Snemma í desember síðastliðnum nefndi eiginkona mín við mig að hún hefði fundið flugmiða á alveg sérdeilis lágu verði fyrir okkur hjón til Póllands. Íslenski veturinn er bæði langur og svartur og eftir jólahátíðarnar tekur grár hversdagsleikinn við. Það var því mjög freistandi að kaupa umrætt flug og eiga nokkra góða daga í febrúarbyrjun til að hlakka til.
En praktíska og leiðinlega hliðin á mér ákvað að þetta væri nú ekki skynsamlegt. Stutt væri í jólin með öllum sínum kostnaði og það væri hreint ekki gáfulegt að eyða peningum í flugfargjald og gistingu fyrir þann tíma. Svo væri að koma þorri á þessum tíma, það væri nú aldeilis uppbrot í gráan hversdaginn!
Um tveimur vikum seinna sátum við hjón í sófanum heima, andlega úrvinda eftir erfiða vinnuviku og undirbúning jólanna. Ég var með símann í höndunum og án þess að geta útskýrt hvernig það gerðist var ég allt í einu búinn að kaupa ferð til útlanda. Reyndar ekki til Póllands í það skiptið heldur til Ungverjalands. Og raunar á heldur hærra verði en hafði staðið til boða hefðum við keypt ferðina til Póllands en samt ekki þannig að öllu munaði.
Í þessa ferð fórum við hjón síðan um liðna helgi og það er skemmst frá því að segja að við komum endurnærð heim. Fyrir ferðina var ákveðið að leggja bann við samræðum um fjölskyldulífið eða vinnuna og stóðst það nokkuð.
Það er ekki sálinni og andlegu hliðinni alltaf fyrir bestu að vera praktísk og leiðinleg. Það er nauðsynlegt að geta staðið skil á sínum skyldum, mikið rétt. En það er líka nauðsynlegt að dansa, leiða þá sem maður elskar í göngutúr, að borða góðan mat, horfa á það sem fallegt er, fara kannski í parísarhjól. Því þannig líður okkur vel.
Athugasemdir