Forsvarsmenn trúfélags Zúista á Íslandi lofa að hefja endurgreiðslur ríkisstyrkja til félaga sinna í nóvember. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu félagsins er lofað að endurgreiða þennan styrk, sem kemur til vegna fjárstyrks ríkisins til trú- og lífsskoðunarfélaga, í tveimur greiðslum á ári en þeir hafa hingað til ekki greitt neitt.
Samkvæmt talningu Hagstofu Íslands eru 3.087 skráðir í félagið í dag en búast má við því að þeim hafi fjölgað eitthvað þar sem tölurnar eru frá því 1. janúar 2016.
„Félag Zúista er orðið sjöunda stærsta trúfélag landsins“
Ef miðað er við félagafjöldann þann 1. janúar síðastliðins eru þetta rúmar þrjátíu milljónir króna sem Zúistar á Íslandi hyggjast endurgreiða félagsmönnum sínum. Sóknargjöld, samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins, eru um það bil 900 krónur á mánuði sem myndi gera 10.800 krónur á ári. Þessa upphæð ætlaði félagið að endurgreiða félagsmönnum sínum og var mikið rætt um þessar fyrirætlanir í fjölmiðlum þegar þær voru auglýstar á síðasta ári.
Athugasemdir