Ég er hamingjusöm þegar ég horfi á börnin mín, þegar maðurinn minn heldur utan um mig og játar mér ást sína, þegar ég á góða stund með fjölskyldu minni og nánum vinum, þegar ég geng um fallegt umhverfi í góðu veðri, þegar ég fæ hláturskast, þegar ég borða góðan mat sem hefur verið eldaður fyrir mig eða á veitingahúsi, þegar ég held vel heppnað matarboð, þegar ég og sex ára dóttir mín eigum gæðastund. Þetta er það fyrsta sem kemur í hugann þegar ég spyr sjálfa mig hvað veitir mér hamingju og hvenær mér líður vel.
Að fá barnið sitt í fangið að lokinni fæðingu er örugglega einhver mesta hamingjusprengja sem maður upplifir og ég held að margar konur myndu eflaust taka undir þetta með mér. Ég eignaðist mitt annað barn með manninum mínum, Braga Þór Hinrikssyni, í upphafi árs og eftir yndislega upplifun við fæðinguna, sem gekk eins og í sögu, hafa dagarnir á eftir verið eins og á skýi bókstaflega. Maður stendur sjálfan sig að því að stara á þetta undraverk sem kom í þennan heim eftir níu mánaða óþreyjufulla bið. Þrátt fyrir að foreldrarnir séu svefnvana og uppgefnir er hamingjuástandið á heimilinu slíkt að það sprengir alla skala.
„Þrátt fyrir að foreldrarnir séu svefnvana og uppgefnir er hamingjuástandið á heimilinu slíkt að það sprengir alla skala“
Þessi tegund hamingju er klárlega ástand sem varir tímabundið og svo tekur hversdagsleikinn við með sínum upp- og niðursveiflum eins og vitað er. En hvað er almenn hamingja og hvernig þekkjum við hana? Getur verið að hún sé oft alltumlykjandi í lífi okkar án þess að við þekkjum hana eða gerum okkur grein fyrir því? Okkur hættir oft til að einblína á það þegar okkur líður illa en halda bara áfram eins og bíll á fullri ferð þegar okkur líður vel og ekkert er að plaga okkur. „Hamingjan er merkingarlaust hugtak af því við getum ekki mælt hana en það er hægt að mæla lífsfyllingu út frá því hvernig fólk metur líf sitt og upplifir það.“ Þetta segir Dan Buettner, bandarískur metsöluhöfundur, sem skrifað hefur fjölmargar bækur um lífshætti langlífustu þjóða heims, The Blue Zones eða Bláu svæðanna. Fimm þjóðir eru skilgreindar þær langlífustu í heimi, gríska eyjan Íkaría, ítalska eyjan Sardinía, japanska eyjan Okinawa, Nicoya-héraðið í Kosta Ríka og Loma Linda í Kaliforníu.
Að þekkja tilgang sinn
Ég var svo heppin að fá að heimsækja Íkaríu, Sardiníu og Loma Linda og gera sjónvarpsþættina Lifum lengur um langlífi þessara þjóða ásamt manninum mínum. Sú upplifun var mögnuð og hefur mín sýn á lífið gerbreyst eftir þessar heimsóknir. Vísindamenn hafa rannsakað langlífi þessara þjóða og þeir segja langlífið ekki eiga sér eina skýringu eins og margir myndu halda. Ég var spenntust fyrir því að vita hvað og hvernig fólk borðaði til að verða langlíft en mataræði er bara einn þáttur af níu atriðum sem talin eru skýra langlífi. Það snýst allt um jafnvægi á þáttum eins og náttúrulegri hreyfingu, bauna-og grænmetisfæði, að hafa ríkan tilgang, tilheyra trúarsamfélagi, sterkum félagslegum tengslum þar sem fjölskyldan er í fyrsta sæti, hófsemi í víndrykkju og áti og síðast en ekki síst að lifa streitulausu lífi. Þessi lífsstíll skapar líka hamingju og lífsfyllingu samkvæmt rannsóknum. Á Íkaríu og Sardiníu var merkilegt að sjá hvað fjölskyldan og félagsleg tengsl skipta miklu máli. Allar kynslóðir koma saman á skemmtanir og viðburði og þeim elstu og yngstu er ekki ýtt út í kuldann eða haldið frá, þar eru allir saman og engin kynslóðabil eru til staðar. Það er skömm að því að setja foreldra sína á elliheimili og því fá þeir elstu að búa heima hjá börnunum sínum. Það þarf vart að spyrja sig hvort gefur fólki meira að tilheyra fjölskyldu eða vera látinn dúsa einn inni á stofnun og hitta ekki sína nánustu nema jafnvel einu sinni í viku.
„Mataræði er bara einn þáttur af níu atriðum sem talin eru skýra langlífi“
Dan Buettner hefur skrifað um hamingju íbúa á Bláu svæðunum og hann talar um nokkur atriði sem hamingjusamt fólk tileinkar sér í lífinu. Í fyrsta lagi telur hann mikilvægt að vera sem mest í kringum jákvætt fólk, góður svefn og heilsa skipta einnig lykilmáli. Til að vera hamingjusamur þurfi maður að þekkja tilgang sinn í lífinu. Að velja sér starf í samræmi við ástríðu og áhuga en ekki eingöngu út frá launum skiptir líka máli fyrir almenna ánægju og hamingju fólks. Síðast en ekki síst, og Dan Buettner telur þetta eitt mikilvægasta atriðið þegar hugað er að hamingjunni, það er búseta fólks Sérstaklega þar sem umhverfið hvetur fólk til útiveru, eðlilegrar hreyfingar og jákvæðra samskipta við fólk.
Samfélag sem stendur saman
Þegar ég var að gera sjónvarpsþátt um langlífi á Íslandi auðnaðist mér að hitta Stefán Þorleifsson í Neskaupstað sem var nýorðinn 103 ára þegar ég ræddi við hann í fyrra. Það fyrsta sem hann sagði til skýringar á sínu langlífi var að búa í góðu samfélagi sem stóð saman þegar á reyndi, þar sem fólki liði vel og væri í miklum og góðum samskiptum. Alla tíð hefur hann búið í Neskaupstað, þar sem stuttar vegalengdir eru á milli staða og stór hluti af hans nánustu fjölskyldu býr. Alla daga hittir hann fjölskyldu sína, börn, barnabörn og barnabarnabörn. Að vera umvafinn fjölskyldu sinni alla daga, sem býr í stuttri fjarlægð við mann, er klárlega eitthvað sem við vanmetum oft, áhrifin af því eru talin ómetanleg fyrir hamingju okkar og vellíðan samkvæmt rannsóknum.
„Að hringja, bjóða heim, hvetja til samskipta og sýna stuðning þegar á þarf að halda og þá er hann yfirleitt endurgoldinn“
Ég fann það best sjálf daginn sem ég átti drenginn minn í byrjun árs að okkar nánasta fjölskylda og tengdafjölskylda voru heima hjá okkur að hjálpa til við undirbúning og komu barnsins. Þegar ég þurfti að fara á fæðingardeildina síðdegis var ég kysst og umvafin kærleika frá mínum nánustu og fann að það yljaði mér svo innilega um hjartarætur áður en átökin hófust. Ég hugsaði með mér hvað ég væri heppin að eiga svona góða að en það eru ekkert endilega allir svo heppnir að eiga fjölskyldu til að halla sér að og fjölskyldusambönd eru mismunandi. Þá er gott og sterkt vinanet jafn mikilvægt og undir manni sjálfum komið að rækta tengslin við vinina. Maður þarf að skapa sína eigin hamingju og sýna frumkvæði í þeim efnum, sagði sérfræðingur í jákvæðri sálfræði við mig í viðtali. Að hringja, bjóða heim, hvetja til samskipta og sýna stuðning þegar á þarf að halda og þá er hann yfirleitt endurgoldinn.
Að takast á við erfiðleika
Nú hef ég tekið viðtöl við örugglega tíu einstaklinga sem náð hafa hundrað ára aldri, bæði hér og erlendis. Það sem kynni mín við þetta góða fólk hafa kennt mér er að það er mikilvægt að geta tekist á við erfiðleika og láta þá ekki skilja eftir beiskju og reiði. Rannsóknir sýna að hamingju sé oft hægt að mæla á því hvernig fólk tekst á við erfiðleika. Þetta fólk sem lifað hefur hvað lengst hefur misst marga nákomna, systkini sín, maka og sumir jafnvel börnin sín en það hefur náð að lyfta sér yfir áföllin og erfiðleikana og ákveðið að halda áfram með lífsgleðina að vopni. Það er ótrúlegt að segja það en þetta einkenndi alla þá tíræðu einstaklinga sem ég ræddi við. Hundrað ára kona sagði við mig við vinnslu þáttanna: „Ég hef upplifað margt en ég hef alltaf náð að tala mig til.“ Það fannst mér endurspegla nákvæmlega það sem við þurfum að gera þegar erfiðleikarnir banka upp á, að geta talað sig til, tekist á við þá og reyna að trúa því, þótt maður sjái varla ljósið við enda ganganna, að ástandið batni fyrr eða síðar. Mín besta vinkona sagði við mig á erfiðum tíma í mínu lífi: „Helga, lífið er ekki línulegt, það tekur breytingum og þitt ástand gerir það líka.“ Það reyni ég að hafa hugfast þegar ég mæti erfiðleikum, en fyrst og fremst skapar maður sína eigin hamingju.
Athugasemdir