Löng reynsla utan úr heimi bendir til þriggja lykilþátta sem hneigjast til að leiða af sér spillingu í viðskiptum og stjórnmálum. Vandinn er ekki alltaf bundinn við spillinguna sem slíka fyrst og fremst heldur einnig við afleiðingar hennar þar eð spilling hneigist til að grafa undan lýðræði, trausti og lífskjörum almennings. Með spillingu er átt við misnotkun opinbers valds í eigin þágu. Lykilþættirnir þrír sem hneigjast til að leiða af sér spillingu eru viðskiptahömlur, fákeppni og rentusókn og þeir tengjast innbyrðis. Skyldleikinn helgast af því að allir þættirnir þrír færa yfirvöldum úthlutunarvald, þ.e. vald til að úthluta takmörkuðum gæðum til þeirra sem yfirvöldin hafa velþóknun á.
Viðskiptahömlur og helmingaskipti
Skoðum viðskiptin fyrst. Ísland hristi af sér gamlar viðskiptaviðjar fyrir eindregnar fortölur Jóns Sigurðssonar forseta um hans daga, einkum í Nýjum félagsritum. Jóni og samherjum hans tókst að vísu ekki að tryggja Íslendingum aukna sjálfsstjórn á þjóðfundinum 1851 svo sem þeir ætluðu sér, Trampe greifi sá til þess, en þeim tókst að greftra síðustu leifarnar af einokunarverzlun Dana. Erlend viðskipti Íslendinga jukust eftir það jafnt og þétt fram í fyrri heimsstyrjöld. Þau ár svignuðu búðarborð í Reykjavík og víðar um landið undan innfluttu kjöti og ostum og öðrum erlendum varningi. Það stóð þó ekki lengi því eftir styrjöldina voru lagðar þungar hömlur á viðskipti við útlönd einkum til að vernda bændur. Viðskiptin skruppu þá saman og voru í lok síðari heimsstyrjaldarinnar 1945 orðin engu meiri en þau höfðu verið 1870 miðað við landsframleiðslu og stóð sú skipan til 1960 þegar þyngstu hömlunum var aflétt í tíð Viðreisnarstjórnarinnar.
Áratugina næst á undan 1930-1960 hafði þjóðinni verið haldið í hafti eins og Jakob F. Ásgeirsson rithöfundur lýsir vel í bók sinni Þjóð í hafti 1988. Ólafur Ásgeirsson sagnfræðingur lýsir vandanum einnig vel í bók sinni Iðnbylting hugarfarsins 1988. Landið moraði í klíkuskap og spillingu sem snerist m.a. um aðgang að erlendum gjaldeyri og lánsfé sem bankarnir skömmtuðu vel séðum viðskiptavinum undir fráneygðu eftirliti yfirvaldanna. Efnahagslífið hverfðist um hermang og helmingaskipti.
Orðið helmingaskipti í þeirri merkingu sem nú er í það lögð mun fyrst hafa komið fram opinberlega í máli Brynjólfs Bjarnasonar fv. menntamálaráðherra á Alþingi í nóvember 1954 í umræðum um vantraust á Bjarna Benediktsson þv. menntamálaráðherra. Brynjólfur hefur trúlega haft innanhússpurnir af orðinu úr útvarpinu því leikritið Deleríum búbónis eftir Jónas og Jón Múla Árnasyni var að loknum venjulegum aðdraganda frumflutt í útvarpinu í desember 1954 og dró spillinguna sundur og saman í hárbeittu háði sem hittir nútímann beint í hjartastað.
Viðreisnarstjórnin var mynduð 1959 einkum til að uppræta höft og skömmtun og meðfylgjandi spillingu áratuganna þriggja næst á undan og leggja þannig grunn að frekari lífskjarabótum. Það tókst þó ekki nema að hluta. Næstu skref að sama marki voru inngangan í Fríverzlunarsamtök Evrópu (EFTA) 1970 og aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) 1994, en segja má að hún jafngildi um 70% aðild að Evrópusambandinu (ESB). Þau 30% sem á vantar varða einkum sjávarútveg og landbúnað, utanríkis- og viðskiptamál og innanríkis- og skattamál fyrir nú utan evruna.
Spilling verður þó naumast rakin beint til ákveðinna atriða, t.d. hafta, hermangs eða helmingaskipta, heldur virðist nær að skoða hana sem inngróna hegðun í stjórnmálum og viðskiptum, ákveðið menningarástand sem hefur ríkt á Íslandi síðan um og eftir aldamótin 1900. Heimastjórninni 1904 fylgdi sterkt flokksræði ásamt auknum umsvifum ríkisins. Hannes Hafstein, fyrsti ráðherrann, var ýmist ráðherra (1904-1909 og 1912-1914) eða bankastjóri (1909-1912 og 1914-1917). Tryggvi Gunnarsson, móðurbróðir hans, sat á Alþingi 1869-1885 og aftur 1894-1908 og var bankastjóri 1893-1909. Þarna var auk annars lagður grunnur að eitraðri blöndu bankamála og stjórnmála.
Höftin og skömmtunin 1927-1960 féllu í gljúpan svörð við þessar aðstæður og ræktuðu sérstaka tegund hugarfars þar sem skilin milli viðskipta og stjórnmála máðust út að miklu leyti. Margar nánari skýringar á spillingunni koma til álita, m.a. yfirburðastaða eins stjórnmálaflokks í stjórnkerfinu, fyrst Framsóknarflokksins í skjóli skakkrar kjördæmaskipanar og síðan Sjálfstæðisflokksins með tilheyrandi ofríki, markaðsfirringu og njósnum um meinta andstæðinga.
Fákeppni og fólksfæð
Framleiðendum dugir ekki alltaf vernd gegn erlendri samkeppni heldur sækjast þeir sumir eftir hliðstæðri vernd gegn innlendum keppinautum. Fákeppni varð snemma að ríkjandi skipan í íslenzku athafnalífi. Yfir bankakerfinu gína enn sem fyrr þrír bankar með samtals 97% markaðshlutdeild. Jafnvel það þykir sumum of lýjandi samkeppni svo nú er uppi hugmynd um sameiningu tveggja þessara banka. Bankarnir hafa undirtökin í viðskiptum, eins konar úthlutunarvald sem gerir þeim kleift að mismuna viðskiptavinum með því að þjarma að sumum og hlífa öðrum undir hjúpi leyndar. Þetta íhlutunarvald, sem stjórnmálamenn vildu ekki sleppa, gat af sér einkavæðinguna 1998-2003 sem fólst í að afhenda bankana einkavinum valdsins. Því fór sem fór í hruninu. Ísland er eina Evrópulandið þar sem innlendir bankar þurfa ekki að keppa við erlenda banka heima fyrir að heitið geti.
Svipuðu máli gegnir um eldsneytismarkaðinn sem örfá fyrirtæki hafa skipt á milli sín frá fyrstu tíð í friði fyrir erlendum keppinautum. Markaðshlutdeild þriggja stærstu olíufélaganna er yfir 90%. Olíufélögin hafa aldrei þurft að sæta erlendri samkeppni, ekki frekar en bankarnir. Þau hafa því gengið á lagið, jafnvel með lögbrotum líkt og bankarnir. Þrjú olíufélög voru fundin sek um ólöglegt samráð 1993-2001. Aðild Íslands að EES leyfði ekki lengur samráð með gamla laginu, en olíufélögin héldu samt áfram að brjóta lög allan þann tíma sem þau störfuðu á frjálsum markaði frá 1993 þar til almannavaldið sagði hingað og ekki lengra. Félögin voru dæmd til að greiða háar sektir sem er eins og að sekta hringveginn fyrir of hraðan akstur. Dómsskjöl sýna að samráð olíufélaganna olli almenningi miklu tjóni. Nú er hægt að kaupa bensín í Costco – á einni stöð í Garðabænum.
Markaðshlutdeild þriggja stærstu tryggingafélaganna er 90%, engin erlend samkeppni þar. Tryggingafélögin voru öll fundin sek um ólöglegt verðsamráð 2002-2005. Tvö fyrirtæki á byggingavörumarkaði höfðu lengi um 90% markaðshlutdeild og voru bæði fundin sek um ólöglegt verðsamráð. Annað þessara fyrirtækja er nú hluti af danskri keðju. Þýzkt fyrirtæki hefur veitt þeim samkeppni síðustu ár.
Fákeppni á byggingamarkaði virðist hafa undið upp á sig með því að stórir verktakar hafa rutt minni verktökum úr vegi. Stórir verktakar geta leyft sér að byggja íbúðir fyrir t.d. 20 mkr. og selja þær á 60 mkr. þar eð fákeppni gerir þeim kleift að keyra hagnað sinn upp úr öllu valdi. Við bætist fákeppni á leigumarkaði. Fyrst leystu bankarnir til sín þrjár húseignir á dag að jafnaði í mörg ár eftir hrun og tóku þannig smám saman yfir mikinn fjölda íbúða sem þeir seldu síðan fasteignafyrirtækjum með magnafslætti. Ríkisstjórnin neitar að svara því hverjir keyptu 3.200 fasteignir sem Íbúðalánasjóður leysti til sín og seldi. Leigurisar eru nú orðnir svo mikils ráðandi á leigumarkaði að fjöldi fólks hefur hvorki efni á að kaupa sér íbúð né greiða uppsetta húsaleigu.
Fákeppni er ekki óumflýjanleg afleiðing smæðar landsins og fólksfæðar. Lítil lönd og fámenn geta notað erlend viðskipti til að komast í varning – bíla, flugvélar o.s.frv. – sem aðeins stærri lönd og fjölmennari geta framleitt. Með líku lagi geta lítil lönd og fámenn notfært sér erlenda samkeppni til að vernda innlenda neytendur gegn fákeppnisáráttu framleiðenda heima fyrir. Þetta hefur ekki tekizt á Íslandi þrátt fyrir aðildina að EES. Þess vegna meðal annars telja margir æskilegt að ganga alla leið inn i ESB.
Smæð landa þarf ekki heldur að vera uppspretta spillingar. Spillingarvandi Indlands, Kína og Rússlands stafar ekki af smæð og fólksfæð þar austur frá. Rannsóknir sýna að spilling er jafnan minni í litlum löndum en stórum þar eð auðveldara er að halda spillingu í skefjum í löndum þar sem allir vita nánast allt um alla. En fákeppni ýtir undir mismunun og spillingu líkt og viðskiptahömlur.
Rentusókn og rotinn fiskur
Sama fákeppnisárátta einkennir íslenzkan sjávarútveg sem hefur safnazt á sífellt færri hendur með tímanum. Hliðstæðan felst í að eftirsóknin eftir veiðiheimildum er náskyld eftirsókn eftir vernd gegn erlendri og innlendri samkeppni. Þetta heitir rentusókn.
„Rentusókn snýst jafnan um að fénýta eigur annarra í eigin þágu.“
Rentusókn snýst jafnan um að fénýta eigur annarra í eigin þágu. Forsagan skiptir máli. Hermangið snerist um að fénýta hernaðarlega mikilvæga legu Íslands til að mylja undir vel tengd fyrirtæki eftir helmingaskiptareglu. Einkavæðing bankanna snerist um að fénýta lánstraust Íslands í útlöndum til að mylja undir einkavini valdsins. Kvótakerfið snýst öðrum þræði um að fénýta sameiginlegar sjávarauðlindir fólksins í landinu til að mylja undir nýríka útvegsmenn sem kunna að þakka fyrir sig líkt og eigendur bankanna fram að hruni.
Hermangið kom til kasta dómstóla í olíumálinu, umfangsmesta fjársvikamáli síns tíma, sem lauk með fangelsisdómi og fjársektum 1963. Einkavæðing bankanna kom ekki til kasta dómstóla, þar eð Alþingi heyktist á að framfylgja eigin ályktun um skipun rannsóknarnefndar um málið. Kvótakerfið hefur oftar en einu sinni komið til kasta dómstóla. Hæst ber bindandi fyrirmæli sem Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna birti íslenzkum stjórnvöldum 2007 um að nema mismunun burt úr fiskveiðistjórninni og greiða fórnarlömbum skaðabætur. Stjórnvöld skutu sér undan fyrirmælunum með því að lofa nýrri stjórnarskrá sem Alþingi fól Stjórnlagaráði að semja 2011 og fólkið í landinu samþykkti 2012, en þingið hefur ekki enn fengizt til að staðfesta.
Lögbrot og spilling laðast jafnan að sjávarútvegi sé eftirliti og löggjöf ábótavant líkt og þau laðast að viðskiptahömlum og fákeppni enda er rentusókn undirrótin í öllum dæmunum þrem. Eiturlyfja- og glæpaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (UNODC) í Vín birti fyrir skömmu merka skýrslu undir yfirskriftinni Rotinn fiskur: Handbók um varnir gegn spillingu í sjávarútvegi. Skýrslan hefst á þessum orðum í lauslegri þýðingu minni:
„Sjávarútvegur heimsins er flókið netverk atvinnustarfsemi, einstaklinga og yfirvalda sem dreifast um mörg lönd og lögsagnarumdæmi. Flókindin sem af þessu leiðir torvelda eftirlit og framfylgd laga og reglna og veita glæpamönnum margháttuð tækifæri til lögbrota. Spilling stendur þvert í vegi fyrir baráttunni gegn lögbrotum í sjávarútvegi. Hún ógnar skilvirku eftirliti og vörnum gegn glæpum á öllum stigum virðiskeðju sjávarútvegsins og leggur útveginn í margs konar hættu, allt frá fölsuðum leyfum og skýrslum um landaðan afla að sölu rangt skráðra fisktegunda auk annars. Spilling grefur einnig undan viðleitni lögreglu til að rannsaka og ákæra fyrir lögbrot í sjávarútvegi þar sem þeirra verður vart.“
Athugasemdir