Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp þar sem lagt er til að girt verði varanlega fyrir að kærur hælisleitenda fresti réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar um brottvísun í tilvikum þar sem hælisumsókn hefur verið metin bersýnilega tilhæfulaus og umsækjandi kemur frá landi sem er á lista stofnunarinnar yfir örugg ríki. Með þessum lagabreytingum yrði fest í sessi sú regla sem lögfest var til bráðabirgða síðasta haust og Stundin fjallaði um.
Í greinargerð frumvarpsins er bent á að hælisumsóknum fólks frá öruggum ríkjum, einkum Makedóníu og Albaníu, hafi fjölgað umtalsvert. Með frumvarpinu sé stefnt að því að lágmarka dvalartíma fólksins á Íslandi. Fullyrt er að þrátt fyrir þetta sé „hvorki slegið af kröfum til réttlátrar málsmeðferðar né rétti umsækjanda um alþjóðlega vernd til að fá ákvörðun Útlendingastofnunar endurskoðaða af kærunefnd útlendingamála“. Þá er tekið sérstaklega fram að „kostnaður við hvern umsækjanda í þjónustu“ sé „8.000 kr. fyrir hvern dag sem þeir dvelja í þjónustu“.
Athugasemdir