Esja Seafood Limited, félag í eigu Samherja sem greiddi hálfan milljarð króna í mútur til skúffufélags James Hatuikulipi í Dubaí í skiptum fyrir hestamakrílskvóta, er ennþá viðskiptavinur norska DNB bankans. Félagið er með bankareikning í DNB sem notaður var til að millifæra féð til Dubaí-félagsins Tundavala Investments Limited.
Í tölvupósti með svörum til Stundarinnar frá ritara starfandi forstjóra Samherja, Björgólfs Jóhannssonar, segir um starfsemi Esju Seafood í gegnum DNB bankann. „Nei, samkvæmt fyrirspurn okkar til stjórnenda Esju Seafood Ltd hefur reikningum félagsins ekki verið lokað.“
Norska blaðið Dagens Næringsliv hefur beint spurningum um núverandi viðskipti Samherja í DNB til upplýsingafulltrúa norska bankans og velt upp spurningum um hvort Samherjamálið í Namibíu, og fjármagnsflutningar Samherja í gegnum bankareikninga í DNB, hafi haft einhver áhrif á viðskiptasamband útgerðarfélagsins við DNB bankann eftir så greint var frá málinu í fjölmiðlum. Talsmaður norska bankans hefur ekki viljað svara þessu en út frá svörum Samherja má ætla að svo sé ekki.
Í umfjöllunum Wikileaks, Kveiks, Stundarinnar og Al Jazeera um Samherjaskjölin hefur komið fram að Samherji hafi greitt áhrifamönnum í Namibíu á annan milljarð króna í mútur í Namibíu til að fá aðgang að hestamakrílskvóta í landinu og að norski DNB bankinn hafi lokað bankareikningum skattaskjólsfélagsins Cape Cod FS í bankanum í maí í fyrra. Reikningar félagsins voru notaðir til að greiða laun sjómanna Samherja í Afríku, meðal annars í Namibíu.
Reynt að fjarlægja Samherja hf. frá Afríkustarfseminni
Í kjölfar breytinga á eignautanumhaldi Samherja hf. og dótturfélaga þess árið 2018 var reksturinn á Íslandi og í Færeyjum aðskilinn frá annarri erlendri starfsemi útgerðarfélagsins.
Reksturinn á Íslandi og Færeyjum er nú rekinn í félaginu Samherji hf. en erlendur rekstur, meðal annars starfsemin í Namibíu, í félaginu Samherji Holding ehf. Félagið Samherji Holding ehf. heldur meðal annars utan um eignarhald á félaginu Esju Seafood Limited á Kýpur, í gegnum íslenska eignarhaldsfélagið Sæból fjárfestingarfélag ehf.
Samherji hf. á svo ekki Samherja Holding ehf. heldur er félagið í eigu hluthafa Samherja, meðal annars Þorsteins Más Baldvinssonar og Kristjáns Vilhelmssonar, beint eða í gegnum eignarhaldsfélög.
Fyrir þessar breytingar hélt Samherji hf. líka utan um erlendu starfsemi útgerðarfélagsins, meðal annars Esju Seafood, og voru öll þessi félög skilgreind sem „dóttur- og samrekstrarfélög“.
Því má segja að í dag sé reksturinn í Namibíu ekki lengur hluti af uppgjöri Samherja hf. líkt og áður var.
„Já, Samherji hf., Kaldbakur ehf. og Ice Fresh Seafood ehf. eru ennþá viðskiptavinir DNB bankans og eiga þar reikninga.“
Minnist ekki á önnur félög
Í svari við þeirri spurningu hvort Samherji og félög í eigu Samherja séu enn viðskiptavinir DNB bankans segir í svarinu sem ritari forstjórans sendir fyrir hönd Björgólfs Jóhannssonar: „Já, Samherji hf., Kaldbakur ehf. og Ice Fresh Seafood ehf. eru ennþá viðskiptavinir DNB bankans og eiga þar reikninga.“ Kaldbakur ehf. er fjárfestingarfélag í eigu Samherja á Íslandi og Ice Fresh Seafood er fisksölufyrirtæki Samherja.
Athygli vekur að Björgólfur nefnir ekki Esju Seafood Limited eða önnur félög sem tilheyra Samherja Holding ehf. á Kýpur, eins og til dæmis Esju Shipping Limited eða Noa Pelagic Limited sem einnig greiddi mútur í Namibíumálinu. Björgólfur minnist bara á félög sem tilheyra Samherja hf. jafnvel þó fleiri félög Samherja eigi bankareikninga í DNB bankanum.
Þegar spurt hvort einhverjum bankareikningum sem eru hluti af Samherja hf. eða Samherja Holding ehf. hafi verið lokað segir í svarinu: „Nei, við höfum ekki fengið upplýsingar um það.“
Kenndu yfirvöldum um
Þegar greint var frá þeirri ákvörðun hluthafafundar Samherja hf. að skipta félaginu upp í tvennt, í íslenska og færeyska starfsemi annars vegar í Samherja hf. og aðra erlenda starfsemi hins vegar í Samherja Holding ehf., sagði Þorsteinn Már Baldvinsson að félagið hafi íhugað að gera þetta út rannsókninni á Seðlabankamálinu, meintum gjaldeyrishaftalagabrotum fyrirtækisins.
Í máli Þorsteins Más í Viðskiptablaðinu kom jafnframt fram að íhugað væri að flytja starfsemi Samherji Holding ehf. erlendis „Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort eignarhaldsfélag um erlenda starfsemi Samherja verði staðsett erlendis. […] Sú reynsla sem Samherji hefur haft af íslenskri stjórnsýslu undanfarin sjö ár í harðri aðför Seðlabankans að félögunum kann að leiða til þess að skynsamlegt kunni að vera að eiga ekki allt undir slíkri stofnun og ráðamönnum.” Þorsteinn sagði jafnframt að höfuðstöðvar Samherja væru á Akureyri og að þar vildi félagið vera.
Nú virðist taktík Samherja einmitt vera að notfæra sér þessa skiptingu Samherja hf. í tvennt í umræðum og svörum um mútumálið í Namibíu, jafnvel þó ljóst sé að mikill meirihluti mútugreiðslnanna átti sér stað þegar öll Samherjastæðan var rekin undir hatti Samherja hf.
Athugasemdir