Þegar litið er um öxl eru það oft nýlegir atburðir sem koma fyrst upp í hugann. Upplýsingar um starfsemi sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja í Namibíu hafa verið áberandi að undanförnu og vekja spurningar hvort við sem þjóð höfum ekkert lært af því sem á undan er gengið. Við Íslendingar stærum okkur af því hversu framarlega við séum á mörgum sviðum á heimsvísu. Að við séum siðmenntuð þjóð sem kemur vel fram við aðra. Ef þær upplýsingar sem koma fram í Samherjamálinu eru á rökum reistar er ljóst að að við erum hreint ekki að haga okkur vel annars staðar. Sú hegðun sem birtist okkur þar af hálfu eins stærsta fyrirtækis landsins er fjarri því að vera okkur til sóma.
Ég er auðvitað ekki dómari og get ekki fullyrt að allt sem fram hefur komið sé rétt en miðað við þau gögn sem hafa birst í fjölmiðlum eins og Kveik og Stundinni er þetta mjög alvarlegt. Það er alvarlegt hvernig við höfum komið fram við fátæka þjóð sem leitaði til okkar um aðstoð og uppbyggingu í sjávarútvegi. Það situr mjög í mér.
Ég velti fyrir mér hvort þessi hegðun sé víðtækari en við gerum okkur grein fyrir og eigi sér einnig stað hér á Íslandi. Hvort allir séu jafnir. Kannski smæðin hafi þar áhrif og valdi því að við fáum ekki sömu tækifæri vegna tengsla manna á milli. Hvernig gæðum er misskipt.
„Við þurfum að hefja alvarlega umræðu um samfélagslega ábyrgð“
Ég hef líka áhyggjur af því hegðunarmynstri okkar Íslendinga sem einkennist af því að hlaupa upp til handa og fóta á samfélagsmiðlum, fara þar mikinn og vaða áfram með stóryrðum, en gleyma svo hneykslismálunum daginn eftir og hugsa ekki um þau fyrr en nýtt hneyksli kemur upp. Þetta er ekkert öðruvísi en sá popúlismi sem oft sama fólk gagnrýnir aðra fyrir. Þess vegna er það mjög mikilvægt að mál Samherja verði rannsakað af héraðssakóknara, til lykta leitt og að við drögum einhvern lærdóm af því. Að þrískipting ríkisvaldsins sé virt og það sett í hendur dómskerfisins, ekki dómstóls götunnar eða samfélagsmiðlanna.
Ég hef í gegnum tíðina fjallað töluvert um skólamál, málefni fólks sem stendur höllum fæti í samfélaginu og flóttafólks sem leitað hefur hingað til lands eða við höfum boðið hingað til okkar. Við þurfum að hefja alvarlega umræðu um samfélagslega ábyrgð íslenskra fyrirtækja, íslenskra stjórnvalda og íslensku þjóðarinnar. Sú umræða þarf að fara fram á breiðum grundvelli. Við getum til að mynda ekki stungið höfðinu í sandinn þegar kemur að loftslagsógninni, hún snýr ekki bara að framtíð okkar eða Íslands heldur er málefni sem takast þarf á við á heimsvísu. Við þurfum að horfa á heiminn í heild, hætta þessum þröngsýna hugsunarhætti þar sem fólki er stillt upp í „við“ og „þið“. Það eru bara við.
Athugasemdir