Árið 2019 var ár mýktarinnar. Árið þar sem við áttuðum okkur á að harkan, græðgin og frekjan sem hefur verið ráðandi síðustu áratugi er átrúnaðargoð sem hentar okkur flestum illa.
Sífellt fleiri uppgötvuðu að við þurfum að fara betur með plánetuna. Vera mjúkhentari við hana og okkur sjálf. Mörg hættum við að drekka áfengi, hættum að borða dýr, reyndum að hugleiða og kúpla okkur út úr hraðanum sem gerði það að verkum að kulnun var valið orð ársins 2018. Tókum lítil skref í átt að mýkri heimi í stað þess hraða, harðneskjulega og eyðileggjandi.
„Því harðari sem heimurinn er, því mýkri þurfum við að vera“
Í þessari mýkt felst þó engin uppgjöf eða hvarf í skelina heldur þvert á móti bylting: Bylting tilfinninga, bylting einlægninnar, og ekki síst bylting barnanna. Unglingsstúlka með fléttur og einbeittan svip var valin manneskja ársins af Time, titill sem er staðfesting á stöðu hennar sem vonartákn fyrir fjölda fólks. Á þessu ári hefur Greta Thunberg endurtekið sannað að það er óþarfi að vera óskammfeilinn frekjukall í jakkafötum svo hlustað sé á þig. Börn úti um allan heim berjast nú fyrir framtíð sinni, á sinn hátt. Þau vilja ekki framtíð sem einkennist af græðgi, eyðileggingu og frekju, heldur mannúð, jafnrétti og jafnvægi. Þau eru vakandi og sjá hlutina í skýru ljósi, miklu skýrar en við fullorðna fólkið sem erum orðin svo samdauna sífelldum spillingarmálum og umhverfishryðjuverkum að við erum hætt að kunna að ímynda okkur öðruvísi heim.
Þessi mýktarbylting mætir þó auðvitað andstöðu. Frekjukallarnir eru vanir að fá sínu fram, fólk hræðist óvissuna sem fylgir framtíðinni og öflin sem græða á því að fólk sé óupplýst, hrætt og kvíðið eru ekki á þeim buxunum að sleppa tökunum. Það er allt í lagi. Við höldum áfram að koma mýktinni að, innleiða hana í okkar líf og umræðu, hlusta á börn, tönnlast á mýktinni þar til hún nær í gegn. Tvö skref áfram, eitt skref afturábak. Því harðari sem heimurinn er, því mýkri þurfum við að vera.
Athugasemdir