Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Niðurskurður hafi kallað fram „hughrif“ um ótryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu

Bjarni Bene­dikts­son flutti fyrstu stefnuræðu sína sem for­sæt­is­ráð­herra í kvöld.

Niðurskurður hafi kallað fram „hughrif“ um ótryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að niðurskurður í heilbrigðiskerfinu eftir hrun hafi kallað fram þau „hughrif“ hjá stórum hluta þjóðarinnar að samfélagssáttmáli um tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafi brostið.

Þetta kom fram í stefnuræðu Bjarna á Alþingi í kvöld. Sagði hann miklar áskoranir framundan í heilbrigðisþjónustu en ekki væri hægt að leysa þær allar með nýju fjármagni, enda væri fjármagnið af „of skornum skammti“.

„Sterkar vísbendingar eru um að niðurskurður eftir hrun hafi kallað fram hughrif hjá stórum hluta þjóðarinnar um að samfélagssáttmáli um tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafi brostið. Aukin útgjöld til heilbrigðismála á síðustu árum hafa ekki náð að lækna þessi hughrif,“ sagði Bjarni í ræðu sinni og bætti við:

„Ríkisstjórnin hefur með stefnuyfirlýsingu sinni gert heilbrigðismál að forgangsverkefni. Hluti af því verkefni er að móta skýrari stefnu um hvernig við stýrum síaukinni eftirspurn og hvert skútan skuli sigla. Þjóðin eldist, tækninni fleygir fram, verðmætasköpun þjóðarbúsins – sem standa verður undir heilbrigðisútgjöldum – eykst hægar en getan til að vinna á sjúkdómnum. Og áskoranir í heibrigðisþjónustu eru margar, við leysum þær ekki allar með nýju fjármagni, til þess er fjármagnið af of skornum skammti.“

Í viðtali við Morgunblaðið skömmu fyrir kosningar fullyrti Bjarni Benediktsson að 20 prósent sjúk­linga treysti sér ekki til að leita heil­brigðisþjón­ustu vegna bágr­ar fjár­hags­stöðu og að lang­ir biðlist­ar hefðu mynd­ast eft­ir lífs­nauðsyn­leg­um aðgerðum eins og hjartaþræðing­um. Í stefnuræðu sinni í kvöld vísaði hann hins vegar til ótryggs aðgengis að heilbrigðisþjónustu sem „hughrifa“ og sagðist vilja „lækna þau hughrif“. 

 

 

Hér má lesa stefnuræðu forsætisráðherra í heild:

 

Virðulegur forseti, góðir landsmenn.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar tók við á Bessastöðum þann 11. janúar síðastliðinn. Hin nýfædda ríkisstjórn fær góðar ytri aðstæður í arf. Þannig er staða efnahagsmála sterk og góðar horfur til framtíðar. Ný ríkisstjórn tekur með sér frá alþingiskosningum sterka kröfu um uppbyggingu grunnþjónustu og samfélagslegra innviða.

Stjórnarsáttmálinn fjallar um innviðauppbyggingu og stöðugleika. Innviðauppbyggingin er kjarninn í sáttmálanum, sama hvort litið er til heilbrigðismála, menntamála, almannatrygginga, fjölskyldumála, samgöngumála eða nýsköpunar. Jafnframt vill ríkisstjórnin byggja upp áframhaldandi jafnvægi í efnahagsmálum.

Með hliðsjón af þessu eru leiðarstef, eða gildi, ríkisstjórnarinnar tvö; jafnvægi og framsýni. Jafnvægi skapar nauðsynlega festu og aga – sígandi lukka er best. Framsýni veitir kraftinn til að byggja upp, komast lengra, gera betur.

Beinum fyrst sjónum að jafnvægi. Jafnvægi er flókið hugtak, enda felur það í sér jafnvægi í ólíkum aðstæðum og ólíkum verkefnum. Við sækjumst eftir framförum en um leið viljum við að þær færi okkur nýtt jafnvægi – og aðlögun að bættri útkomu.

Þjóðfélagið er safn þeirra einstaklinga sem það byggja, einstaklinga með ólíka sýn, hæfileika og skaphöfn.

 „En þó eru sumir sem láta sér lynda það, að lifa úti í horni, óáreittir og spakir”“ segir í ljóði Tómasar Guðmundssonar. „Því það er svo misjafnt sem mennirnir leita að, og misjafn tilgangurinn sem fyrir þeim vakir.“

Jafnvægi í þjóðfélaginu snýst ekki eingöngu um ytri gæði. Það snýst einnig um það hvernig við nýtum þau til að rækta það sem býr innra með okkur. Vísbendingar streyma inn sem benda til að við getum gert miklu betur, bæði sem þjóð og einstaklingar, til að láta okkur líða vel. Of margir upplifa vanlíðan, kvíði og þunglyndi þjaka marga og því miður ekki síst unga fólkið okkar.Það er ekki léttvægt í huga unglings, ef hann finnur til depurðar vegna þess að viðbrögð við því sem hann setur inn á samfélagsmiðil standa ekki undir væntingum. Þetta er nýr veruleiki sem við þurfum að hjálpa börnunum okkar að fóta sig í.

Ríkisstjórnin stýrir ekki hamingju einstaklinga en aðgerðir ríkisstjórnar hafa vissulega áhrif á siglingu þjóðarskútunnar, hvert hún stefnir, hvort á henni sé slagsíða og hvernig búið er að áhöfninni. Svo má leiða líkur að því að umræðan á Alþingi geti einnig haft áhrif á sálarlíf þjóðarinnar.

Jafnvægið í þjóðfélagsgerðinni kemur nefnilega bæði að ofan og að neðan. Það kemur ekki af sjálfu sér – það þarf að vinna í því. Það er margt sem hefur þar áhrif. Sterkar vísbendingar eru um að niðurskurður eftir hrun hafi kallað fram þau hughrif hjá stórum hluta þjóðarinnar að samfélagssáttmáli um tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafi brostið. Aukin útgjöld til heilbrigðismála á síðustu árum hafa ekki náð að lækna þessi hughrif.

Ríkisstjórnin hefur með stefnuyfirlýsingu sinni gert heilbrigðismál að forgangsverkefni. Hluti af því verkefni er að móta skýrari stefnu um hvernig við stýrum síaukinni eftirspurn og hvert skútan skuli sigla. Þjóðin eldist og tækninni fleygir fram. Verðmætasköpun þjóðarbúsins, sem standa verður undir heilbrigðisútgjöldum, eykst hægar en getan til að vinna á sjúkdómum. Áskoranir í heilbrigðisþjónustu eru margar. Við leysum þær ekki allar með nýju fjármagni. Til þess er fjármagnið af of skornum skammti.

Góð efnahagslega staða Íslands og gott lífeyriskerfi gera okkur samt sem áður betur í stakk búin en flestar aðrar þjóðir til að takast á við þennan vanda. Framleiðsla á hvern Íslending, leiðrétt fyrir kaupmætti, var ein sú hæsta í heimi árið 2015, um fjórðungi hærri en að meðaltali í Evrópusambandinu. Þetta þýðir að við getum gert kröfu um að lífsgæði hér á landi endurspegli þessa sterku stöðu.

Jafnvægi felst einnig í að styðja þá til sjálfshjálpar sem aðstoðar þurfa við. Ríkisstjórnin hyggst taka upp starfsgetumat og gera örorkulífeyriskerfið sveigjanlegra til að ýta undir þátttöku á vinnumarkaði. Einnig mun hún leitast við að fólk með fötlun geti stýrt þjónustunni sem það fær sjálft. Markmiðið er að auka lífsgæði og samfélagslega virkni.

Ísland er fjölmenningarsamfélag, ríkt af mannauði sem verður að fá að njóta sín. Ríkisstjórnin ætlar að auðvelda innflytjendum að verða fullgildir og virkir þátttakendur í íslensku samfélagi.

Góðir landsmenn,

Hér má enn taka dæmi af því hversu miklu jafnvægið getur skipt fyrir samfélagsgerðina.  Ein helsta áskorunin í flóknum heimi íslenskra fjölskyldna er jafnvægið á milli vinnu og einkalífs. Þar skipta aðgerðir í jafnréttis- og fjölskyldumálum miklu máli. Svo vitnað sé til Bríetar Bjarnhéðinsdóttur: „Vér heilsum glaðar framtíðinni, þar sem karlar og konur vinna í bróðerni saman að öllum landsmálum, bæði á heimilunum og á Alþingi.“ Þessi aldargamla draumsýn Bríetar er nær því að verða að veruleika nú en nokkru sinni áður og kannski nær því í okkar samfélagi en nokkru öðru. Ríkisstjórnin mun gera sitt til að stuðla að því.

Síðast en ekki síst snýst jafnvægi um efnahagsmál. Það er mikil áskorun fyrir ríkisstjórn að taka við góðu búi í efnahagsmálum. Það er ekki sjálfgefið að því sé hægt að viðhalda og aldrei gefi á bátinn. Hér hefur ríkt góður hagvöxtur í mörg ár og hagsagan kennir að magrari ár kunni að vera handan við hornið. Við þurfum að leita leiða til að auka jafnvægi og minnka sveiflur, t.d. með betri samstillingu peningastefnu, fjármálastefnu hins opinbera og vinnumarkaðar, með endurskoðun ramma peningastefnu Seðlabankans, með nýju vinnumarkaðslíkani að norrænni fyrirmynd og með nýjum stöðugleikasjóði sem haldi utan um arð af orkuauðlindum.

Fjárlög ársins 2017 voru samþykkt í góðri sátt á Alþingi í desember. Í þeim er kveðið á um rúmlega 50 milljarða króna útgjaldaaukningu frá árinu 2016, eða um 8% af útgjöldum ríkisins. Þessi hækkun er fyrst og fremst til velferðarmála og er fordæmalaus. Hækkunin er tilkomin vegna skýrra krafna samfélagsins um aukin útgjöld til grunnþjónustu og innviða. Aukin útgjöld ríkisins á tímum mikils hagvaxtar eru almennt gagnrýnd af hagfræðingum því hagkerfið þurfi ekki á innspýtingu að halda við slíkar aðstæður. Mikilvægt er þó að hafa í huga að þessi innspýting í grunnþjónustu er svar við ákalli samfélags sem gekk í gegnum sársaukafullan niðurskurð eftirhrunsáranna.

Tekist hefur vel að lækka skuldir ríkisins, sérstaklega með stöðugleikaframlögum, en vaxtagjöld eru þó enn alltof há. Í fjárlögum er gert ráð fyrir að við greiðum um 70 milljarða króna í vexti á árinu.   Það er 10 milljörðum minna en fyrir tveimur árum en við erum samt með hæstu vaxtagjöld í Evrópu sem hlutfall af landsframleiðslu. Það er því áfram brýnt verkefni að lækka skuldir og þar með vaxtagjöld ríkisins. Og það leiðir af sjálfu sér að það er stórt velferðarmál að lækka skuldir því þannig eykst svigrúm til að gera betur á öllum sviðum. 

Jafnvægið á milli aukinna útgjalda í grunnþjónustu og efnahagslegs stöðugleika er stærsta verkefni þessarar ríkisstjórnar eins og margra annarra ríkisstjórna á undan henni. Verkefnið krefst ögunar og samstillts átaks. Ríkisstjórnin kemur ekki ein að þessu verkefni. Samstilling hagstjórnar er á margra höndum. 

Góðir landsmenn,

Víkjum þessu næst að hinu leiðarstefi stjórnarsáttmálans, framsýni.

„Framtíðin er ekki eins og hún var hér áður fyrr“ segir hnyttið spakmæli sem mörgum er eignað. Spakmælið lýsir síbreytilegum heimi, framtíðin á morgun verður örugglega öðruvísi en framtíðin í gær.

Einstaklingar búa sig undir óræða framtíð með framsýni. Þeir reyna iðulega að gera það sem þeir telja að muni koma sér og sínum að gagni. Mennta sig, leggja fyrir, koma sér upp þaki yfir höfuðið og koma börnum sínum sómasamlega til manns.

Sama á við um þjóðfélög. Þau eiga að setja sér markmið á grunni bestu fáanlegu upplýsinga og rannsókna. Vinna síðan af krafti að því að ná settum markmiðum.

Eitt þessara markmiða er um bætta lýðheilsu. Nýjar rannsóknir sýna að við Íslendingar erum eftirbátar annarra Norðurlandaþjóða þegar kemur að mataræði og hreyfingu. Við sem ríkisstjórn höfum sett okkur það verkefni að móta heilbrigðisstefnu þar sem haft verður að leiðarljósi að veita góða þjónustu þegar eitthvað bjátar á, en gera jafnframt forvörnum og lýðheilsumarkmiðum hátt undir höfði. Þannig horfum við til framtíðar í þeim tilgangi að bæta heilsu landsmanna og draga úr álagi á heilbrigðiskerfið vegna lífstílstengdra sjúkdóma.

Tökum annað dæmi úr allt annarri átt. Í upphafi tíunda áratugarins var mikil umræða um einhæfan útflutning. Við fluttum fyrst og fremst út fisk. Eggin voru öll í sömu körfunni. Talað var um að við þyrftum að stórauka útflutning til að lífskjör okkar gætu staðist samanburð við nálægar þjóðir. Við þyrftum jafnframt að auka fjölbreytni útflutnings. Aðgerðir okkar þyrftu að beinast að þessu.

Nú aldarfjórðungi síðar hefur verðmæti útflutnings á föstu verðlagi þrefaldast. Okkur hefur tekist að halda uppi góðum lífsgæðum á nær alla mælikvarða sem máli skipta.  Það sem meira er, okkur hefur tekist að skjóta fleiri og  sterkari stoðum undir útflutning. Við sýndum framsýni og það skilaði góðum árangri. 

En við verðum að halda áfram og standa okkur í samkeppni þjóðanna. Við þurfum að tvöfalda verðmæti útflutnings á næstu 15 árum. Hvernig gerum við það? Varasamt er að treysta á að okkur takist það með því einu að auka magn útfluttrar vöru, svo sem sjávarfangs eða málma.  Nær er að leggja áherslu á aukna verðmætasköpun úr því sem við höfum úr að spila.   Og við verðum að byggja á hugviti til að framleiða vörur og þjónustu í alþjóðlegri samkeppni. Þar liggja sóknarfæri okkar til aukins útflutnings til framtíðar. Nýsköpun og þróun eru lykilorðin. Ríkisstjórnin hyggst styðja myndarlega við rannsóknir og þróun og hlutverk samkeppnissjóða verður víkkað út til rannsókna á sviði skapandi greina.

Til að ná þessum árangri og bæta samkeppnishæfni Íslands þurfum við að bæta menntun. Menntun er lykillinn að framtíðinni. Hún gerir okkur kleift að skapa það hugvit sem útflutningur okkar byggist á. Menntun gerir börnin okkar betur fær að standast alþjóðlega samkeppni en setur jafnframt þá pressu á okkur að bjóða ungu kynslóðinni samkeppnishæf lífskjör í alþjóðavæddum heimi. Menntun gerir okkur líka betur í stakk búin að takast á við tæknibreytingar. Ný bylting í atvinnuháttum er framundan en við vitum ekki hvaða áhrif hún mun hafa á einstakar atvinnugreinar. Eitt dæmi er sjálfakandi bílar. Við vitum ekki hvort þeir muni leiða til fjölgunar eða fækkunar bíla. Menntun hjálpar okkur að takast á við hið óvænta og óþekkta þótt óljóst sé hvernig hún verði að lokum nýtt. Ríkisstjórnin mun því beita sér fyrir því að öll skólastig verði efld. Það er framsýni.

Ein stærsta ógn samtímans er hlýnun jarðar af völdum gróðurhúsalofttegunda. Við þurfum að axla ábyrgð í samfélagi þjóðanna. Svo aftur sé vitnað í Tómas: „En mörgum finnst hún dýr þessi hóteldvöl, þó deilt sé um hvort hótelið sjálft muni græða. En við sem ferðumst eigum ei annars völ. Það er ekki um fleiri gististaði að ræða.“ Í aðgerðaráætlun í tengslum við Parísarsamkomulagið hyggst ríkisstjórnin setja græna hvata og hvetja til skógræktar, landgræðslu og orkuskipta í samgöngum. Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að ekki verði efnt til nýrra ívilnandi fjárfestingarsamninga vegna mengandi stóriðju.

Ljóð Tómasar á einnig vel við um ferðaþjónustuna, hinn nýja burðarás gjaldeyristekna í íslenskum þjóðarbúskap og helstu ástæðu ört vaxandi gjaldeyrisforða. Velgengni þessarar atvinnugreinar byggist á þrotlausri vinnu og öflugu markaðsstarfi. Við þurfum hins vegar að fara að öllu með gát. Við þurfum að hugsa fram á veginn og ekki glutra niður einstæðu tækifæri til langtímahagsældar með skammtímasjónarmiðum og einskiptisgróða. Jafnframt er nauðsynlegt að öðlast betri skilning á áhrifum ferðaþjónustunnar á aðrar atvinnugreinar, ekki hvað síst á sprotafyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni.

Ég get ekki látið hjá líða að minnast með miklu þakklæti á þrotlaust starf lögreglu, björgunarsveita og landhelgisgæslu undanfarna daga við leit og rannsókn á máli Birnu Brjánsdóttur. Með hjálp fjölmiðla höfum fylgst með þrautþjálfuðu fólki leggja nótt við dag til að upplýsa þetta átakanlega mál sem hefur hreyft við okkur öllum. Í sorginni yfir að sjá svo sviplega á bak ungri konu í blóma lífsins hefur verið huggun í þeim samhug og samstöðu sem þjóðin hefur sýnt, í viðbrögðum almennings sem  hefur leitað Birnu, veitt upplýsingar og sýnt foreldrum hennar og ástvinum hlýju og stuðning.

Ég votta fjölskyldu Birnu og aðstandendum innilega samúð mína.

Hæstvirtur forseti, góðir landsmenn.

Ríkisstjórnin er að hefja nýtt kjörtímabil, nýja vegferð sem stendur fram á þriðja áratug þessarar aldar. Á kjörtímabilinu minnumst við 100 ára fullveldis Íslands og 75 ára afmælis lýðveldisins. Við getum verið stolt af forfeðrum okkar og -mæðrum, baráttuþreki þeirra og framtíðarsýn. Þau tóku við þröngu búi en með vilja og framsýni tókst að bæta kjör þjóðarinnar.

Við getum einnig verið stolt af því hvernig við, kynslóðirnar sem á eftir fylgdu, höfum byggt upp velferðarsamfélag í fremstu röð. Við getum verið stolt af landinu okkar.

Við eigum að halda þessu góða starfi áfram og hlúa vel að umhverfi okkar sem er í sífelldri þróun. Ríkisstjórnin setur sér þannig það markmið að Ísland verði eftirsóknarvert fyrir alla þá sem vilja taka þátt í að byggja upp íslenskt samfélag til framtíðar. Samfélag þar sem mannréttindi, jöfn tækifæri, fjölbreytni, frelsi og ábyrgð ásamt virðingu fyrir ólíkum lífsskoðunum mynda sterkan grunn.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

ACD-ríkisstjórnin

Unnu náið með hæsta­réttar­dómurunum meðan þeir dæmdu Arn­fríðar­mál
Fréttir

Unnu ná­ið með hæsta­rétt­ar­dómur­un­um með­an þeir dæmdu Arn­fríð­ar­mál

Arn­fríð­ur Ein­ars­dótt­ir lands­rétt­ar­dóm­ari starf­aði sjálf sem vara­dóm­ari með tveim­ur þeirra hæsta­rétt­ar­dóm­ara sem tóku af­stöðu um hæfi henn­ar og bærni til að kveða upp dóma á sama tíma og mál­ið var til með­ferð­ar. Hinir þrír sem vald­ir voru í Lands­rétt í trássi við stjórn­sýslu­lög störf­uðu einnig ná­ið með hæsta­rétt­ar­dómur­un­um með­an Hæstirétt­ur tók fyr­ir mál sem hefði getað sett dóm­ara­störf fjór­menn­ing­anna í upp­nám.

Mest lesið

Tími jaðranna er ekki núna
6
ViðtalFormannaviðtöl

Tími jaðr­anna er ekki núna

Þor­gerð­ur Katrín Gunn­ars­dótt­ir er sá stjórn­mála­mað­ur sem mið­að við fylg­is­mæl­ing­ar og legu flokks­ins á hinum póli­tíska ás gæti helst lent í lyk­il­stöðu í stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræð­um að lokn­um þing­kosn­ing­um. Þor­gerð­ur boð­ar fækk­un ráðu­neyta, frek­ari sölu á Ís­lands­banka og sterk­ara geð­heil­brigðis­kerfi. Hún vill koma að rík­is­stjórn sem mynd­uð er út frá miðju og seg­ir nóg kom­ið af því að ólík­ir flokk­ar reyni að koma sér sam­an um stjórn lands­ins.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Við mætum í vinnuna til þess að sigra“
5
Á vettvangi

„Við mæt­um í vinn­una til þess að sigra“

Kona sem sit­ur á bið­stofu með fleira fólki er að grein­ast með heila­æxli og það þarf að til­kynna henni það. En það er eng­inn stað­ur sem hægt er að fara með hana á, til að ræða við hana í næði. Í ann­an stað er rætt við að­stand­end­ur frammi, fyr­ir fram­an sjálfsal­ann en þá fer neyð­ar­bjall­an af stað og hama­gang­ur­inn er mik­ill þeg­ar starfs­fólk­ið hleyp­ur af stað. Í fjóra mán­uði hef­ur blaða­mað­ur ver­ið á vett­vangi bráða­mót­tök­unn­ar á Land­spít­al­an­um og fylgst með starf­inu þar.

Mest lesið í mánuðinum

Leyniupptaka lýsir vinargreiða og hrossakaupum Bjarna og Jóns
1
Afhjúpun

Leyniupp­taka lýs­ir vin­ar­greiða og hrossa­kaup­um Bjarna og Jóns

Son­ur og við­skipta­fé­lagi Jóns Gunn­ars­son­ar þing­manns full­yrð­ir í upp­tök­um sem tekn­ar voru af manni sem sagð­ist vera fjár­fest­ir að Jón hafi sam­þykkt beiðni Bjarna Bene­dikts­son­ar um að þiggja sæti á lista gegn því að Jón kom­ist í að­stöðu til veita veiði­leyfi til Hvals hf. Það verði arf­leifð Jóns að tryggja Kristjáni Lofts­syni nán­um vini sín­um leyf­ið. Það sé hins veg­ar eitt­hvað sem eigi að fara leynt.
„Hann sagðist ekki geta meir“
2
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Grunaði að það ætti að reka hana
3
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.
Myndir af neyðarmóttöku sendar áfram: „Ekki myndir sem ég vildi sjá af sjálfri mér“
6
FréttirKynferðisbrot

Mynd­ir af neyð­ar­mót­töku send­ar áfram: „Ekki mynd­ir sem ég vildi sjá af sjálfri mér“

Lög­reglu var heim­ilt að senda mynd­ir sem tekn­ar voru af Guðnýju S. Bjarna­dótt­ur á neyð­ar­mót­töku fyr­ir þo­lend­ur kyn­ferð­isof­beld­is á verj­anda manns sem hún kærði fyr­ir nauðg­un. Þetta er nið­ur­staða Per­sónu­vernd­ar. Guðný seg­ir ótækt að gerend­ur í kyn­ferð­isaf­brota­mál­um geti með þess­um hætti feng­ið að­gang að við­kvæm­um mynd­um af þo­lend­um. „Þetta er bara sta­f­rænt kyn­ferð­isof­beldi af hendi lög­regl­unn­ar.“

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár