Stundin birtir einn kafla á dag úr bók Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur, Á mannamáli, sem miðar að því að eyða ranghugmyndum um kynferðisofbeldi. Viðfangsefni bókarinnar er kynbundið ofbeldi, það er ofbeldi þar sem meirihluti brotaþola eru konur og miðast dæmin við það. Höfundur tekur þó fram að kynferðisofbeldi getur verið beitt af öllum kynjum og beinst gegn fólki af öllum kynjum.
Áfengi
Reykjavík, aðfaranótt sunnudagsins 27. maí 2007. Maður á sjötugsaldri stoppar til að gefa konu á Laugaveginum eld í sígarettu. Samkvæmt Fréttablaðinu tældi konan manninn inn í húsasund, en þar beið karlmaður „sem sló manninn með barefli í hnakkann. Þau rændu af manninum veski, farsíma, bíllyklum, tóbaki, úri og gleraugum. Síðan létu þau högg og spörk dynja á andliti hans og líkama svo hann hlaut skurði á höfði, nefbrotnaði og rifbeinsbrotnaði. Að sögn varðstjóra lögreglu hefur enginn verið handtekinn en rannsóknin mun vera í góðum farvegi.“
Í greininni var ekki á nokkurn hátt véfengt að atburðurinn hefði átt sér stað á þann hátt sem maðurinn lýsti. Þó kemur hvergi fram að nokkur hafi orðið vitni að atburðinum að undanskildum manninum sjálfum. Þegar blaðið fór í prentun hafði enginn verið handtekinn. Þrátt fyrir það var ekki talað um „meinta líkamsárás“ heldur var fullum fetum talað um „fólskulega líkamsárás og rán“.
Til samanburðar birti sami miðill, Fréttablaðið, frétt þann 5. apríl 2008 undir fyrirsögninni: „Meint misnotkun á dætrum,“ þar sem sagði að kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu rannsakaði „meint kynferðisbrot rúmlega fimmtugs karlmanns gegn tveimur dætrum sínum.“ Þann 26. mars 2009 birtist frétt þar sem sagði að „meint nauðgun“ hefði átt sér stað í heimahúsi í Vestmannaeyjum og 1. apríl var sagt frá því að „meint hópnauðgun“ hefði verið kærð til lögreglunnar stuttu áður.
En snúum okkur aftur að manninum sem varð fyrir árás á Laugaveginum. Dóttir hans sagði í viðtali við DV að maðurinn hefði farið á krá og fengið sér bjór áður en árásin átti sér stað. Þó að maðurinn hefði eytt síðustu tímunum fyrir atburðinn inni á vínveitingahúsi þótti ekki sérstök ástæða til að velta upp þeirri spurningu í fréttaflutningi hvort maðurinn hefði verið ölvaður þegar ráðist var á hann. Það kom heldur ekki fram hvort hann hefði getað spornað við verknaðinum sökum ölvunar, eður ei. Með þetta í huga kemst maður ekki hjá því að reka upp stór augu þegar um kynferðisbrot er að ræða. Skyndilega verður áfengisneysla brotaþolans gríðarlega veigamikið atriði og endurspeglast það í umfjöllun um dóma í íslenskum fjölmiðlum.
Athyglisvert er að skoða tölfræðina í umfjöllun um dómsmál á mbl.is. Ég sló inn orðunum „sökum ölvunar“ á tímabilinu apríl 2000 til apríl 2008 í fréttum Morgunblaðsins. Leitin skilaði 69 niðurstöðum. Þar af voru fjögur líkamsárásarmál. Orðin „sökum ölvunar“ áttu ávallt við um árásarmanninn, sem bar oftar en ekki fyrir sig minnisleysi.
Í kynferðisbrotum var málum allt öðruvísi háttað.
„Sökum ölvunar“ átti við um 28 kynferðisbrotamál, eða sjöfalt fleiri niðurstöður. Í öllum málunum átti lýsingin við um ástand brotaþolans, ekki ofbeldismannsins. Í öllum tilfellum var það vegna þess að brotaþolinn gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar. Hvað þýðir þetta? Ber fólki ríkari skylda til að verja sig gegn kynferðisofbeldi en annarskonar ofbeldi? Er það þess vegna sem nauðsynlegt er að taka fram að fólk hafi ekki getað varið sig sökum ölvunar þegar því var nauðgað?
Ákveðinn tvískinnungur sveipar áfengisneyslu. Í sumum tilfellum þar sem brotaþoli er ölvaður er áfengisneyslan notuð gegn honum og hann gerður ábyrgur fyrir ofbeldinu sem hann varð fyrir. Í skýrslu starfshóps á vegum ríkissaksóknara sem rannsakaði meðferð nauðgunarmála hjá lögreglu kom fram að: „Í einu máli var vinkona brotaþola spurð hvort brotaþoli ætti til að vera lauslát undir áhrifum áfengis.“
Á hinn bóginn er tilhneiging til þess að afsaka ofbeldismenn ef sýnt þykir að þeir hafi verið drukknir þegar þeir gerðust brotlegir. Í september 2008 munaði hársbreidd að kona á sextugsaldri hefði látist eftir barsmíðar sambýlismanns síns. Í frétt af málinu sagði: „Atvikið átti sér stað á heimili fólksins 1. september. Áfengi hafði verið haft um hönd, sem endaði með ofangreindum afleiðingum.“
Áfengi er haft um hönd um allt land á hverjum einasta degi, á veitingastöðum, börum, skemmtistöðum, í matarboðum í heimahúsum, á böllum, í veislum – allsstaðar. Til allrar mildi heyrir það til undantekninga að menn ráðist á sambýliskonu sína og gangi nær af henni dauðri. Þó virðist orðalag fréttarinnar gefa í skyn að ofbeldið hafi verið „afleiðing“ áfengisneyslu. Hvers, þá? Ofbeldismannsins? Er áfengisneysla afsökun fyrir ofbeldinu sem hann beitti? Eða er verið að vísa í áfengisneyslu brotaþolans? Kallaði hún atburðinn á einhvern hátt yfir sig með því að neyta áfengis? Kemur áfengi málinu eitthvað við?
Í apríl 2009 vakti auglýsing frá Lýðheilsustöð miklar deilur, en hún birtist í tímaritinu Monitor. Í henni sagði m.a.: „Ef þú drekkur ekki áttu síður á hættu að verða fyrir ofbeldi, s.s. barsmíðum eða nauðgun.“ Í stað þess að setja ábyrgðina á herðar þeirra sem kjósa að beita aðra ofbeldi var athygli almennings leidd að ástandi brotaþolans. Í raun hefði verið hægt að orða skilaboðin sem svo að „Ef þú drekkur ekki áttu síður hættu á að beita aðra ofbeldi, s.s. barsmíðum eða nauðgun“ því margur ofbeldismaðurinn hefur í gegnum tíðina borið áfengisneyslu sína fyrir sig í varnarskyni. Staðreyndin er þó sú að áfengisneysla er ekki gjaldgeng málsvörn í nútíma samfélagi. Ef drykkja leysti fólk undan ábyrgð á gjörðum sínum væri ölvunarakstur, svo dæmi sé nefnt, framandi hugtak yfir refsilausan verknað.
Fréttablaðið fjallaði um auglýsinguna og viðbrögðin við henni. Sama dag birtist útskýring á heimasíðu Lýðheilsustöðvar, þar sem gefin var sú skýring að um mistök væri að ræða: „Þessi texti er úr eldri útgáfu bæklingsins en í þeirri nýju endar setningin á „ofbeldi“ [Ef þú drekkur ekki áttu síður á hættu að verða fyrir ofbeldi] – og þannig átti hún að birtast í auglýs¬ingunni en án þess að nokkur tæki eftir slapp eldri útgáfa textans í auglýsinguna.“
Þessi skýring breytir nákvæmlega engu um inntak skilaboðanna og lýsir þar með fullkomnu skilningsleysi á kjarna málsins. Nýja útgáfa textans beinir sjónum lesandans áfram að brotaþolanum en ekki að ofbeldismanninum, þótt dæmin um tiltekin ofbeldisverk séu tekin út. Eftir að gagnrýni vegna auglýsingarinnar hafði borist frá Kvennaathvarfinu, Stígamótum, Femínistafélagi Íslands og víðar sagði Rafn M. Jónsson, verkefnisstjóri hjá Lýðheilsustöð: „Það er engu að síður staðreynd að þeir sem verða fyrir ofbeldi og árásum eru oft undir áhrifum áfengis. Þannig að ef þú velur að fara út og drekka eykur þú áhættuna á ofbeldi.“
Þetta er athyglisverð hugmyndafræði. Hér er efni í heila auglýsingaherferð:
Hægt væri að stytta sér leið með einföldu skilaboðunum: EKKI VERA TIL.
Hinn möguleikinn er að hafna þeirri hugmyndafræði að gjörðir ofbeldismanna séu skrifaðar á reikning brotaþolanna. Hvort sem roskinn maður er barinn á Laugaveginum eða ungri konu nauðgað á útihátíð skiptir áfengisneysla þeirra ekki máli hvað varðar brotið sem framið var gegn þeim. Drykkja leysir árásaraðilann ekki undan ábyrgð á gjörðum sínum.
Áfengisneysla, hvort sem um er að ræða ofbeldismannsins eða brotaþolans, réttlætir aldrei ofbeldi.
Druslugangan er alþjóðleg kröfuganga sem á sér upptök í ummælum kanadísks lögregluþjóns sem lét þau orð falla árið 2011 að konur gætu fyrirbyggt nauðganir ef þær klæddu sig ekki eins og druslur. Íslenska Druslugangan 2015 verður haldin 25. júlí kl. 14:00.
Athugasemdir