Þótt ofanverð 19. öld sé í evrópskri sögu stundum nefnd tími ótæpilegrar siðprýði og kennd við Viktoríu Bretadrottningu, sem þótti einkar siðleg í opinberri framkomu, þá var ekki síður mikil siðprýði viðhöfð á 18. öld.
Að minnsta kosti í sumum fjölskyldum.
Árið 1770 gekk Loðvík Ágúst krónprins Frakka að eiga Maríu Antonettu stórhertogaynju úr Austurríki. Loðvík Ágúst var sonarsonur Loðvíks XV Frakkakóngs og þar eð faðir hans lést ungur varð hann krónprins og væntanlegur arftaki krúnunnar.
María Antonetta var dóttir Maríu Teresu keisaraynju í Austurríki og Frans I keisara.
Brúðhjónin voru ung að árum. Loðvík Ágúst var 15 ára en brúður hans ári yngri.
Ekki var hjónabandið grundvallað á ást heldur var von aðstandenda sú að það gæti treyst í sessi bandalag stórveldanna Frakklands og Austurríkis.

Tala nú ekki um ef þau eignuðust afkomendur sem gætu rakið uppruna sinn til hásæta beggja stórvelda.
En það virtist ekki ætla að gerast.
Árin liðu og ekki gildnaði María Antonetta. Árið 1774 varð Loðvík konungur þegar afi hans dó og María Antonetta þar af leiðandi drottning, en það breytti engu.
Enginn konunglegur barnsgrátur ómaði um ganga hallarinnar í Versölum þar sem franska konungsættin hafði slegið niður tjöldum sínum rúmri öld fyrr.
Frakkar fóru að hafa áhyggjur. Það var alltaf tilefni til að hafa áhyggjur ef konungleg erfðaröð rofnaði með því að konungar eignuðust ekki lögmæta erfingja. Slíkt gæti endað með allskonar óróa, róstum og í versta falli innanlandsófriði og afskiptum erlendis frá.
En hver var orsökin fyrir barnleysinu?
Nú höfðu ungu hjónin vissulega hvort sitt svefnherbergið en menn vissu að Loðvík XVI heimsótti drottningu sína mjög reglulega að næturþeli og að þokkalega fór á með þeim, svo ekki skorti konunglegar samfarir.
Það bara varð engin útkoma úr þeim.
Var allt í lagi með þau?
Ekki bar á öðru. Sögur gengu seinna um einhver forhúðarvandamál konungs sem kæmu í veg fyrir fullkomnar samfarir hjónanna, en það er bara kjaftasaga. Loðvík kóngur var í alla staði eðlilega vaxinn niður og reis hold á við hvern sem er.
Og sköpulag Maríu Antonettu mun líka hafa verið til fyrirmyndar.
En hver var þá ástæðan fyrir barnleysi þeirra? Var það bara einn af duttlungum náttúrunnar sem menn kunnu engar skýringar á í þá daga?
Siðprýðin fyrrnefnda kom nú til sögunnar. Í siðprúðum félagsskap var ekki rætt um kynlíf og allra síst konunglegt kynlíf. Því fóru allar umræður um þetta vaxandi vandamál fram á kjánalegu rósamáli og einkenndust af næstum fáránlegri vanþekkingu jafnvel þessa fína fólks á ýmsum staðreyndum lífsins.
Þegar sjö ár voru liðin frá brúðkaupi Loðvíks og Maríu Antonettu bar óvæntan gest að garði. Jósef eldri bróðir Maríu var þá í orði kveðnu orðinn keisari í Austurríki en móðir hans réði þó enn því sem hún vildi ráða. Svo hann hafði tíma til að skreppa til Versala að rabba við systur sína og mág.
Meðal annars og ekki síst um þetta aðkallandi vandamál sem barnleysið var að verða. Og líklega fór hann að undirlagi móður sinnar.

Skemmst er frá því að segja að Jósef gekk í málið í bókstaflegri merkingu. Hann bað um og fékk að vera viðstaddur samfarir Loðvíks og Maríu Antonettu systur sinnar, ef ske kynni að hann sæi eitthvert vandamál.
Og hvort hann gerði.
Jósef skýrði frá niðurstöðu sinni í bréfi sem hann skrifaði heim. Og þar talaði hann enga tæpitungu, né rósamál.
Loðvík mætti til konu sinnar, honum reis hold á eðlilegan hátt og þótt hjónin færu furðulega klunnalega að, fannst Jósef, þá náði Loðvík að koma sér fyrir í skauti konu sinnar.
En þá kom babb í bátinn.
Frakkakóngur vissi greinilega ekki að HANN ÁTTI AÐ HREYFA SIG.
Það sem verra var, María Antonetta vissi það greinilega ekki heldur.
Svona þarna lágu þau bæði kyrrlát, hljóð og áhugalaus í einhverjar tvær þrjár mínútur, þangað til Loðvík taldi sig hafa gegnt skyldu sinni og hvarf á braut.
Siðprýðin í uppeldi þeirra beggja var sem sé svo taumlaus að þau vissu hreinlega ekki hvernig átti að fara að.
Og þeim datt bara ekkert í hug.
Málið var auðleyst að mati Jósefs.
Hann kom að máli við mág sinn og stakk upp á að hann prófaði að hreyfa sig svolítið næst.
Bara svona fram og til baka í nokkra stund.
Sjá hvað gerist.
Loðvík konungur féllst á að prófa þetta og rúmum 9 mánuðum seinna fæddist þeim hjónum fyrsta barnið, dóttirin María Teresa.
Nafngiftin var sjálfsagður þakklætisvottur við ömmuna í Austurríki sem líklega hafði sent Jósef son sinn í þessa kynfræðsluför.
Athugasemdir