Þegar 20. öldin var hálfnuð 1950 voru þrjú ár liðin frá sjálfstæðistöku Indverja 1947 og eitt ár frá valdatöku kommúnista í Kína 1949. Röskur þriðjungur íbúafjölda heimsins bjó þá sem nú í þessum tveim löndum og þau voru meðal hinna allra fátækustu. Tíu árum síðar, 1960, var Kína ennþá næstfátækasta land heims mælt í landsframleiðslu á mann; enn snauðara var aðeins fólkið í Búrmu sem heitir nú Mjanmar. Indland skipaði níunda sæti listans. Auk Búrmu og Kína voru með öðrum orðum bara sex önnur lönd fátækari en Indland: Búrúndí, Malaví og Efri Volta, sem heitir nú Búrkína Fasó, og Lesótó í Afríku og einnig Asíulöndin Nepal og Vestur-Pakistan, sem heitir nú bara Pakistan. Tölurnar eru frá Alþjóðabankanum. Örbirgðin í öllum þessum löndum var þyngri en tárum tæki. Allur þorri fólksins þar fór alls á mis.
Risarnir eru vaknaðir
Síðan eru liðin 60 ár. Kínverjar sneru baki við áætlunarbúskap 1978 og hófu blandaðan markaðsbúskap. Þetta gerðist eftir að arftaki Maós formanns, Deng Xiaoping, heimsótti Singapúr í fyrsta sinn og sá þá með eigin augum hverju Kínverjar gátu áorkað við réttar aðstæður. Hann hafði aldrei komið til Hong Kong. Indverjar tóku einnig upp blandaðan markaðsbúskap í stað miðstýringar 13 árum síðar, 1991. Efnahagslífið tók kipp í báðum löndum sem eru nú bæði tvö komin upp í miðjar hlíðar í lífskjarasamanburði við önnur lönd.
Indland hefur að vísu vaxið mun hægar en Kína og er nú tæplega hálfdrættingur á við Kína mælt í kaupmætti þjóðartekna á mann. Sumir kenna því um að Indland er lýðræðisríki og hefur aldrei hvikað af þeirri braut nema þegar Indira Gandí forsætisráðherra lýsti yfir neyðarástandi 1975–1977. Indland getur því ekki farið eins geyst og Kínverjar, segja sumir, og getur ekki heldur hamlað fólksfjölgun með áþekkri harðýðgi og Kínverjar hafa beitt. Enda er mannfjöldi Indlands í þann veginn að sigla fram úr Kína.
Sumir kenna því um að Indland er lýðræðisríki
Þessi skýring hrekkur þó skammt eins og ráða má af því að Pakistan og Bangladess, sem voru hlutar Indlands fram að sjálfstæðistökunni 1947 (Indland var þá fjölmennara en Kína!), hafa síðan þá búið við harðsvírað einræði annað veifið. Ekki örvaði harðstjórnin hagvöxtinn þar, öðru nær. Bangladess er nú hálfdrættingur á við Indland mælt í kaupmætti þjóðartekna á mann og Pakistan er miðja vegu milli Indlands og Bangladess á þennan kvarða. Hitt virðist sönnu nær að Kína hefur vaxið hratt þrátt fyrir einræðisskipulagið. Kínverjar hljóta áður en langt um líður að þurfa að velja á milli áframhaldandi hagvaxtar og harðstjórnar því hvort tveggja getur varla staðið þeim til boða árekstralaust miklu lengur. Reynslan mun skera úr því.
Um framför Indlands og Kína er hægt að hafa ýmislegt til marks umfram þá grósku í efnahagslífi sem augað greinir á vettvangi. Meðalævi Indverja lengdist úr 35 árum 1950 í 69 ár 2018. Meðalævi Kínverja lengdist á sama tíma úr 43 árum í tæp 77 ár. Þetta þýðir að meðalævin hefur í báðum löndum lengzt um sex mánuði á hverju ári að jafnaði síðastliðin 68 ár. Indverjar lifa nú á heildina litið jafnlengi og Íslendingar gerðu 1950 og Kínverjar lifa nú jafnlengi og Íslendingar gerðu 1980. Hundruðum milljóna þar austur frá hefur í krafti hagkvæmari búskaparhátta tekizt að varpa af sér oki allsleysis og skammlífis.
Forsagan skiptir máli. Kína var jafnoki Evrópu í efnahagslegu tilliti um 1400. Keisaradæmið fór óhyggilega að ráði sínu eftir það, einkum með því að loka landinu fyrir erlendum viðskiptum. Einangrun frá umheiminum kallaði afturför og fátækt yfir Kína. Keisararnir báru höfuðábyrgð á ófremdinni með lítils háttar hjálp frá Bretum, eða réttar sagt brezka Austur-Indíafélaginu, í tveim ópíumstyrjöldum 1839–1842 og 1856–1860. Kína hélt óskoruðu sjálfstæði og var aldrei nýlenda erlends ríkis, en það mátti gilda einu í hugum fólksins hvort fátæktin var heimatilbúin eða innflutt. Öðru máli gegndi um Indland því það var brezka Austur-Indíafélagið sem réðst þangað inn um 1700 og keyrði landið í kaf með svívirðilegri harðýðgi sem Indverjar þekkja vel en Bretar vilja sjálfir ekki enn kannast við svo sem marka má af kennslubókum handa brezkum börnum og unglingum.
Viðskilnaður Breta við Indland
Þegar brezka Austur-Indíafélagið hélt innreið sína í Indland um 1700 var Indland eitt ríkasta land heims í þeim skilningi að landsframleiðsla Indverja nam þá um fjórðungi af samanlagðri framleiðslu heimsins alls. Indverjar voru í fremstu röð iðnríkja sem voru þá að vaxa úr grasi. Útflutningsvörur Indverja voru eftirsóttar um allan heim, ekki bara vefnaðarvörur og silki, postulínsgripir og demantar, heldur einnig krydd og te og stál og skip, sem voru svo vel byggð úr svo traustum viði að þau entust að jafnaði þrisvar sinnum lengur en evrópsk skip.
„Indverjar voru í fremstu röð iðnríkja sem voru þá að vaxa úr grasi.“
Allt þetta og meira eyðilagði Austur-Indíafélagið sem var í fyrstunni einkafyrirtæki og starfaði síðar í umboði brezku krúnunnar. Margir helztu virðingarmenn Breta, þar á meðal þingmenn, voru hluthafar í Austur-Indíafélaginu og höfðu því beinan ávinning af ósvinnu félagsins á Indlandi. Við hneykslumst að réttu lagi á framferði Belga í Kongó þar sem þeir hjuggu hendurnar af varnarlausum heimamönnum auk annars. Bretar voru litlu skárri. Þeir brutu ekki bara vefstóla Indverja í mask heldur brutu þeir einnig þumalfingurna á sumum vefurunum til að tryggja að þeir fyndu sér ekki nýja vefstóla. Bretar lögðu ofurtolla á þann vefnað heimamanna sem stóð þessar hörmungar af sér og lögðu með því móti grunninn að brezkum vefnaðariðnaði.
Annað var eftir þessu. Bretar stálu vöggu iðnbyltingarinnar frá Indverjum. Með öðrum orðum: iðnvæðing Bretlands var öðrum þræði reist á gereyðingu indversks iðnaðar. Þegar Bretar fóru loksins frá Indlandi 1947 eftir 250 ára vist í óþökk flestra heimamanna hafði þeim tekizt að berja hlutdeild Indlands í útflutningi iðnvarnings í heiminum öllum úr 27 prósentum niður í tvö prósent og hlutdeild Indlands í samanlagðri framleiðslu heimsins úr fjórðungi niður í þrjú prósent. Ekki bara það: Bretar skattpíndu Indverja og stálu öllu steini léttara í þokkabót. Þannig reis upp stétt nýríkra Breta sem notuðu þýfi frá Indlandi til að kaupa sér jarðir, hús og hallir á Bretlandi – og þingsæti! Bretar lögðu járnbrautir um Indland til að flytja þýfi á skip, ekki til að bæta hag heimamanna. Enska orðið yfir þýfi – loot – er tökuorð úr hindi, aðalmáli Indverja.
Hungursneyðir af beinum völdum Breta, meðal annars vegna skattpíningar bænda, kostuðu 15–30 milljónir Indverja lífið þessi 250 ár. Alræmd er hungursneyðin í Bengal 1943 sem kostaði fjórar milljónir mannslífa og stafaði beinlínis af því að Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands, fyrirskipaði að matvæli sveltandi Bengala væru flutt í birgðageymslur hersins. Hann lét viðvaranir um yfirvofandi mannfall sem vind um eyru þjóta. Öllu þessu og meiru er lýst í bók indverska þingmannsins Sashi Tharoor, Inglorious Empire: What the British Did to India (2017).
Arfleifð í uppnámi
Það tók Indland langan tíma að ná áttum að lokinni 250 ára undirokun af hálfu Breta, undirokun sem helgaðist af kynþáttafordómum og var knúin áfram með ofbeldi. Frelsishetjan Mahatma Gandí og helztu samherjar hans, þar á meðal Jawaharlal Nehru, fyrsti forsætisráðherra Indlands, neyddust eftir sjálfstæðistökuna til að fallast á klofning landsins í tvennt þar eð Múhameð Alí Jinnah, leiðtogi múslíma, krafðist þess að múslímar fengju að stofna eigið ríki, Pakistan. Klofningurinn kostaði borgarastríð þar sem ein til tvær milljónir manna týndu lífi og 10–12 milljónir þurftu að flýja heimili sín vegna trúarofsókna. Pakistan klofnaði aldarfjórðungi síðar í tvö sjálfstæð ríki, Pakistan í vestri og Bangladess í austri. Pakistan var og er trúarlegt ríki múslíma ólíkt Indlandi, sem er veraldlegt ríki þar sem öll trúarbrögð sitja við sama borð samkvæmt stjórnarskrá landsins frá 1950. Þessi grundvallarmunur á ríkjunum tveim lýsir Gandí og hans mönnum vel. Það lýsir þeim einnig vel að þeir gerðu Babasaheb Ambedkar, sem kom úr hópi hinna ósnertanlegu og mátti sæta hraksmánarlegri mismunun alla ævi, að fyrsta dómsmálaráðherra landsins og fólu honum forustu um að semja lýðræðislega stjórnarskrá sem þingið staðfesti þrem árum eftir sjálfstæðistökuna. Þannig varð Indland, eitt örfárra nýrra þjóðríkja að lokinni síðari heimsstyrjöldinni, óskorað lýðræðisríki og er það enn og hefur tekið gríðarlegum framförum, einkum eftir 1991, þótt landið byggi margar þjóðir með fjölbreytta menningu og mörg tungumál.
En nú gefur á bátinn. Ný ríkisstjórn þjóðernissinna undir forsæti Narenda Modi, sem tók við stjórn landsins 2014 og náði endurkjöri fyrir skömmu, ógnar arfleifð Gandís og félaga með því að upphefja hindúa, meiri hluta landsmanna, og ógna stærsta minni hlutanum, múslímum, sem eru 200 milljónir talsins eða sjöttungur íbúafjöldans. Einn munurinn á Indlandi og Pakistan við skiptingu landsins 1947 og æ síðan er að 97 prósent af íbúum Pakistans eru múslímar en 80 prósent af íbúum Indlands eru hindúar. Pakistan er því miklu einsleitara land en Indland. Farið til Pakistan! er nú hrópað að múslímum um allt Indland, fólki sem hefur búið á Indlandi mann fram af manni og þekkir enga aðra átthaga. Stjórnarstefna Modis og manna hans virðist miða að því að steypa Indland í sama mót og Pakistan nema með öfugum formerkjum. Þessi stefna brýtur gegn stjórnarskrá Indlands og einnig gegn mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um jafnræði trúarbragða. Bæði löndin eru kjarnorkuveldi. Þau hafa háð þrjú stríð 1965, 1971 og 1999 með talsverðu mannfalli.
Þegar mannréttindi eiga undir högg að sækja í langfjölmennasta lýðræðisríki heims og lýðræðisskipanin stendur frammi fyrir nýjum ógnum í æ fleiri löndum, jafnvel þar sem sízt skyldi, þarf heimsbyggðin að hugsa sinn gang og taka sér tak.
Athugasemdir