Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, svarar ekki fyrirspurnum Stundarinnar og annarra fjölmiðla um kaup forsætisráðuneytisins á auglýsingaplássum í fjölmiðlum þar sem áherslumál stjórnarmeirihlutans eru auglýst í nafni „ríkisstjórnar Íslands“.
Stundin sendi upplýsingafulltrúanum fyrirspurn um málið fyrir tæplega tveimur vikum. Annars vegar var spurt um heildarkostnað við auglýsingaherferð ríkisstjórnarinnar og hins vegar af hvaða fjárlagalið útgjöldin væru. Enn hefur ekkert svar borist þrátt fyrir að upplýsingalög kveði á um að ef upplýsingabeiðni hafi ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar skuli skýra aðila frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.
Vísir.is greindi frá því í dag að fyrirspurnum um auglýsingaherferðina, sem beint var til Sigurðar Más, hefði ekki verið svarað. Í kjölfarið hæddist upplýsingafulltrúinn að fréttaflutningnum á Facebook. Hann skrifaði:
„Er eiginlega hálf svekktur að félagi minn Jakob Bjarnar Grétarsson [sá blaðamaður sem skrifaði frétt Vísis, innsk. höf.] skuli ekki birta fleiri myndir af mér með þessari stórfrétt. En er þó á 40% mynda í þessu myndasafni. Nú gæti einhver sagt að hverjum þyki sinn fugl fagur og það ráði vali á myndum en amk. ákvað Jakob að hlífa lesendum við mynd af helstu heimild sinni, varaformanni VG. Og ekki verður Jakob sakaður um að hlífa sjálfum sér, birtir óhikað ábendingu mína um að hann hefði ekki tekið eftir auglýsingunni í eigin blaði. Auglýsingarnar standa hins vegar fyrir sínu og hvet ég áhugasama um að kynna sér efni þeirra.“
Eins og Stundin hefur áður greint frá hannaði auglýsingastofan Hvíta húsið auglýsingarnar. Auglýst er í dagblöðum og vikublöðum í nafni „ríkisstjórnar Íslands“, en jafnframt hefur verið auglýst á Eyjunni.is, vefmiðli sem heyrir undir fjölmiðlasamsteypu Björns Inga Hrafnssonar, fyrrverandi borgarfulltrúa Framsóknarflokksins og góðvinar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra.
Hagfræðingar hafa gagnrýnt framsetningu talna í þeirri auglýsingu ríkisstjórnarinnar sem laut að útgjaldaliðum hins opinbera. Í dag beindi Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, fyrirspurn til forsætisráðherra þar sem spurt er um auglýsingaherferðina og kostnað við hana.
Uppfært 26. janúar kl. 16:00:
Stundinni hefur nú borist svar frá forsætisráðuneytinu. Þar segir: „Tvær auglýsingar hafa nýverið verið birtar í fjölmiðlum í nafni ríkisstjórnar Íslands, skv. ákvörðun hennar og voru auglýsingarnar kostaðar af fjárlagalið 09-990 í fjárlögum fyrir árið 2016, svonefndu ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar. Kostnaður vegna auglýsinganna nam 2,3 millj. kr. Birting frekari auglýsinga er ekki fyrirhuguð.“ Fyrirsögn þessarar fréttar hefur verið breytt í samræmi við þær upplýsingar sem eru fram komnar.
Athugasemdir