Félög í eigu Samherja greiddu tæplega 680 milljónir króna í mútur til áhrifamanna í Namibíu til að fá aðgang að hestamakrílskvóta í landinu eftir að Jóhannes Stefánsson lét af störfum hjá fyrirtækinu. Jóhannes var framkvæmdastjóri yfir starfsemi Samherji í Namibíu á árunum 2012 þar til í lok júlí árið 2016. Þessar tæplega 680 milljónir voru greiddar út á tímabilinu ágúst 2016 þar til í janúar árið 2019, samkvæmt reikningum og banka- og reikningsyfiritum sem liggja fyrir í Samherjamálinu.
280 milljónir af þessum 680 milljónum voru greiddar frá félögum Samherja á Kýpur, sem voru með bankareikninga í norska DNB-bankanum sem Jóhannes stýrði aldrei og var ekki með prókúru eða boðvald yfir. Hvorki meðan hann starfaði hjá Samherja né eftir að hann lét af störfum. Framkvæmdastjóri félaga Samherja á Kýpur heitir Ingvar Júlíusson en hann hefur ekkert tjáð sig um Samherjamálið.
Segja Jóhannes hafa verið einan að verki
Samherji hefur síðastliðinn mánuð ítrekað reynt að halda því fram að Jóhannes Stefánsson hafi verið einn að verki í því að skipuleggja og ganga frá mútugreiðslum til áhrifamannanna í Namibíu í skiptum fyrir kvótann.
Í tilkynningu, eftir að birtar voru uppýsingar um mútugreiðslurnar í Kveik og Stundinni á grundvelli gagna frá Wikileaks, fyrir mánuði síðan sagði Þorsteinn Már Baldvinsson: „Það voru okkur mikil vonbrigði að komast að því að Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Samherjafélaganna í Namibíu, virðist hafa tekið þátt í gagnrýniverðum viðskiptaháttum og hugsanlega flækt Samherja í viðskipti sem kunna að vera ólögmæt.“
Samherji svarar ekki spurningum
Á þessum mánuði sem liðinn er hefur Samherji hvorki útskýrt hvernig mútugreiðslurnar, sem í heildina nema vel á annan milljarð króna hið minnsta, gátu átt sér stað frá fyrirtækjum í rekstri og eigu Samherja eftir að starfsmaðurinn sem þeir reyna að kenna alfarið um mútugreiðslurnar var hættur að starfa hjá fyrirtækinu.
Þá er einnig óútskýrt hvernig millistjórnandi hjá Samherja á að hafa getað tekið ákvarðanir um það einn og án samráðs og samþykkis yfirboðara sinna eins og Aðalsteins Helgasonar og Þorsteins Más Baldvinssonar að greiða mútur upp á mörg hundruð milljónir króna til áhrifamanna í Namibíu sem tryggðu Samherja aðgang að fiskveiðikvótum.
Einnig er óútskýrt af hverju og hvað hagsmuni Samherji telur að Jóhannes hafi haft af því að greiða mútur svo Samherji fengi kvóta, án þess að aðrir innan Samherja hafi vitað það. Mútuféð kom frá Samherja og það var Samherji sem naut góðs kvótunum.
Fyrst eftir að greint var frá mútugreiðslunum opinberlega neitaði Þorsteinn Már því ekki að slíkar greiðslur hefðu átt sér stað út úr fyrirtækinu. Raunar voru fyrstu yfirlýsingar Samherja staðfesting á því að slíkar greiðslur hefðu sér stað en fyrirtækið reyndi að kenna Jóhannesi Stefánssyni einum um að hafa „flækt Samherja í viðskipti sem kunna að vera ólögmæt,“ eins og sagði í yfirlýsingu fyrirtækisins þann 12. nóvember.
Samherji neitar því nú í svörum sínum til Stundarinnar að félagið hafi greitt mútur en kýs að svara ekki efnislegum spurningum um þessar mútugreiðslur og vísar í það sem fyrirtækið kallar rannsókn norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein á Namibíumálinu. „Samherji og þá er vísað til samstæðunnar hefur aldrei greitt mútur, þess vegna var slíkt mál aldrei rætt í stjórn fyrirtækisins. Að öðru leyti fjallar spurningin um atriði sem eru til rannsóknar hjá norsku lögmannsstofunni Wikborg Rein og verður upplýst um þegar niðurstöður liggja fyrir. Samherji hefur þegar upplýst að félagið muni vinna með hlutaðeigandi stjórnvöldum og veita þeim allar nauðsynlegar upplýsingar, sé þess óskað,“ segir í svari frá Samherja sem Björgólfur Jóhannssson er skrifaður fyrir.
„Gentlemen, We are in business. Sacky.“
Jóhannes áfram sagður bera ábyrgðina einn
Í Fréttablaðinu í dag er ýjað að því, á grundvelli upplýsinga frá Samherja, að Jóhannes Stefánsson hafi einn tekið ákvarðanir um mútugreiðslur upp á 16,5 milljónir króna sem runnu til félagsins ERF 1980 og þaðan til Sacky Shangala, sem síðar varð dómsmálaráðherra Namibíu, og James Hatukulipi. Í fréttinni er haft eftir „Samherja“ að félagið hafi ekki vitað af þesssum mútugreiðslum til Sacky Shangala sem fóru í gegnum félagið ERF 1980 og voru byggðar á fölskum leigusamningi. Um þetta segir í frétt Fréttablaðsins: „Er það afstaða Samherja að ef fyrirtækið hefði vitað um mútugreiðslur til Shanghala hefði leigusamningurinn við félagið fylgt með í yfirliti Jóhannesar til Örnu og þá hefði Egill Helgi ekki þurft að spyrja Ingólf um saminginn.“
Fyrirsögnin á fréttinni er: „Hafna vitneskju um mútur til Shanghala“ og er sagt í henni að Samherji „birti tölvupósta máli sínu til stuðnings“. Ekkert er hins vegar fjallað um aðrar mútugreiðslur í fréttinni.
Sacky Shangala er einn sexmenninganna sem hefur verið handtekinn í Namibíu grunaður um mútuþægni, peningaþvætti, meinsæri og fleiri brot í Samherjamálinu.
Hann var lykilmaður í skipulagningu Namgomar-dílsins svokallaða sem gekk út á að búa til milliríkjasamkomulag á milli Namibíu og Angóla gagngert til þess að hægt væri að úthluta Samherja kvóta sem Samherji greiddi mútur fyrir til aflandsfélags í Dubaí. Þegar þau viðskipti voru í höfn sagði Shangala í tölvupósti til Jóhannesar Stefánssonar, Sigurðar Ólasonar og James Hatuikulipi þar sem hann fagnaði því og sagði að díllinn væri í höfn. „Gentlemen, We are in business. Sacky.“ Namgomar-díllinn er sá þáttur málsins sem lögreglan í Namibíu einbeitir sér mest að í rannsóknum sínum.
Fréttina í Fréttablaðinu má skilja þannig að það sé túlkun Samherja, sem Fréttablaðið miðlar, að Jóhannes Stefánsson hafi einn borið ábyrgð á þessum tilteknu mútugreiðslum upp á 16,5 milljónir króna til ERF 1980 og Sacky Shangala og James Hatuikulipi.
Hver ber ábyrgð á mútugreiðslum upp á meira en milljarð?
Umræddar greiðslur nema innan við 2 prósentum af þeim mútugreiðslum sem sagt hefur verið frá í fjölmiðlum að Samherji hafi greitt til áhrifamannanna í Namibíu.
Í fréttinni í Fréttablaðinu er „Samherji“ ekki spurður að því hvernig og á hvaða forsendum fyrirtækið útskýri mútugreiðslurnar upp vel á annan milljarð króna sem ekki runnu til ERF 1980 heldur til annarra félaga sem áhrifamennirnir í Namibíu áttu eða stýrðu.
Ekki er heldur leitað svara við þeirri spurningu hjá Samherja hver bar ábyrgð á þeim mútugreiðslum upp á 680 milljónir sem áttu sér stað eftir að Jóhannes hætti hjá Samherja í Namibíu um sumarið 2016 og þeirri spurningu er ekki svarað hvernig Jóhannes á að hafa getað staðið fyrir mútugreiðslum upp á 280 milljónir frá félögum á Kýpur sem hann stýrði aldrei.
Samherji vill heldur ekki svara slíkum spurningum en fyrirtækið tjáir sig hins vegar um mútugreiðslur sem það fullyrðir að það hafi ekki vitað um, eins og þær til ERF 1980. Af hverju fyrirtækið hefur ekki tjáð sig með sambærilegum hætti um meira en 95 prósent af mútugreiðlsunum, ef fyrirtækið hvorki vissi um þær né bar ábyrgð á þeim, liggur ekki fyrir.
Athugasemdir