það og var að bíða eftir frétt um að ekkert væri að hjá okkur, en hún kom ekki,“ sagði Kristófer. Eins og kemur fram hér að ofan fundust vankanntar í báðum heimsóknunum.

Kristófer þvertók fyrir að CenterHotels eða verktakar þess hefðu gert neitt af sér, og að þeir fylgdust vel með því hverjir væru á vinnustaðnum á hverri stundu. Sökina leggur hann að fullu á herðar Þjóðskrár sem samþykkti fölsuð skilríki þeirra. „Ég bíð spenntur eftir því að heyra hvað Þjóðskrá segist ætla að gera í þessu.“ Kristófer taldi að Þjóðskrá þyrfti fleiri túlka  „svo hægt sé að yfirheyra menn um staðhætti og annað slíkt svo fyrirbyggja megi að maður geti komið utan Evrópusambandsins og falsað sig inn.“

„Ég bíð spenntur eftir því að heyra hvað Þjóðskrá segist ætla að gera“

Áttmenningarnir voru leystir úr haldi eftir yfirheyrslu lögreglu. Málið er enn í rannsókn og er komið á borð Útlendingastofnunar. Enn sem komið er hafa engir aðrir en þessir áttmenningar stöðu grunaðs.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Réttindabrot á vinnumarkaði

Starfsfólk launalaust fjórum mánuðum eftir gjaldþrot Sternu
ÚttektRéttindabrot á vinnumarkaði

Starfs­fólk launa­laust fjór­um mán­uð­um eft­ir gjald­þrot Sternu

Ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tæk­ið Sterna var sett í gjald­þrot í mars og starfs­fólk­inu sagt upp, en síð­an var gjald­þrot­ið dreg­ið til baka. Fjór­um mán­uð­um síð­ar hafa fjöl­marg­ir ekki enn feng­ið laun eða upp­sagn­ar­frest borg­að­an frá fyr­ir­tæk­inu. Starf­andi fram­kvæmda­stjóri neit­ar því ekki að fyr­ir­tæk­ið sé hugs­an­lega að skipta um kenni­tölu.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu