Notkun Samherja á skattaskjólum eins og Marshall-eyjum og Máritíus í viðskiptum sínum eru hluti af þeim nýju tíðindum sem koma fram í Samherjaskjölunum. Stundin fjallar um skjölin í samvinnu við Wikileaks, Kveik og Al Jazeera.
Hingað til hafa ekki komið fram neinar upplýsingar sem sýna að Samherji notist við ríki sem í dag eru skilgreind sem skattaskjól í viðskiptum sínum. Samherji hefur vissulega notast við Kýpur í meira en áratug í viðskiptum sínum og Miðjarðarhafseyjan er ekki lengur skilgreind sem skattaskjól þó hún hafi verið það á sínum. Kýpur veitir hins vegar skjól fyrir sköttum og verulegt skattahagræði fyrir eignarhaldsfélög eins og þau sem Samherji notar, meðal annars Esju Seafood á Kýpur.
Samherji: Kýpur ekki skattaskjól
Þorsteinn Már Baldvinsson og Samherji hafa í gegnum tíðina andmælt því þegar fyrirtækið hefur verið sagt stunda viðskipti í skattaskjólum. Eftir að DV fjallaði um viðskipti Samherja á Kýpur í tengslum við veiðar fyrirtækisins í Marokkó og Máritaníu árið 2012 birti Samherji frétt á heimasíðu sinni þar sem félagið neitaði því að Kýpur væri skattaskjól.
Formlega séð er Kýpur ekki skattaskjól, meðal annars út frá skilgreiningum Evrópusambandsins á því hvaða ríki eru skattaskjól, en eyjan hefur stundum verið sögð vera skattaskjól í gegnum tíðina. Enginn deilir hins vegar um að það getur falið í sér verulegt skattahagræði að nota eignarhaldsfélög á Kýpur.
Þegar þetta svar kom frá Samherja hafði félagið notast við eignarhaldsfélag á Marshall-eyjum, Cape Cod FS, til að greiða út laun starfsmanna sinna í Afríku í meira en eitt ár.
En auðvitað er það hvorki rangt né mótsögn að Samherji hafi varið sig með því að Kýpur sé ekki skattaskjól á sama tíma og félagið millifærði milljarða króna til Marshall-eyja til að greiða laun starfsmanna sinna í Afríku.
Skattavandræði sjómanna
Bent skal á það einnig að starfsmenn Samherja í Afríku, sem og starfsmenn
Sjólaskipa þegar Katla Seafood var í eigu þess félags, hafa lent í vandræðum í gegnum tíðina út af því að þeir greiddu ekki skatta af launum sínum. Í ljós kom að einhverjir starfsmenn töldu að Sjólaskip og Samherji greiddu skatta af launum þeirra á meðan útgerðirnar litu svo á að starfsmennirnir væru verktakar.
Niðurstaðan var hins vegar að engir skattar voru greiddir af launum margra starfsmanna útgerðanna, meðal annars tuga íslenska sjómanna sem svo voru dæmdir fyrir skattalagabrot á Íslandi og gert að greiða skattinn til baka með álagi. Einhverjir af sjómönnunum hafa orðið gjaldþrota vegna þessa. Þá skal einnig á það bent að fyri eigendur Kötlu Seafood, systkinin í Sjólaskipum, hafa verið ákærð fyrir stórfelld skattalagabrot vegna notkunar á Tortólafélögum í tengsum við
Ein af spurningunum sem kviknar í ljósi upplýsa Samherjaskjalanna er hvort og hvernig þeir starfsmenn Samherja sem fengu greidd laun frá Cape Cod FS hafi gefið þessi laun upp til skatts á Íslandi eða ekki. Einn fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu, sem meðal annars fékk greidd laun frá Cape Cod FS, segir alltaf hafa greitt skatta á Íslandi af þeim en hvort þetta á við um alla íslensku starfsmennina liggur vitanlega ekki fyrir.
Þorsteinn: Skattað eftir afkomu
Samherji á líka í svo einnig miklum innbyrðis viðskiptum við sín eigin fyrirtæki víða um heima í gegnum eignarhaldsfélög sín á Kýpur og rekstrarniðurstaða félaganna er ekki góð og eru skattgreiðslurnar á Kýpur eftir því. Eins og fjallað var um í Stundinni í apríl eftir að blaðið hafði gengið aðgang að ársreikningum tveggja Samherjafélaga á Kýpur, Esju Shipping Limited og Esju Seafood Limited.
Á árunum 2013 og 2014 borguðu þessi tvö félög samtals 22 milljónir króna í skatt á Kýpur en voru á sama tíma með tekjur upp á meira en 12 milljarða króna. Félögin voru og eru í eigu íslensks eignarhaldsfélags sem heitir Polaris Seafood ehf.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sagði þá að skattgreiðslur fyrirtækjanna á Kýpur séu byggðar á þarlendum lögum og í samræmi við þau. „Það er skattað í samræmi við afkomu þessara fyritækja á hverjum tíma. Það hafa verið greiddir allir skattar og gjöld á þessum stöðum, hvort sem það er Kýpur eða annars staðar. Það er bara einfalt mál og þessir skattar eru mismiklir á hverjum tíma eftir afkomu.“
Tölvupóstur Baldvins um skattahagræði
Í febrúar birti Stundin umfjöllun um tölvupóst sem Baldvin Þorsteinsson, sonur
Þorsteins Más Baldvinssonar og starfsmaður Kötlu Seafood, skrifaði til samstarfsmanna sinna hjá Samherja árið 2009 þar sem hann var að ræða um skattalegt hagræði af því að nota félög á Kýpur í viðskiptum Samherja.
Tekið skal fram að umræða Baldvins snerist um starfsemi Samherja í Máritíus og Marokkó, ekki í Namibíu, þar sem Samherji hafði á þessum tíma ekki hafið veiðar í Namibíu – það gerðist ekki fyrr en árið 2012. En umræðuefnið snerist um Afríkuveiðar Samherja og tilhögun þeirra.
„Tilgangurinn er eftirfarandi: Að búa til hagnað innan sölufyrirtækisins þar sem enginn skattur er á hagnað fyrirtækisins.“
Í tölvupóstinum sagði Baldvin meðal annars: „Tilgangurinn er eftirfarandi: Að búa til hagnað innan sölufyrirtækisins þar sem enginn skattur er á hagnað fyrirtækisins. Við teljum Kýpur vera rétta landið. Með því að búa til hagnað innan sölufyrirtækisins Kötlu Seafood getum við lækkað skiptahlut sjómanna og stjórnað betur á hvaða verðum við myndum gera upp. […] Með því að draga úr hagnaði þar og láta hagnaðinn myndast hjá sölufyrirtækinu þá tækist okkur að auka hagnað heildarinnar. Þetta teljum við nokkuð snyrtilega leið til að draga úr skattgreiðslum.“
Þessi tölvupóstur Baldvins er í ágætu samræmi við þær upplýsingar sem koma fram í ársreikningum Esju Shipping og Esju Seafood. Samherji getur stýrt því hvar hagnaðurinn af viðskiptum félagsins myndast þar sem félagið á í svo miklum innbyrðis viðskiptum við sín eigin félög víða um lönd.
Var „snyrtilegt“ fyrir Samherja að nota Kýpur?
Í samtali við Stundina um þennan tölvupóst sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, meðal annars í símasamtali við blaðamanna Stundarinnar fyrr á árinu að Samherji hefði í gegnum tíðina ekki verið „skattfælið“ fyrirtæki.
Blaðamaður: „Annað sem hann [Baldvin Þorsteinsson] segir í þessum tölvupósti er að það sé snyrtilegt í skattalegum skilningi að nota eignarhaldsfélög á Kýpur.“
ÞMB: „Ég veit ekki hvað er átt við með því.“
Blaðamaður: „Þannig er lýsingin í tölvupóstinum, snyrtilegt.“
Athugasemdir