Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, neitar því að til hafi staðið að blekkja menn á Grænlandi til að öðlast velvild þeirra og komast þannig yfir veiðiheimildir. Vill Gunnþór meina að snúið hafi verið út úr tölvupósti sem hann sendi á starfsmenn Samherja í Namibíu, þar sem hann óskaði eftir punktum um hvernig unnið hefði verið að slíku í Afríku.
„Sælir félagar
Þannig er mál með vexti að vinir okkar í Grænlandi Henrik Leth, var að biðja mig að setja niður fyrir sig hvað þyrfti til í fjárfestingum, veiðum, vinnslu og hafnarmannvirkjum ef menn myndu vera setja upp fiskimjöls og uppsjávarverksmiðju í Ammasalik austurströnd Grænlands.
Hann er ekki að hugsa um að setja neitt upp, heldur eru einhverjir heimamenn í Grænlandi með einhverja með sér í því að reyna ná kvótum og goodwill af stjórnvöldum með því að þykjast vera fara byggja upp á austur grænlandi.
Eigið þið ekki tilbúna einhverja svona punkta þó svo að þeir eigi við um afríku.“
Gunnþór neita ávirðingum
Þannig hljómar umræddur tölvupóstur sem Gunnþór sendi á Aðalstein Helgason, sem í upphafi var framkvæmdastjóri Namibíuútgerðar Samherja, Jóhannes Stefánsson, þáverandi framkvæmdastjóra Arcticnam Fishing í Namibíu sem síðan hefur ljóstrað upp um framferði Samherja, og til Sigurðar Ólasonar, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá Samherja. Fréttablaðið greindi frá þessum tölvupóstinum í morgun og sagði hann sýna fram á að blekkja hefði átt grænlensk stjórnvöld til að útvega kvóta.
Haft er eftir Gunnþóri á mbl.is að ekki hafi staðið til að blekkja neinn og það hafi ekki verið Síldarvinnslan né Polar Seafood, sem Henrik Leth stýrir, sem hafi haft uppi hugmyndir um að ná kvóta eða velvild af stjórnvöldum með því að þykjast vera að fara að byggja upp á Austur Grænlandi, heldur væru það heimamenn sem það hefðu ætlað sér.
„Ég þekki allt á Grænlandi, það hefði frekar átt að vera öfugt“
Henrik Leth styður þessa frásögn Gunnþórs í samtali við Stundina. Hann hafi rætt við Gunnþór árið 2014 um hvort mögulegt væri að byggja upp landvinnslu á Austur-Grænlandi, einmitt vegna þess að þeim hafi borist til eyrna að ákveðnir aðilar hefðu lýst áformum um að slíka uppbyggingu. Könnun á fýsileika þess hefði leitt til þess, segir Leth, að ekki hefðu verið talið að það væri hagkvæmt fyrir East Greenland Codfish, grænlenska sjávarútvegsfyrirtækið sem Síldarvinnslan og Polar Seafood áttu saman á þeim tíma, að byggja slíkt upp.
Leth sagði jafnframt fjarstæðukennt að hann hefði beðið Gunnþór um ráð til að koma sér vel við Grænlendinga. „Ég þekki allt á Grænlandi, það hefði frekar átt að vera öfugt,“ sagði Leth.
Athugasemdir