„Ég á unglingsdóttur og bað hana um að gera ekki sömu mistök og mamma sín. Ég vil vara fólk við þessu,“ segir íslensk kona sem fór í bótox, vinsælustu fegrunaraðgerð landsins. Efnið fór illa í líkama hennar og hún þurfti ekki að lesa sér lengi til á netinu til að átta sig á því að hún er alls ekki ein í þeirri stöðu. Hún hafði hins vegar verið hvött áfram af húðlækninum sínum, sem benti henni fyrst á hrukkurnar og framkvæmdi síðan aðgerðina. Á milli þeirra ríkti traust og hún trúði því þegar læknirinn taldi henni trú um að það væru allir að gera þetta og þetta væri ekkert mál. Annað átti eftir að koma á daginn.
Finnur fyrir skömm
Konan sem um ræðir skammast sín svo mikið fyrir að hafa farið þessa leið að hún treystir sér ekki til að koma fram undir nafni. Hún er vel menntuð og í góðri stöðu hjá virtri stofnun. Hún hefur alltaf hugsað vel um sig, litið vel út og verið sátt. Hún fór ekki til læknis til þess að óska eftir bótoxi, heldur var það hann sem vakti máls á hrukkum sem voru farnar að myndast á enninu á henni. Fram að því hafði hún lítið sem ekkert spáð í þessar hrukkur, en sá svo að það var rétt, hún var að eldast og hrukkurnar farnar að myndast á enni hennar. Síðan bauð læknirinn lausnina, að sprauta bótoxi í ennið á henni. Fyrir það tók hann um 80 þúsund krónur.
Athugasemdir