Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Útilokun flóttamanna frá því að sækja um vernd í Evrópu staðfest með dómi

Með dómi Evr­ópu­dóm­stóls­ins hef­ur Schengen-ríkj­un­um ver­ið leyft að hafna vega­bréfs­árit­un­um fyr­ir flótta­menn. Leið flótta­manna til að sækja um vernd í Evr­ópu er þannig í reynd lok­að.

Útilokun flóttamanna frá því að sækja um vernd í Evrópu staðfest með dómi
Leiðin til verndar Flóttamenn verða að smygla sér til Evrópu til að geta yfirhöfuð sótt um vernd, ef þeim er synjað um vegabréfsáritanir á grundvelli þess að þeir séu flóttamenn. Mynd: Aljazeera

Evrópudómstóllinn hefur staðfest rétt Schengen-ríkja til að hafna vegabréfsumsóknum flóttamanna sem vilja sækja um hæli. Dómur þess efnis féll í dag, þriðjudag. Vilji fólk sem sætir ofsóknum eða stríði tryggja að hælisumsókn þeirra verði tekin til meðferðar í Evrópusambandinu þarf það að koma með ólöglegum bátsferðum, sem sambandið reynir jafnframt að stöðva.

Aðdragandi málsins er sá að kristin fjölskylda úr Aleppo fór til belgíska sendiráðsins í Líbanon í október síðastliðnum, en þá stóð orrustan um Aleppo sem hæst. Foreldrarnir, sem höfðu þrjú börn meðferðis, sögðu frá brottámi og pyntingum sem annað þeirra hafði sætt og útlistuðu versnandi ástand í Sýrlandi. Sér í lagi ættu þau á hættu frekari ofsóknir og ofbeldi sem meðlimir grísku rétttrúnaðarkirkjunnar.

Dvöl í Líbanon kom ekki til greina. Líbanon hýsir hátt á aðra milljón flóttamanna, en ríkisborgarar landsins telja um fjórar milljónir. Landið er ekki aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, og flóttamannastofnunin segir yfirvöld þar „gera aðstæður flóttamanna í landinu afar erfiðar.“ Stofnunin bætir við að „eina langtímalausnin“ fyrir flóttamenn þar sé flutningur þeirra til annarra landa.

Eftir að hafa lagt fram umsóknina sína í Beirút, höfuðborg Líbanon, fór fjölskyldan aftur heim til Sýrlands að bíða niðurstöðu belgískra yfirvalda. Sex dögum síðar, þann átjánda október, var úrskurðað að þar sem vegabréfsáritun væri ekki til afmarkaðs tíma, heldur meint sem leið til að sækja um hæli, væri Belgíu heimilt að hafna henni.

Niðurstaðan er í takt við evrópsk lög og stefnu evrópskra yfirvalda. Meginreglan sem flóttamenn standa frammi fyrir er að einungis er hægt að fá hæli með því að sækja um það innan Schengen-svæðisins. Um leið er opinber stefna Evrópusambandsins að leyfa flóttamönnum ekki að komast í svæðið. Þannig er unnið að því að útiloka aðgang flóttamanna að vernd í Evrópu.

Um milljón flóttamenn komu að ströndum Evrópusambandsins, aðallega á Ítalíu og Grikklandi, árið 2015, og brutu sér leið norður á bóginn, fyrst og fremst til Þýskalands. Upp frá því hefur stjórn Evrópusambandsins reynt að koma á fót aftur frumreglum móttöku flóttamanna í álfunni, en þær ganga út á að landið sem fyrst tekur við flóttamönnunum sjái um hælisumsóknir þeirra. Tilraunir til að dreifa þeirri byrði, sem hefur nær eingöngu lent á Grikklandi og Ítalíu, hafa mætt harðri andstöðu fjöldamargra Evrópusambandsríkja. Innanríkisráðherra Íslands, Sigríður Á. Andersen, lagðist gegn breytingum á fyrirkomulaginu á ráðherrafundi Evrópusambandsins í Möltu í janúar, en þar var rætt að auka samábyrgð Evrópulanda á móttöku flóttamanna.

Nokkur Evrópulönd leyfa flóttamönnum að sækja um hæli í sendiráðum sínum, en fjöldinn sem kemur þá leið er hverfandi.

Steve Peers, prófessor í evrópskri löggjöf við háskólann í Essex, segir dóm Evrópudómstólsins vondan. „Þessi dómur er mikil vonbrigði, séð frá manneskjulegu hliðinni, því hann eftirlætur marga flóttamenn smyglurum og hættunni á að drukkna í óöruggum bátum.“

Fólk sem starfar með flóttamönnum í Evrópu var vonsvikið. Daginn áður hafði ráðgjafi við dómstólinn birt leiðbeinandi álit þar sem ógilding ákvörðunar Belgíu var rökstudd. „Ég er á milli þess að vera of reiður og of sorgmæddur til að geta farið út í þetta,“ segir sjálfboðaliði í Hollandi, sem hefur starfað í flóttamannamálum til nokkurra ára og hefur aðstoðað fólk á stríðssvæðum við að fá þessa sort af vegabréfsáritunum til Frakklands.

Hælismálaráðherra Belgíu var hinsvegar á öðru máli. Hann tilkynnti á Twitter, þegar niðurstaða málsins var ljós, „Yesss! Sigur!“

 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Sælukot hagnast um tugi milljóna en starfsfólk og foreldrar lýsa skorti
4
Rannsókn

Sælu­kot hagn­ast um tugi millj­óna en starfs­fólk og for­eldr­ar lýsa skorti

Einka­rekni leik­skól­inn Sælu­kot, sem hef­ur feng­ið millj­arð króna í op­in­ber fram­lög síð­asta ára­tug, hef­ur hagn­ast vel og nýtt pen­ing­ana til að kaupa fast­eign­ir fyr­ir stjórn­ar­for­mann­inn. Stjórn­end­ur leik­skól­ans segja mark­mið­ið vera að ávaxta rekstr­araf­gang, en fyrr­ver­andi starfs­menn og for­eldr­ar nem­enda kvarta und­an langvar­andi skorti. Skól­an­um var ný­lega lok­að tíma­bund­ið vegna óþrifn­að­ar og mein­dýra.
Hollt mataræði lykilatriði að góðri heilsu
6
Fréttir

Hollt mataræði lyk­il­at­riði að góðri heilsu

Ax­el F. Sig­urðs­son, sér­fræð­ing­ur í hjarta­lækn­ing­um, hef­ur skoð­að tengsl fæðu og lífs­stíls við sjúk­dóma, einkum hjarta- og æða­sjúk­dóma. Tal­að hef­ur ver­ið um að lífs­stíls­sjúk­dóm­ar séu stærsta ógn­in við heilsu fólks og heil­brigðis­kerfi til næstu ára­tuga. Ax­el seg­ir að fólk geti breytt miklu með hollu mataræði og hreyf­ingu. Fé­lags­leg tengsl séu líka mik­il­væg. Hann ráð­legg­ur hreina fæðu til að sporna við kvill­um.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár