Þegar Skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar boðaði styttri opnunartíma leikskóla borgarinnar með fremur skömmum fyrirvara létu viðbrögðin ekki á sér standa og úr varð nokkuð snörp rimma sem endaði með því að málinu var vísað til borgarráðs til frekari vinnslu. Það er mjög erfitt að verjast þeirri hugsun að það hefði mátt komast hjá moldviðri síðustu daga ef málið hefði verið betur unnið af Skóla- og frístundaráði og stýrihópi ráðsins um umbætur og skipulag leikskólastarfs.
Tillagan um styttingu opnunartímans var afurð vinnu stýrihóps um umbætur og skipulag leikskólastarfs og var birt í áfangaskýrslu hópsins frá því í desember í fyrra. Ég sótti skýrsluna á vef Reykjavíkurborgar þar sem mér þótti rökin sem komu fram málinu til stuðnings fremur óljós en þóttist vita að tillagan væri undirbyggð í skýrslunni. Hafði hugsað mér að lesa hana eftir að börnin væru sofnuð en hafði helst áhyggjur af því að orka dagsins entist ekki til að klára hana á einni kvöldstund. Þær áhyggjur reyndust óþarfar. Skýrslan er ekki nema átta síður, þar af ein þeirra hálf. Fyrstu þrjár síðurnar voru líka fljótlesnar; forsíða, efnisyfirlit og upplýsingar um skipan stýrihópsins. Sumsé, fjórar og hálf síða af upplýsingum um viðfangsefnið til að komast í gegnum. Það var heldur ekki verið að íþyngja lesendum með heimildaskrá þrátt fyrir að skýrslan innihéldi fullyrðingar sem verða þar af leiðandi að teljast órökstuddar.
Óformleg skýrsla
Það er ekkert sjálfgefið að lengd skýrslu segi til um gæði hennar. Lykilatriðið er að hún sé upplýsandi um forsendur ákvörðunartökunnar sem leiðir af henni. Áfangaskýrslan er það ekki. Það fyrsta sem ég hnaut um var að stýrihópurinn gerði „óformlega könnun“ á opnunartíma leikskóla í öðrum sveitarfélögum. Það er ekki ljóst hvað „óformleg könnun“ þýðir í þessu samhengi enda engar frekari upplýsingar í skýrslunni um framkvæmdina. Orðalagið „óformleg könnun“ er ekki traustvekjandi en kannski eru upplýsingarnar traustar. Erfitt að segja án upplýsinga um framkvæmdina.
Það truflar mig þó ögn meira að opnunartímar í öðrum sveitarfélögum séu álitin haldgóð rök í málinu. Þau okkar sem hafa alið upp barn kannast við rökin „… en allir vinir mínir gera þetta“ sem flest okkar taka sjaldnast alvarlega og réttilega svo. Þetta er rökvillan „argumentum ad populum“ sem felur í sér fullyrðingu um að eitthvað sé satt eða gott af því aðrir gera það eða sjá það þannig. Það að aðrir geri eitthvað, jafnvel að meirihlutinn geri eitthvað, gerir það ekki gott í sjálfu sér því þessir aðrir gætu verið að gera mistök eða að aðstæður séu þannig að fyrirkomulagið henti þeim sem þýðir þó ekki endilega að það henti öllum.
Þröngt sjónarhorn
Það næsta sem ég hnaut um var fullyrðingin „Mikilvægt er að samræmi sé í opnunartímum leikskólanna til þess að tryggja samræmi í þjónustu við börn og foreldra auk þess að jafnræðis sé gætt á milli starfseininga.“ Ég held ég skilji sjónarmiðið á bakvið fullyrðinguna og tel það gott og gilt. Það sem truflar mig er að það eru fleiri fullkomlega réttmæt sjónarmið möguleg sem leiða að annarri niðurstöðu, svo sem að það sé æskilegt að einhverjir leikskólar borgarinnar séu með opnunartíma sem henti börnum vaktavinnufólks sem geti þannig fengið meiri tíma með foreldrum sínum. Samkvæmt tölum Eurostat var rúmur fimmtungur starfandi fólks á Íslandi á aldrinum 20–49 ára í vaktavinnu. Hlutfallið hefur líka vaxið frá 2008 þegar það var 16,5%. Þetta er umtalsverður og vaxandi hópur og ef Skóla- og frístundaráði er alvara með því að auka samveru leikskólabarna og foreldra þá er full ástæða til að koma til móts við þessi börn og fjölskyldur þeirra.
Lítt upplýsandi greiningar
Hryggjarstykkið í áfangaskýrslunni er svo greiningin á nýtingu leikskólapláss í byrjun og lok dagsins. Til grundvallar liggja gögn um inn- og útskráningar úr upplýsingakerfum borgarinnar fyrir eina viku, 14.–18. október. Fyrsta spurningin sem vaknar: Hvers vegna var aðeins notast við upplýsingar fyrir þessa einu viku? Þetta er ákaflega stutt tímabil og líkur á skekkjum fyrir vikið umtalsverðar og ef upplýsingarnar liggja fyrir í upplýsingakerfi borgarinnar ætti stýrihópnum að vera hægt um vik að fá upplýsingar um lengra tímabil.
Ég velti líka fyrir mér áreiðanleika og réttmæti gagnanna. Öll gögn hafa vissa annmarka og skráargögn þar með talin. Ýmsar villur geta slæðst inn í gögnin, svo sem að skráningar sé færðar inn eftir á eftir minni eða grófri áætlun. Slíkar villur eiga sé eðlilegar skýringar, sérstaklega ef starfsfólk er önnum kafið við annað á tímum þegar skráningar eiga að fara fram. Það verður ekki ráðið af áfangaskýrslunni að það hafi verið reynt að leggja mat á mögulegar villur eða skekkjur í þessum gögnum.
Í skýrslunni er því haldið fram að í vikunni sem var til skoðunar hafi 937 börn haft dvalarsamning til 16:30 eða síðar. Þar kemur líka fram að 416 börn hafa dvalartíma til 16:45 og 521 barn til 17:00, samtals 937. Það er því ljóst að fjöldi barna sem er með dvalarsamning til 16:30 eða síðar hlýtur að vera hærri. Líklega er þetta fljótfærnisvilla í textagerð fremur en vísvitandi tilraun til að villa um fyrir lesendum skýrslunnar en engu að síður ekki til marks um að það hafi verið vandað til verka við gerð áfangaskýrslunnar.
Hvað varðar tölur um nýtingu dvalartíma er framsetning talnanna allt annað en skýr. Í skýrslunni kemur til dæmis fram að af þeim 521 barni sem eru með dvalartíma til 17:00 eru 51% sótt fyrir 16:30. Það virðist vera um að ræða meðalprósentu yfir vikuna, það er að á hverjum degi eru að jafnaði 51% sótt fyrir 16:30 (suma daga hærra, aðra lægra). Í skýrslunni er ekki lagt neitt út af þessum tölum, sem væri eðlilegt að gera til að undirbyggja tillögurnar, en í umræðunni í kjölfar tillögunnar hefur þessi og aðrar sambærilegar tölur verið notaðar til að gefa til kynna að fólk hafi ekki þörf fyrir vistun á þessum tíma. Skýrsluhöfundar geta auðvitað ekki borið ábyrgð á því hvernig efni skýrslunnar er túlkað í umræðunni (nema sínu eigin framlagi í þá umræðu) en betri skýrsla hefði hins vegar getað stuðlað að upplýstari umræðu. Í því samhengi hefði verið gagnlegt ef tölurnar takmörkuðust ekki bara við meðalnýtingu dvalartíma í upphafi og lok dags heldur hefði einnig verið horft til uppsafnaðs hlutfalls yfir vikuna enda má ætla að það sé nokkuð hærra og jafnvel enn hærra ef viðmiðunartíminn hefði verið lengri en vika.
Hvar eru foreldrarnir?
Jafnvel þótt fólk sé ekki að fullnýta dvalartímann eftir 16:30 segir það ákaflega lítið um þörfina. Sumir foreldrar þurfa dvalartíma eftir 16:30 fyrir hluta vikunnar. Aðrir þurfa að eiga kost á slíkum dvalartíma vegna tilfallandi aðstæðna í vinnu eða einkalífi. Það er hins vegar ekki í boði að hafa breytilegan dvalartíma eftir dögum og þá er eini kosturinn að skrá dvalartíma til 17:00 en sækja börnin fyrr þega aðstæður leyfa. Þörfin er engu að síður til staðar en til að mæta henni þarf fólk að greiða fyrir dvalartíma þá daga sem það þarf hann ekki.
„Það virðist ekki hafa hvarflað að stýrihópnum að sjónarmið foreldra skiptu máli þegar kemur að umbótum á leikskólastarfi í Reykjavík.“
Þetta leiðir okkur að síðasta annmarka skýrslunnar, að það er ekki að sjá að það hafi verið leitað eftir upplýsingum um aðstæður og þarfir foreldra leikskólabarna. Þó hefði það verið hægðarleikur að fá fagfólk til að hanna góða könnun og senda hana til foreldra í tölvupósti. Það virðist ekki hafa hvarflað að stýrihópnum að sjónarmið foreldra skiptu máli þegar kemur að umbótum á leikskólastarfi í Reykjavík. Það sést meðal annars á því að stýrihópinn skipa þrír kjörnir fulltrúar og þeim til halds og trausts voru þrír leikskólastjórar, einn leikskólakennari og einn embættismaður borgarinnar með langan starfsaldur að baki í leikskólamálum.
Það er ekkert út á þetta fólk að setja. Vandamálið er frekar að það er áberandi skortur á fulltrúum annarra haghafa, svo sem foreldra, sem skýrir væntanlega að einhverju leyti af hverju það virðist ekki hafa hvarflað að stýrihópnum að leita eftir sjónarmiðum þeirra. Vafalítið tilheyra einhver þeirra sem sátu í stýrihópnum eða störfuðu með honum hópi leikskólaforeldra og töldu sig þar með geta verið fulltrúar þeirra. Ef svo, þá virðist það ekki hafa gengið neitt sérstaklega vel af niðurstöðunni að dæma. Borgarráð mun þó bæta úr þessum annmarka og setja tillöguna í jafnréttismat, ræða við foreldra sem eiga börn með vistunartíma eftir klukkan 16:30 og við hagsmunasamtök foreldra. Það er vel en það hefði hins vegar verið öllu betra ef það hefði verið vandað betur til verksins í upphafi. Við hefðum líklega fengið betri og betur undirbyggðar tillögur.
Gögn, samráð og vönduð vinnubrögð
Skýrsla stýrihópsins er afurð vinnu hópsins. Þar af leiðandi má gefa sér að hún endurspegli vinnu hans. Sem slík bendir skýrslan til að þeirri vinnu hafi verið ábótavant. Sjónarhornið af þröngt, upplýsingarnar sem var horft til of takmarkaðar og úrvinnsla þeirra upplýsinga sem þó var horft til ófullnægjandi.
„Á undanförnum árum hafa orðið miklar framfarir í hagnýtingu gagna og upplýsinga við opinbera stefnumótun“
Á undanförnum árum hafa orðið miklar framfarir í hagnýtingu gagna og upplýsinga við opinbera stefnumótun í ýmsum málaflokkum hjá bæði ríki og sveitarfélögum. Hagnýting gagna gerir okkur kleift að kortleggja stöðuna í tilteknum málaflokkum og meta áhrif breytinga og undirbyggja þannig stefnumótun og ákvarðanir. Hún gerir valdhöfum líka kleift að leggja forsendur ákvarðana á borðið fyrir kjósendur svo þeir geti mótað sér afstöðu til þeirra. Hagnýting gagna snýst hins vegar ekki um að velja af hentisemi gögn og framsetningu. Ef vel á að vera þarf að draga fram bæði kosti og galla ólíkra lausna og svo getur stjórnmálafólk og almenningur myndað sér afstöðu með því að vega og meta mismunandi kosti og galla. Í sambland við virkt samráð við alla helstu haghafa og vönduð vinnubrögð getur hagnýting gagna leitt til betri ákvarðanatöku og uppbyggilegri umræðu en þá sem Skóla- og frístundasvið bauð okkur upp á.
Athugasemdir