Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, spyr hvort hugmyndir um uppboð aflaheimilda snúist um að selja útlendingum fiskveiðiheimildir Íslendinga.
Bjarni sat fyrir svörum í Forystusætinu á RÚV í kvöld. Þegar rætt var um uppboðsleið Færeyinga talaði Bjarni eins og einungis eitt fyrirtæki, í eigu útlendinga, hefði keypt veiðiheimildir á uppboðunum. Sú er ekki raunin.
Þegar spyrill minntist á uppboð veiðiheimilda í Færeyjum sagði Bjarni: „Þú ert að tala um heimildirnar sem voru seldar útlendingunum, sem fóru til eins fyrirtækis. Eru menn í alvörunni að tala um það að við eigum núna að taka þessa fiskveiðiauðlind sem skapar störf út um allt land og bjóða hana til útlendinga?“
Í sumar buðu Færeyingar upp hluta af aflaheimildum sínum í tilraunaskyni. Hér á landi vakti talsverða athygli að kílóverðið sem fékkst fyrir aflaheimildirnar reyndist a.m.k. tíu sinnum hærra en tekjurnar sem íslenska ríkið aflar sér í formi veiðigjalda frá íslenskum útgerðarfyrirtækjum fyrir hvert kíló af sömu fiskitegundum.

Fiskveiðiheimildirnar í Færeyjum voru ekki seldar einu fyrirtæki heldur mörgum. Þá gátu aðeins færeysk fyrirtæki, félög í meirihlutaeigu Færeyinga, tekið þátt í uppboðinu.
Eins og Hermann Oskarsson, hagfræðingur og fyrrverandi hagstofustjóri Færeyja, benti nýlega á í viðtali við Stundina eru í gildi lög í Færeyjum um að erlendir aðilar megi í mesta lagi eiga 33 prósenta hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum. Aðeins fyrirtæki skráð í Færeyjum gátu tekið þátt í uppboðinu. „Vissulega eiga erlendir aðilar hlut í sumum þeirra, en aldrei meira en þriðjung. Þess vegna er ekki rétt að erlendir aðilar séu að sanka að sér fiskveiðikvótanum,“ sagði Hermann þegar Stundin ræddi við hann í sumar.
Á Íslandi eru einnig í gildi lög sem setja aðkomu útlendinga að fiskveiðum og vinnslu sjávarafurða mjög þröngar skorður. Annar af spyrlum RÚV, Jóhann Hlíðar Harðarsson, benti Bjarna á þetta í kvöld. „Við erum með girðingu fyrir því, útlendingar eiga ekki hér í sjávarútvegi svo það á ekki við,“ sagði hann og vísaði þar væntanlega til 4. gr. laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri sem takmarkar verulega möguleika útlendinga á aðkomu að íslenskum sjávarútvegi. Þannig er óljóst hvernig fiskveiðikvótinn á Íslandi ætti að lenda í höndum erlendra fyrirtækja.

Bjarni sagði að ef uppboðsleiðin yrði illa útfærð gæti hún valdið verulegri röskun byggðanna.
Þegar hann var spurður um lækkun veiðigjalda í viðtalinu sagði hann að ríkisstjórnin hefði hækkað veiðigjaldið á uppsjávarveiðar en lækkað á bolfisk og fullyrti að veiðigjaldið sem sett hefði verið á bolfiskinn hefði verið óframkvæmanlegt. Þá hvatti hann til þess að Íslendingar fögnuðu velgengni sjávarútvegsfyrirtækja.
„Íslendingar, við verðum að fara að gleðjast yfir því að þessari grundvallaratvinnugrein okkar gangi vel. Eru það ekki góð tíðindi annars? Er það ekki frábært? Þegar ég var í æsku þá voru þetta bæjarútgerðir sem voru í ströggli, það gekk illa“ sagði Bjarni og benti á að nú væri staða útgerðanna allt önnur, ekki síst vegna þeirra kerfisbreytinga sem lagt hefðu grunninn að stórkostlegri verðmætasköpun í sjávarútvegi.
Myndin hér að neðan sýnir hvernig veiðigjöld lækkuðu eftir að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar tók við vorið 2013. Um leið hélt afkoma sjávarútvegsfyrirtækja áfram að batna og arðgreiðslur til eigenda þeirra jukust.

Athugasemdir