Í kvöldfréttum RÚV í gær var greint frá því að eignarhaldsfélagið S8 ehf. hygðist reisa átján þúsund fermetra hótel í Vatnsmýrinni á næstu árum. Ef hótelið verður að veruleika verður það eitt það stærsta á Íslandi. Félagið, sem lögmaðurinn Jóhann Halldórsson er forsvari fyrir, var áður í eigu Tórtólafélags, Tenco Holding Services SA. Þetta kemur fram í ársreikningum félagsins fyrir árið 2008. Eigandaskipti hafa þó orðið á einhverjum tímapunkti frá því en samkvæmt nýjasta ársreikningi sem er fyrir árið 2013 er félagið í eigu Angus ehf, sem er skráð í eigu Jóhanns Halldórssonar.
S8 ehf, sem var í eigu Tortólafélags og hyggst reisa hótel í Vatnsmýrinni, skilaði engum ársreikningum yfir þetta fimm ára tímabil sem telja má sérkennilegt.
Talsvert var fjallað um félagið fyrir nokkrum árum í tengslum við eignarhald þess á höfuðstöðvum erfðatæknisfyrirtækisins Íslenskrar erfðagreiningar við Sturlugötu 8 í Vatnsmýrinni. Greint var frá því árið 2013 félagið hefði selt eignina til Vísindagarða Háskóla Íslands. Morgunblaðið greindi frá síðar á sama ári að kaupverð hafi verið 6,75 milljarðar króna. Þar áður greindi DV frá því að leiguverð Íslenskar erfðagreiningu á húsnæðinu hefði verið í hærra lagi, eða um 570 milljónir á ári.
Félagið S8 var stofnað árið 2005 og virðist fyrst og fremst verið ætlað að halda utan um eignarhald á Sturlugötu 8. Húsið hafði áður verið í eigu eignarhaldsfélagsins Festingar sem var í eigu Ólafs Ólafssonar, nú fanga á Kvíabryggju, og fjárfestingafélagsins Sunds í eigu Jóns Kristjánssonar og Páls Þórs Magnússonar. Jóhann núverandi eigandi S8 ehf. var framkvæmdastjóri Festingar. Þegar félagið var stofnað var Jóhann eini eigandi þess en vending varð á því árið 2007 þegar eignarhaldið á hlutafé færðist yfir til fyrrnefnds Tortólafélags.
Samkvæmt frétt RÚV um hótelið í Vatnsmýrinni hefur verkefnið ekki verið fjármagnað. „En síðan verður það væntanlega einhver af íslensku viðskiptabönkunum sem mun styðja við verkefnið,“ sagði Jóhann.
Athugasemdir