Þegar ég var átján ára varð ég ólétt og tók ákvörðun um að leyfa fóstrinu að vaxa í barn. Ég var ótrúlega ung og vissi ekki hver ég var, ég vissi ekki hvert ég ætlaði að fara og ég vissi ekki hvert ég myndi þora að fara.
Það voru allir að reyna að taka ákvörðun fyrir mig og eftir mikla pressu úr öllum áttum, um að fara annaðhvort í fóstureyðingu eða ekki, þá ákvað ég sjálf að þetta fóstur yrði að barni. Núna er Brynhildur að byrja í skóla í haust. Þessi ákvörðun færði mér ábyrgðarhlutverk sem ég átti ekki séns í á sínum tíma, en ég tók því og gerði eins vel og ég mögulega gat, og er enn að því.
Vegna þess hversu ung ég var þá hefur dóttir mín fengið mjög frjálslegt uppeldi. Það gerir það að verkum að hún nær einhvern veginn að vera fullkomlega hún. Hún veit hvað hún vill og hvenær hún vill það, sem er ótrúlega skemmtilegt. En þetta er eitthvað sem fólk af eldri kynslóðum tekur ekki vel í og finnst ekki sniðugt að það sé lítið af reglum, en ég fæ allavega að sjá hamingjusamt barn sem veit hvað það vill, sem er ótrúlega gaman.
Athugasemdir