Pétur Már Guðmundsson og fjölskylda höfðu búið í leiguíbúðum árum saman, en þurftu að lokum að flýja hækkandi leigu og íbúðarverð á höfuðborgarsvæðinu. Síðast leigði Pétur, ásamt sambýliskonu sinni og börnum, íbúð á Bragagötu í miðborg Reykjavíkur og borguðu þau 200 þúsund krónur í leigu á mánuði. Leigusamsteypur voru farnar að skoða eignina og aðrar í kring, leigusalinn ætlaði að hækka leiguna og þau sáu ekki fram á að hafa efni á því að leigja eða kaupa á höfuðborgarsvæðinu. „Það var náttúrlega eins há leiga og við gátum mögulega borgað. Svo stóð til að hækka það enn frekar, þá var það eiginlega ekki hægt,“ segir Pétur.
Fjölskyldan varð að flytja inn á tengdaforeldra Péturs þar sem hún borgaði niður skuldir og lagði fyrir. Loks fengu þau lán hjá foreldrum sínum til þess að kaupa sér íbúð. „Við keyptum okkur hús á Stokkseyri, 200 fermetra hús með 2.000 fermetra lóð á tæpar 24 milljónir. Þetta er allt annar veruleiki en í bænum. Þessi markaður í Reykjavík er martröð, og hann hefur bara versnað síðan.“
Unga fólkið situr eftir
Ungt fólk situr eftir í lengstu samfelldu uppsveiflu lýðveldissögunnar. Þrátt fyrir aukinn hagvöxt og kaupmátt hefur sjaldan verið erfiðara fyrir ungt fólk að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Húsnæðisskortur, fjölgun erlendra ferðamanna og uppkaup stórra leigufélaga á jafnvel heilu íbúðablokkunum hefur ýtt undir sífellt hækkandi húsnæðis- og leiguverð á undanförnum árum sem veldur því að fjöldi fólks kemst ekki úr foreldrahúsum, gefst jafnvel upp og flytur úr landi. Ekki sér fyrir endann á þeirri þróun en samkvæmt nýlegri spá greiningardeildar Arion banka gæti húsnæðisverð hækkað um allt að þrjátíu prósent á næstu þremur árum.
Kynslóðin sem er að stíga sín fyrstu skref á bæði vinnumarkaði og húsnæðismarkaði verður einna verst úti. Há leiga á óöruggum leigumarkaði hefur einnig orðið til þess að fólk nær ekki að safna upp í útborgun á eigin íbúð. Það situr fast.
Á sama tíma hefur eldri kynslóðin sjaldan haft það jafn gott. Hækkandi fasteignaverð hefur orðið til þess að eignarhlutur þeirra í fasteignunum hefur farið sífellt hækkandi og tekjur þeirra hafa aukist. Stærsta aðgerð fyrri ríkisstjórnar í húsnæðismálum, Leiðréttingin, sneri einnig að eldri kynslóðinni, en skildi þá ungu út undan. Þar voru 72,2 milljarðar króna teknir úr ríkissjóði og millifærðir að stærstum hluta á þann helming þjóðarinnar sem fyrir átti mestar eignir á Íslandi – eignirnar sem þessi hópur getur nú annaðhvort leigt ungu kynslóðinni á sögulega háu verði eða ferðamönnum. Þá fjárfesta lífeyrissjóðirnir í auknum mæli í stórum leigufélögum sem kaupa upp heilu íbúðablokkirnar og stjórna orðið leiguverði á stórum svæðum. Lífeyrissjóðirnir taka þannig þátt í að breikka kynslóðabilið með því að ýta undir hátt leiguverð hjá ungu fólki svo að eldra fólk njóti góðs af.
Athugasemdir