Í fyrsta lagi, sem snýr að okkur öllum, þá hefur hagkerfið okkar sýnt merkilega mikla og raunar alveg nýja tegund af seiglu þrátt fyrir fall WOW air, loðnubrest, erfiðleika í alþjóðaviðskiptum og almennt aukinn mótbyr. Reynslan myndi segja að það þýddi gengisfall, verðbólgu, vaxtahækkanir og atvinnuleysi. Staðreyndin er samt sú að gengið hefur haldist merkilega stöðugt, verðbólga er á niðurleið, vextir hafa lækkað og atvinnuleysi hefur aukist minna en kannski margir óttuðust. Þarna er mörgu að þakka en aukin ráðdeild heimila og fyrirtækja í bland við að skytturnar þrjár í hagstjórninni, peningastefnan, vinnumarkaðurinn og ríkisfjármálin, hafa stutt við þessa þróun.
Að þessu sögðu erum við ekki alveg komin í land og atvinnuleysi er enn á uppleið. Þá er dálítið ógnvænlegt að sjá launakostnað hækka áfram umfram framleiðni og spár gera ráð fyrir að svo verði áfram. Eitthvað gæti þurft að láta undan og það þýðir ekki að bíða og vona að það verði ekki kaupmáttur og atvinnuleysi.
„Eitthvað gæti þurft að láta undan og það þýðir ekki að bíða og vona að það verði ekki kaupmáttur og atvinnuleysi“
Í öðru lagi, sem snýr að mér persónulega, er það ný sýn á heiminn í gegnum föðurhlutverkið sem ég fékk á árinu. Það er varla hægt að hugsa sér meiri forréttindi. Hvernig eyddi ég eiginlega tímanum mínum fyrir það? Hvernig fer fólk að því að ala upp fjögur eða fleiri börn?
Seiglan sem konan mín sýndi á meðgöngunni, í fæðingunni og í að sjá litlum dreng fyrir næringu er einstök. Seiglan í litla manninum við að reyna að komast af svona ósjálfbjarga er ekki minni. Á sama tíma upplifi ég mig á köflum hálf gagnslítinn í samanburði við þau, en er þó orðinn sérfræðingur í að gera hluti með annarri hendi og í meltingarvandamálum ungbarna.
Allt þetta setur líka mörg samfélagsleg mál í nýtt samhengi fyrir mér. Eins og kynjajafnrétti, hvernig umönnun barna er háttað, svifryk á höfuðborgarsvæðinu og lækkandi fæðingartíðni. Hvað það fyrsta varðar, kynjajafnrétti, vil ég reyna að leggja mín þrjú sent á vogarskálarnar með því að bæta upp fyrir fyrrnefnt gagnsleysi þessa fyrstu mánuði. Ég sé líka betur hversu dýrmætt það er að vera karl á Íslandi á 21. öldinni hvað þetta varðar, þar sem er sjálfsagt að uppeldið skiptist jafnt milli foreldranna.
Athugasemdir