Tómas Guðbjartsson skurðlæknir gagnrýnir að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skuli kalla til tvo sérfræðinga frá Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi til að leysa vanda bráðamóttöku Landspítalans. Bendir hann á að Birgir Jakobsson, aðstoðarmaður ráðherra, sé fyrrverandi forstjóri Karolinska og spyr hvort með þessu sé hann að „kalla vini sína til leiks“ úr sjúkrahúsi þar sem allt logi í deilum.
„Ég fagna því að taka eigi á málefnum bráðamóttöku LSH - enda engin vanþörf á,“ skrifaði Tómas á Facebook í gærkvöldi. „Nýskipaður átakshópur heilbrigðisráðherra - sem á að skila áliti innan fjögurra vikna vekur þó furðu mína. Þarna er reyndar ágætasta fólk, eins og aðstoðarmaður forstjóra og yfirlæknir bráðamóttökunnar. En hvar eru hjúkrunarfræðingar sömu deildar - sem standa öðrum fremur í eldlínunni?“
Eins og Stundin hefur fjallað um rekja margir innan Landspítalans vanda bráðamóttökunnar til skorts á hjúkrunarfræðingum til starfa vegna kjara þeirra og starfsaðstæðna. Ein stærsta ástæða ástandsins er skortur á hjúkrunarfræðingum á legudeildum, sem veldur því að ekki er hægt að flytja sjúklinga af bráðamóttöku á aðrar deildir, og fyrirsjáanlegt er að vandinn aukist á næstu árum þegar umtalsverður hluti hjúkrunarfræðinga kemst á eftirlaunaaldur.
„Ef það er einhver borg á norðurhveli jarðar sem á í vandamálum með bráðamóttökur sínar þá er það Stokkhólmur“
Tómas segir að það veki einnig furðu sína að kallaðir séu til tveir sérfræðingar frá Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Segir hann endalaust gusta um það sjúkrahús. „Eflaust ágætir menn en ef það er einhver borg á norðurhveli jarðar sem á í vandamálum með bráðamóttökur sínar þá er það Stokkhólmur. Þar logar allt í deilum, ekki síst eftir að Karolinska sjúkrahúsið ákvað að loka fyrir stóran hluta af bráðamóttöku sinni. Þetta færði vandann yfir á bráðamóttökur hinna sjúkrahúsanna í Stokkhólmi - með skelfilegum afleiðingum.“
Tómas spyr hverjum það hafi dottið í hug að fá þessa sérfræðinga til verkefnisins. „Getur verið að fyrrum landlæknir og fyrrum forstjóri Karolinska, sem jafnframt ku vera ráðgjafi heilbrigðisráðherra, sé að kalla vini sína til leiks? Þetta er álíka fáránlegt og ef stjórnendur á Landspítala væru beðnir um að koma til Færeyja eða Grænlands og ráðleggja þarlendum stjórnvöldum um uppbyggingu bráðaþjónustu. Því miður feilskot í máli sem þarf að taka mun fastari tökum.“
Vandinn blasir öllum við
Ragnar Freyr Ingvarsson, læknir á Landspítalanum, skrifar athugasemd við færsluna, þar sem hann segist ekki átta sig á því hvernig skurðlæknir og svæfingalæknir, sem eru sérfræðingar í flæði, eigi að geta ráðlagt þeim út úr þessari klemmu, þegar vandinn liggur í lágum launum hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða.
Ragnar átti nýlega í hörðum orðaskiptum við heilbrigðisráðherra á fundi læknaráðs, þar sem hann óskaði eftir tillögum ráðherra að aðgerðum vegna neyðarástands á bráðamóttöku. „Það væri eiginlega brot á læknaeiðnum sem ég sór þegar ég varð læknir að ekki benda á það ástand sem blasir við,“ sagði hann, eftir að Svandís gagnrýndi starfsmenn Landspítalans fyrir að ræða ástandið á Landspítalanum á opinberum vettvangi, með þeim orðum að það væri orðið „töluverð áskorun fyrir ráðherra að standa með Landspítala þegar koma ályktanir á færibandi“.
„Það þarf að greiða hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum betri laun“
Í athugasemd við færslu Tómasar segir Ragnar Freyr: „Ég átta mig ekkert á því hvernig skurðlæknir og svæfingalæknir „sérfræðingar“ í flæði - eiga að geta ráðlagt okkur úr þessari klemmu. Vandinn blasir við öllum sem hann vilja sjá og líka lausnin. Það þarf að greiða hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum betri laun. Þannig getum við opnað fleiri rúm. Ekki nema þeir bendi á þetta - þeir glíma jú við sama vanda.“
Mikilvægt að hafa hjúkrunarfræðinga með í ráðum
Fleiri læknar á Landspítalanum tjá sig um færsluna, þeirra á meðal er Hjalti Már Björnsson, sérfræðingur í bráðalækningum, sem tekur undir mikilvægi þess að hafa hjúkrunarfræðinga með í ráðum. „Sammála því að það sé mikilvægt að hafa hjúkrunarfræðinga með í ráðum, enda er hér í raun eingöngu um vanda sem er til kominn vegna skorts á hjúkrunarfræðingum.
Einnig vil ég benda á að það er í raun ekki rétt að hér sé um að ræða vandamál á bráðamóttökunni. Vandinn liggur í að Landspítali hefur ekki nægilegan fjölda legurýma til að taka við þeim sem þurfa að leggjast inn af bráðamóttökunni. Í stað þess að dreifa þeim sjúklingum jafnt á deildir umfram skilgreind pláss hefur hingað til verið tekin ákvörðun um að geyma þá alla á bráðamóttöku.
Það verður að teljast að bráðamóttakan sé vel rekin þegar starfsfólk hennar hefur getað sinnt verkefnum sínum með 30 innlagða sjúklinga á deildinni. Innlagnarvandi legudeilda hefur eitthvað lengt biðtíma eftir þjónustu en þó merkilega lítið, helsta afleiðingin hefur verið að persónuvernd sjúklinga er engan vegin virt, né heldur sýkingarvarnir eða brunavarnir.“
Athugasemdir