Þetta er ágætt umhugsunarefni á tímamótum: Hvað skyldi ég hafa lært á því ári sem senn er liðið? Skólanemendur myndu hæglega geta svarað því til hvað þeir lærðu, mælt út frá því sem stendur í einkunnabókunum. Því er ekki beinlínis fyrir að fara hjá undirrituðum en ég tel mig þó hafa lært margt tengt eigin doktorsverkefni og fyrr á þessu ári var skipuð utanþingsstjórn í Austurríki sem líklega engum fannst merkilegt nema þeim sem eru djúpt sokknir í pælingar um stjórnskipunarrétt. Þá lærði ég einhverja frönsku á námskeiðum.
Annar lærdómur er tormældari. Ég er ekki frá því að ég hafi lært sitthvað af kennslu og bóklestri. Einnig af viðtölum við fjölmarga og dvöl í klaustri í Darmstadt í Þýskalandi. Já, ætli vera mín meðal munka og nunna í sumar sem leið hafi ekki verið með því lærdómsríkara, enda fróðlegt að kynnast lífsháttum og viðhorfum þeirra sem hafna veraldlegum gæðum og helga sig æðri máttarvöldum.
„Ég leyfi mér að fullyrða að önnur eins málsmeðferð væri óhugsandi í öðrum vestrænum lýðræðisríkjum“
Ég fékk líka enn betur heim sanninn um það hversu brothætt réttarríkið er hér á landi eftir samskipti mín við embættismannakerfið. Þar játar varla nokkur maður mistök og það sýndi sig í svörum dómsmálaráðuneytis vegna kvörtunar minnar til umboðsmanns Alþingis að ráðuneytið leit ekki svo á að það þyrfti að gæta hagsmuna borgaranna: Allt gengi út á að verja kerfið og æðstu embættismenn ríkisins þó svo að fyrir lægi að brot hefði verið framið gegn borgara. Æðsti yfirmaður lögreglunnar hafði sett mál í lögreglubúning sem voru lögreglu óviðkomandi og haft í hótunum. Þetta fannst ráðherra ekki nægileg ástæða til áminningar. Ég leyfi mér að fullyrða að önnur eins málsmeðferð væri óhugsandi í öðrum vestrænum lýðræðisríkjum. Ýmisleg opinber umræða leiddi mér líka enn betur fyrir sjónir óþol margra fyrir andstæðum skoðunum og þar með vantrú á lýðræðinu. Hvað þetta snertir eru uppi hættumerki að mínu mati.
Athugasemdir