Veggjalús hefur fundist í húsnæði Útlendingastofnunar í Bæjarhrauni í Hafnarfirði. Þar búa nú um 75 manns á tveimur hæðum eða um fimmtungur allra þeirra hælisleitenda sem Útlendingastofnun hýsir. Á annarri hæðinni búa einstæðar konur og fjölskyldur og á hinni einhleypir karlmenn.
„Veggjalús lifir hér eingöngu í upphituðu þurru húsnæði. Hún nærist alfarið á blóði sem hún sýgur úr fórnarlömbum sínum sem oftar en ekki eru mannfólkið“ segir á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.
Þar segir jafnframt að hún geti á tíu mínútum sogið til sín sjöfalda þyngd sína af blóði. Hungruð sé hún flatvaxin en þenjist út eftir að hafa sogið blóð. Södd komi hún sér í skjól, leggist á meltu, makist og verpi eggjum. Hún verpi á felustöðum sínum og lími eggin við undirlagið. Lúsin hafist oft við í námunda við svefnstaði, til dæmis niður með rúmdýnum, undir gólflistum, í rafmagnsdósum, á bak við myndir; í stuttu máli hvarvetna sem felustaði sé að finna. Flestir fái kláða og óþægindi af bitunum.
Athugasemdir