Mikilvægasta verkefni ársins hjá mér arið 2019 var að finna taktinn í hversdagsleikanum í Reykjavík, að reyna að móta fullnægjandi og gefandi tilveru innan þeirra takmarkana sem markaðssamfélagið setur hverjum manni í nútímanum. Ég og kærastan mín unnum til að mynda í því að gera íbúðina okkar heimilislegri og búvænlegri. Við settum upp hillur og gardínur, okkur tókst að halda lífinu í flestum pottaplöntunum, við negldum upp listaverk af Esjunni og keyptum okkur sjónvarp í fyrsta skipti á ævinni. Ég var meðvitaður um að með þessu öllu væri ég smám saman að vefja mér þéttar og þéttar inn í vef borgaralegs lífernis, hins vegar yfirsást mér að um leið var ég að flækjast í annað og framíðarlegra net, hið svokallaða hlutanet.
Nýja sjónvarpið mitt er nefnilega (eins og langflest ný sjónvörp) internettengt snjallsjónvarp. Ég get semsagt farið á vefsíður og streymisveitur, keypt öpp og talað við tækið í gegnum innbyggðan hljóðnema. Sífellt fleiri tæki sem við röðum í kringum okkur eru snjallvædd og internettengd, allt frá sjónvörpum til ísskápa, frá hljómflutningsgræjum til ljósapera og armbandsúra. Þetta er hlutanetið, á ensku: internet of things (IoT).
Á sama tíma og við gleðjumst yfir notendavænum nýjungum sem fylgja tækjunum gera þær framleiðendum kleift að fylgjast betur með og safna meiri upplýsingum um okkur notendurna. Við þekkjum þetta auðvitað úr tölvunum og símunum okkar – Google og Facebook fylgjast með öllu – en eftir því sem samtengt net snjalltækja verður þéttara og víðtækara munu þessi fyrirtæki geta fylgst stöðugt betur með hegðun okkar í kjötheimum: hvenær við vöknum, förum út og komum heim, hvert við ferðumst, hvernig kaupvenjur okkar eru, hvernig við tölum saman, hvernig hjartslátturinn breytist yfir daginn.
„Árið 2019 áttaði ég mig á því að þetta er hvorki eðlilegt né óhjákvæmilegt“
Ég er reyndar ekki viss um að það hafi verið sérstaklega spennandi hjá eftirlitskapítalistunum að fylgjast með okkur skötuhjúunum árið 2019. Stóran hluta ársins hef ég bara legið uppi í gamla tungulausa sófanum okkar og lesið bókina The Age of Surveillance Capitalism eftir Shoshana Zuboff. Þar lýsir hún því meðal annars hvernig nýting gagnagnóttarinnar sé orðin að mikilvægasta þættinum í tekjumódeli tæknirisanna. Þeir safna gríðarlegu magni upplýsinga um hvern einstakling, greina þær, spá fyrir hvernig hann muni bregðast við tilteknu áreiti á tilteknu augnabliki og selja auglýsendum aðgang að þessum spádómum. Og hvað er svona hættulegt við það? Jú, segir Zuboff. Tæknirisarnir eru hratt og örugglega að þróa tækni og aðferðir sem gera þeim betur kleift að móta hegðun einstaklinga í gegnum tækin á hlutanetinu, stýra okkur og mjaka þangað sem þeim hentar með snjallstýringu sem er okkur hulin og óþekkjanleg.
Þessu ástandi hefur verið troðið upp á okkur án þess að við höfum samþykkt það (nema auðvitað í gegnum illskiljanlega og ólöglega notendaskilmála sem bjóða ekki upp á neina aðra valkosti en að ,,samþykkja“ eftirlitið). Okkur hefur verið talin trú um að þessi þróun sé sjálfsögð, að ítarlegt og alltumlykjandi eftirlit örfárra risafyrirtækja, greining og nýting gagnanna í gróðatilgangi, sé eðlileg og óhjákvæmileg, að það sé eðlilegt að almenningur og óháðir eftirlitsaðilar fái ekkert að vita um hvaða upplýsingum er safnað og í hvaða tilgangi. Árið 2019 áttaði ég mig á því að þetta er hvorki eðlilegt né óhjákvæmilegt.
Athugasemdir